Elín var tilnefnd ein af skærustu rísandi stjörnum kvikmyndabransans í Evrópu á hátíðinni ásamt níu öðrum leikkonum. Þýska Vogue ræddi við allar sem voru tilnefndar. Tímaritið birti Instagram færslu þar sem Elín segir sína uppáhalds kvikmynd vera Labyrinth með David Bowie.
„Mér finnst hún stórkostleg,“ segir Elín meðal annars.
Elín hefur unnið mikið með franska tískuhúsinu Chanel fyrir rauða dregilinn og klæddist meðal annars ljósferskjulituðum blúndukjól frá þeim í Cannes síðastliðið sumar. Tískuhúsið er með þeim virtustu í heimi og flíkurnar fara Elínu óaðfinnanlega vel.

Elín opnaði sig í samtali við Vísi í desember síðastliðnum þar sem hún ræddi um að hafa veikst alvarlega í kjölfar kulnunar. Hún náði að hlúa vel að sér og nálgast listina upp á nýtt með nýrri nálgun.
Hún vakti athygli og hrifningu margra í hlutverki sínu sem Vigdís í samnefndum þáttum um frú Vigdísi Finnbogadóttur og hefur að sama skapi verið að fylgja kvikmyndinni Ljósbrot víða um heim. Líf hennar er með sanni ævintýraríkt og nú fylgist Evrópa spennt með komandi tímum hjá þessari rísandi stórstjörnu.