Bræðurnir voru handteknir í Rúmeníu fyrir þremur árum og ákærðir fyrir nauðganir, mansal og peningaþvætti, svo eitthvað sé nefnt. Þeir höfðu sætt ferðabanni, sem virðist hafa verið aflétt.
Fregnir höfðu borist af því að stjórnvöld í Rúmeníu hefðu sætt þrýstingi frá ríkisstjórn Donald Trump um að þeim yrði leyft að ferðast. Bræðurnir eru með tvöfaldan ríkisborgararétt; í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Þeir eru eftirlýstir í Bretlandi vegna gruns um nauðgun og mansal og til stóð að skoða framsal þangað eftir að málinu í Rúmeníu lyki.
Báðir neita sök og njóta töluverðs stuðnings meðal fylgismanna Donald Trump. Bræðurnir lýstu yfir stuðningi við Trump í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs.
Andrew Tate hefur verið sakaður um grófa kvenfyrirlitningu en líkt og Trump hefur hann haldið því fram að hann sé verkfæri Guðs til góðra hluta.