Sport

Littler pirraður á bauli á­horf­enda og bað þá um að róa sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler var óvenju pirraður í gær.
Luke Littler var óvenju pirraður í gær. getty/Evan Treacy

Hinn vanalega rólegi og yfirvegaði Luke Littler lét áhorfendur á þriðja kvöldi úrvalsdeildarinnar í pílukasti í Dublin fara í taugarnar á sér og sagði þeim að hafa sig hæga.

Littler tapaði 6-4 fyrir Gerwyn Price í átta manna úrslitum úrvalsdeildarinnar í gær. Price stóð svo uppi sem sigurvegari á kvöldinu. Hann hefur unnið fimm leiki í röð gegn Littler.

Fyrir gærkvöldið hafði Littler rætt um áhorfendur sem eru með læti á píluviðburðum og hvort pílukastarar myndu hreinlega labba af sviðinu í mótmælaskyni.

Littler gekk ekki svo langt í gær, og efast raunar um að pílukastarar muni yfirgefa sviðið, en hann var augljóslega pirraður á írsku áhorfendunum sem bauluðu á hann.

Um miðbik leiksins gegn Price í gær bað Littler áhorfendur um að róa sig eins og sjá má hér fyrir neðan. 

Þegar Littler gekk af sviðinu að leik loknum grýtti hann pílutöskunni sinni í gólfið. Þetta var heldur óvenjulegt að sjá til hins átján ára Littlers sem er vanalega yfirvegunin uppmáluð.

Littler vann úrvalsdeildina á síðasta ári og hefur unnið eitt keppniskvöld á þessu ári. Fjórða keppniskvöld fer fram í Exeter á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×