Enski boltinn

Sak­laus þrátt fyrir að kalla lög­reglu­mann „heimskan og hvítan“

Sindri Sverrisson skrifar
Sam Kerr er nú laus allra mála.
Sam Kerr er nú laus allra mála. Getty/Peter Nicholls

Ástralska knattspyrnukonan Sam Kerr, framherji Chelsea, er laus allra mála eftir að hafa verið ákærð fyrir kynþáttaníð í garð lögreglumanns.

Atvikið átti sér stað í Twickenham í suðvesturhluta London þann 30. janúar fyrir rúmum tveimur árum. Kerr kallaði lögreglumann „heimskan og hvítan“ en sagði fyrir rétti að lögreglan hefði egnt hana upp. Hún hafði verið flutt á lögreglustöð eftir deilu við leigubílstjóra.

Kerr neitaði því ekki að hafa kallað lögreglumanninn, Stephen Lovell, heimskan og hvítan en hafnaði því að það gæti talist lögbrot vegna kynþáttaníðs.

Ástralska landsliðskonan hafði verið á djamminu með kærustu sinni, Kristie Mewis, áður en leigubílstjóri ók þeim á lögreglustöð og kvartaði undan því að rúða í bílnum hefði verið brotin og að þær hefðu neitað að greiða þrifagjald eftir að önnur þeirra ældi í bílnum, samkvæmt frétt BBC.

Kerr kvaðst sjá eftir því hvernig hún hefði látið en sagði það ekki hafa verið hugsað sem móðgun að segja Lovell hvítan.

„Mér fannst hann vera að nota sína forréttindastöðu gegn mér því hann var að saka mig um að vera eitthvað sem ég er ekki. Ég var að reyna að sýna þau forréttindi sem þeir höfðu, að þeir myndu aldrei skilja það sem við höfðum gengið í gegnum og hvernig við óttuðumst um líf okkar,“ sagði Kerr samkvæmt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×