Íslenski boltinn

Faðir Gylfa Þórs segir Börk hafa gert sam­komu­lag við sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mennirnir virðast ekki á eitt hvernig samkomulagið var.
Mennirnir virðast ekki á eitt hvernig samkomulagið var. Vísir/Jakob

Sigurður Aðalsteinsson segir Börk Edvardsson, fyrrverandi formann Knattspyrnudeildar Vals, hafa gert samkomulag við sig um að Valur myndi ekki standa í vegi Gylfa Þórs, sonar Sigurðar, færi svo að þessi þaulreyndi landsliðsmaður myndi vilja yfirgefa Val.

Þetta kemur fram í viðtali Fótbolti.net við Sigurð í dag, miðvikudag. Þar segir Sigurður jafnframt að þetta sé ein helsta ástæða þess að Gylfi Þór hafi skrifað undir hjá Val á sínum tíma.

Gylfi Þór hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga eftir að hann ákvað að Hlíðarendi væri ekki fyrir sig. Gylfi Þór var svo keyptur til Víkings sem stendur nú í ströngu í Sambandsdeild Evrópu. Hann má þó ekki spila með liðinu í þeirri keppni.

Börkur sagði við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun að ekkert slíkt samkomulag hefði verið í höfn. Sigurður er ekki sáttur með þau ummæli Barkar.

„Hann er beint að segja að ég sé að ljúga þessu. Hann gerði þetta samkomulag ekki við Gylfa heldur mig. Ég er umboðsmaður hans,“ sagði Sigurður við Fótbolti.net um samning Gylfa Þórs við Val.

Sigurður staðfestir þó að samkomulagið sé ekki til á pappír en „menn eiga bara að standa við gerða samninga. Í samningnum stendur svo að ef Gylfi færi erlendis þá fengi Valur bætur en ekki sölu.“

Gylfi Þór getur ekki spilað með Víkingum fari svo að liðið fari áfram í Sambandsdeild Evrópu en Víkingar mæta Panathinaikos í Grikklandi annað kvöld. Ekki er vitað hvenær Gylfi Þór leikur sinn fyrsta leik fyrir Víking en ljóst er að spennan er mikil og þá sérstaklega fyrir næsta leik Víkings og Vals.


Tengdar fréttir

Umdeild frammistaða Gylfa í kveðjuleiknum

Gylfi Þór Sigurðsson yfirgaf herbúðir Vals í gær og samdi við Víking. Það gerðist þó ekki hávaðalaust enda sendu Valsmenn honum tóninn.

Samskiptin furðuleg og fólk tengt Gylfa við stýrið

„Þetta hafa verið óvenjulegir dagar en niðurstaða komin í málið og Gylfi farinn frá félaginu. Við erum að fá ásættanlega lausn fyrir klúbbinn. Þetta er náttúrulega hæsta sala sem hefur farið fram á leikmanni á Íslandi,“ segir Styrmir Þór Bragason, varaformaður knattspyrnudeildar Vals, um skipti Gylfa Þórs Sigurðssonar frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×