Líkt og greint var frá á Vísi síðdegis drógu Víkingar lið sitt úr keppni í Lengjubikarnum í dag. Víkingur átti að spila næsta leik í keppninni um helgina, en þá verður liðið erlendis vegna einvígisins við Panathinaikos. Æfingaferð er einnig á dagskrá hjá liðinu og það gekk einfaldlega ekki upp að troða inn fjórum leikjum næsta mánuðinn.
„Við erum ekki vön því að vera í þessari stöðu, að komast áfram í Evrópukeppninni, og ekki að spila á þessum tíma, svona stóra leiki. Að reyna að koma inn Lengjubikarnum og æfingaferð innan um Panathinaikos-leikina, það var bara of mikið. Púsluspilið gekk ekki upp,“ segir Sölvi Geir í samtali við Vísi.
„Við höfum reynt að koma þessum leikjum að og okkar vilji var að spila þessa leiki en tíminn gafst ekki. Við þurfum að passa upp á leikmennina okkar og að keyra þá ekki út. Þeir eru að koma úr mjög krefjandi tímabili, þar sem ekkert íslenskt lið hefur spilað eins marga leiki og við gerðum í fyrra. Til að passa upp á líkamlegan og andlegan þátt leikmanna og starfsfólks var ekki sniðugt fyrir okkur að halda áfram í Lengjubikarnum,“ segir Sölvi Geir.
Víkingar spila sögulega leiki við Panathinaikos á morgun og á fimmtudaginn næsta en þeir eru fyrsta íslenska félagsliðið sem spilar Evrópuleiki á þessum tíma. Lengjubikarinn og uppsetning hans geri einfaldlega ekki ráð fyrir að lið nái svo langt í Evrópu.
„Við þurfum í raun og veru að finna leið fyrir lið sem komast þessa leið, áfram í úrslitakeppnina í Evrópu, svo að þau geti tekið þátt í öllum þessum keppnum,“ segir Sölvi Geir.
Víkingur mætir Panathinaikos í fyrri leik liðanna á morgun. Leikurinn hefst klukkan 17:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.