Enski boltinn

Þúsund manns tóku á móti lík­fylgd Denis Law við Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United goðsögnin Denis Law var jarðaður í dag.
Manchester United goðsögnin Denis Law var jarðaður í dag. Getty/ Alan Harvey

Manchester United goðsögninni Denis Law var fylgt til grafar í dag en hann lést í síðasta mánuði 84 ára gamall.

750 sóttu jarðarförina hans en líkbíll kom líka við á Old Trafford áður en hann fór í kirkjugarðinn. BBC segir frá.

Þúsund manns veittu Law virðingu sína við leikhús draumanna þar sem hann fór á kostum á sjöunda áratugi síðustu aldar.

Bíllinn keyrði meðal annast upp að hinni frægu styttu af þeim Law, Sir Bobby Charlton og George Best sem náðu allir að fá Gullknöttinn sem samherjar hjá United, Law árið 1964, Charlton árið 1966 og Best árið 1968.

Stytta af þeim félögum, sem heitir United Trinity, hefur verið fyrir utan Old Trafford síðan 2008. Þá voru þrjú ár liðin frá fráfalli Best. Charlton lifði til 2023 og Law dó 17. janúar síðastliðinn.

Meðal gesta í jarðarförinni voru Sir Alex Ferguson og Ruben Amorim, núverandi hæstráðandi liðsins.

Sir Alex minntist Law með því að vitna í orð Pele. „Það er mjög erfitt að koma Denis fyrir í musteri þeirra allra bestu í fótboltasögunni en Pele gerði það auðveldara. Þegar hann var spurður um hvaða breska leikmann hann vildi frá í hið frábæra brasilíska landsliðið þá nefndi hann Denis Law. Það segir mikið,“ sagði Sir Alex Ferguson.

Það má sjá mótttökurnar sem Denis Law fékk við Old Trafford hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×