Handbolti

Hetja heims­meistaranna hand­leggs­brotnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simon Pytlick fagnar einu af mörkunum sínu í úrslitaleik HM á móti Króatíu.
Simon Pytlick fagnar einu af mörkunum sínu í úrslitaleik HM á móti Króatíu. AP/Darko Bandic

Simon Pytlick fór mikinn með danska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handbolta en heppnin var ekki með honum í Evrópudeildarleik í vikunni.

Pytlick leikur með þýska liðinu Flensburg-Handewitt og honum tóks að brjóta bein í framhandleggnum í leik á móti franska liðinu Toulouse.

Myndataka leiddi það í ljós að bein fór í sundur. Næst á dagskrá er að fara í aðgerð og það tekur tíma að koma til baka ekki síst þar sem þetta er skothöndin hans. DR segir frá.

Pytlick meiddist þegar hann reyndi skot á markið en skothöndin skall í skrokk varnarmannsins með fyrrnefndum afleiðingum.

Hann verður ekki með þýska liðinu á næstunni og missir af næstu landsleikjum Dana í mars.

Pytlick var fjórði markahæsti HM í janúar með 50 mörk og 75 prósent skotnýtingu. Hann var valinn í úrvalslið mótsins. Frábært mót hjá þessum 24 ára gamla strák en Danir urðu þar heimsmeistarar í fjórða sinn í röð.

„Þetta er auðvitað mikið áfall fyrir okkur í þeirri stöðu sem við erum í, að þurfa að spila án Simons. Við verðum bara að þétta raðirnar og fylla í hans skarð þar til að hann kemur til baka,“ sagði Holger Glandorf, framkvæmdastjóri Flensburg-Handewitt.

Það tekur Pytlick þrjá til fjóra mánuði að ná sér góðum af meiðslunum og tímbilið hans er því á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×