Þórir náði stórkostlegum árangri með norska kvennalandsliðið í handbolta og endaði þar með ótrúlegu ári 2024. Á lokaárinu vann liðið hans tvo stórmótagull og hann var valinn þjálfari ársins í tveimur löndum, bæði í Noregi og á Íslandi.
Hann er nú á milli þjálfarastarfa en það er vitað af því að mörg lið og landslið hafa áhuga á því að nýta krafta hans á næstu árum.
Handknattleikssamband Íslands nýtti tækifærið og fékk Þóri til að koma heim til Íslands og segja frá einhverjum af leyndarmálunum að baki hans frábæra árangri.

Fyrirlestrar hans verða eflaust mjög áhugaverðir hvort sem að einhver leyndarmál komi þar fram í dagsljósið eða ekki.
HSÍ stendur fyrir fyrirlestrinum í samstarfi við Arion Banka og verður hann haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, 105 Reykjavík.
Undir stjórn Þóris þá unnu norsku landsliðkonurnar ellefu stórmótagull og alls sautján verðlaun á stórmótum. Liðið varð sex sinnum Evrópumeistari, þrisvar sinnum heimsmeistari og tvisvar sinnum Ólympíumeistari.
Hafrún Kristjánsdóttir mun einnig halda fyrirlestur.
Fyrri fyrirlestur Þóris tekur 45 mínútur og fjallar um afreksstarf. Sá seinni er einnig 45 mínútur en þar fer Þórir yfir stefnu, fag og ferðalagið að árangri.
Hafrún Kristjánsdóttir heldur fimmtán mínútna fyrirlestur um mikilvægi sálfræðilegra þátta í árangri og vellíðan afreksmanna.
Fyrirlestrarnir eru fríir en þeir eru í boði HSÍ og Arion banka.