Fótbolti

Elías Rafn mætti aftur í markið og Mid­tjylland tyllti sér á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Rafn stóð vaktina með sóma.
Elías Rafn stóð vaktina með sóma. ose Manuel Alvarez Rey/Getty Images

Danmerkurmeistarar Midtjylland eru komnir á topp efstu deildar karla í knattspyrnu eftir 1-0 sigur í Íslendingaslagnum gegn Lyngby.

Efsta deild karla í Danmörku er farin aftur af stað eftir jólafrí og skoraði Mikael Anderson til að mynda fyrr í dag í 4-1 sigri AGF í Íslendingaslag gegn Sönderjyske. Í leik Midtjylland og Lyngby var það markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson sem hafði betur gegn Sævari Atla Magnússyni og félögum.

Elías Rafn meiddist í Evrópudeildarleik gegn Porto þann 12. desember síðastliðinn. Var hann fjarri góðu gamni þegar liðið lék gegn Fenerbahçe og Ludogorets í sömu keppni í síðasta mánuði sem og þegar liðið tapaði fyrir Orra Steini Óskarssyni og félögum í Real Sociedad á dögunum.

Hann var hins vegar á sínum stað í markinu þegar Lyngby kom í heimsókn í dag og þar sem Elías Rafn hélt marki sínu hreinu þá dugði mark Adam Buksa úr vítaspyrnu til að hirða stigin þrjú.

Með sigrinum fer Midtjylland á topp deildarinnar með 36 stig en FC Kaupmannahöfn mætir Randers á morgun og getur jafnað Danmerkurmeistarana að stigum.

Sævar Atli spilaði rúmlega klukkustund í liði Lyngby sem er í bullandi fallbaráttu. Liðið hefur aðeins unnið einn deildarleik á leiktíðinni og er með tíu stig að loknum 18 leikjum.


Tengdar fréttir

Víkingar sáu Sverri Inga skora í sigri

Samkvæmt heimildum Vísis var lið Víkings á vellinum þegar Sverrir Ingi Ingason skoraði í 2-1 sigri Panathinaikos á Hirti Hermannssyni og félögum í Volos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×