Erlent

Telja Anders­son hafa skotið fólk af handa­hófi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá minningarathöfn í Örebro í gær.
Frá minningarathöfn í Örebro í gær. EPA/JESSICA GOW

Lögreglan í Svíþjóð segir líklegt að Rickard Andersson, sem skaut tíu til bana í Örebro í síðustu viku, hafi valið skotmörk sín af handahófi. Nokkur fórnarlambanna voru af erlendu bergi brotin en lögreglan segir ekkert benda til þess að Andersson hafi reynt sérstaklega að myrða útlendinga.

Árásin átti sér stað um hádegi á þriðjudaginn 4. febrúar í Campus Risbergska-skólanum í Örebro. Í skólanum fer fram fullorðinsfræðsla en hann var áður framhaldsskóli. Andersson hafði verið atvinnulaus um langt skeið og á þeim tíma mun hann hafa sótt nám í skólanum tvisvar sinnum.

Rannsakendur hafa reynt að ná utan um tilefni árásarinnar og er talið að hann hafi valið skólann vegna þess að hann hafi sótt hann áður. SVT hefur eftir Niclas Hallgren, einum yfirmanna lögreglunnar á svæðinu, að það sé eina tengingin sem hafi fundist milli skólans og árásarmannsins.

Þó er Andersson talinn hafa undirbúið árásina um nokkuð skeið. Hann hafði keypt mikið magn skotfæra og sömuleiðis reyksprengjur sem hann notaði við árásina. Það þykir benda til þess að hann hafi skipulagt árásina með fyrirvara.

Sjá einnig: Myrti sjö konur og þrjá karla

Lögreglan hefur einnig veitt frekari upplýsingar um byssurnar sem fundust í skólanum og eina sem fannst heima hjá Andersson. Hann átti tvær haglabyssur og tvo riffla en hann er sagður hafa skotið fleiri en fimmtíu skotum í skólanum. Auk þess fannst mikið magn ónotaðra skotfæra á líki hans, eftir að hann svipti sig lífi.

Hvert tilefni árásarinnar var liggur þó ekki enn fyrir.

SVT hefur eftir Hallgren að mikilvægt sé að varpa ljósi á tilefnið. Sérstaklega fyrir ættingja þeirra sem létu lífið í árásinni.

„Við munum reyna að verða við því eins og við getum.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×