Viðskipti innlent

Þau hlutu UT-verðlaunin í ár

Atli Ísleifsson skrifar
Halla Tómasdóttir forseti með verðlaunahöfum um helgina.
Halla Tómasdóttir forseti með verðlaunahöfum um helgina.

Íslensku gagnaverin atNorth, Borealis Data Center og Verne Global hlutu um helgina heiðursverðlaun UT-verðlauna Ský árið 2025 fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni. Þá fengu Bara tala, Noona, Treble Technnologies, HS Orka - Auðlindastýring, Laki Power og Festi verðlaun í undirflokkum UT-verðlaunanna.

Þetta kemur fram á vef UT-messunnar sem fram fór í Hörpu á föstudag og sunnudag. Það var Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin, en þau eru glerlistaverk eftir Ingu Elínu.

Þetta er í sextánda skipti sem Upplýsingatækniverðlaun Ský eru afhent. Í tilkynningu kemur fram að fyrstu árin hafi einkum hreinræktuð tölvufyrirtæki verið tilnefnd, en það hafi breyst í takti við framþróun atvinnulífsins. 

„Í dag byggja flest fyrirtæki og stofnanir á stafrænum lausnum og skilgreina sig sem þekkingarvinnustaði. Meðal handhafa UT-verðlauna Ský undanfarin ár hafa þannig verið Controlant, Íslensk erfðagreining, Marel, Miðeind og Syndis, ásamt því sem opinberir vinnustaðir hafa margoft verið verðlaunaðir.

– UT-Heiðursverðlaunin

Íslensku gagnaverin atNorth, Borealis Data Center og Verne Global. Erling Freyr Guðmundsson hjá atNorth, Helgi Helgason hjá Verne Global og Halldór Már Sæmundsson hjá Borealis Datacenter tóku á móti verðlaununum.

Erling Freyr Guðmundsson hjá atNorth, Helgi Helgason hjá Verne Global og Halldór Már Sæmundsson hjá Borealis Datacenter tóku á móti verðlaununum.

Í rökstuðningi valnefndar segir:

Gagnaver hafa verið vanmetinn þáttur í uppbyggingu ákjósanlegrar stöðu Íslands á sviði upplýsingatækni, stafrænna samskipta og almannaöryggis. Frá því að fyrsta alþjóðlega gagnaverið hóf hér starfsemi árið 2012 eftir fjögurra ára stormasaman undirbúning, þar sem meðal annars efnahagshrun og Eyjafjallajökull settu strik í reikninginn, hefur iðnaðinum vaxið ásmegin. Nú eru hér þrjú fyrirtæki á þessu sviði sem teljast öflug á alþjóðlegan mælikvarða. Ísland hentar vel fyrir rekstur gagnavera; hér má nota náttúrulega kælingu stærstan part árs, sem nýtir raforkuna vel, og orkuinnviðir eru traustir. Viðskiptavinir gagnavera eru reiðubúnir að greiða gott verð fyrir raforku og hærra en ella fyrir orku sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Gagnaver munu leika sístækkandi hlutverk á heimsvísu á næstu árum með tilkomu gervigreindar og eftir því sem fleiri stafrænar þjónustur verða veittar "úr skýinu". Fyrirtækin þrjú; atNorth, Borealis Data Center og Verne Global hafa verið brautryðjendur hér á landi, og skapað fordæmi og skilyrði fyrir frekari vexti greinarinnar í framtíðinni.

Almenningur nýtur góðs af tilkomu gagnaveranna með margvíslegum hætti. Þau skapa eftirsótt atvinnutækifæri bæði með beinum og óbeinum hætti. Kringum þau byggist upp vistkerfi þjónustu á sviði vélbúnaðar, hugbúnaðar og annarra iðnstarfa, sem og annarrar stoðþjónustu

Þá hafa gagnaverin og viðskiptavinir þeirra að mestu leyti borið uppi uppbyggingu nettenginga Íslands við umheiminn í gegn um þrjá meginsæstrengi, Farice-1, Danice og Iris. Án þeirra væri netsamband almennra notenda - hvort sem horft er til efnisveitna á borð við Netflix, Spotify og YouTube eða skýjaþjónustu á borð við Gmail - að öllum líkindum bæði hægvirkara og dýrara en nú er.

Þá eru þjóðaröryggismál mjög til umræðu þessa dagana og þar er meðal annars horft til stafrænna innviða og áhættuþátta þeim tengdum. Vegna gagnaveranna eru eins og áður segir þrjár aðskildar gagnatengingar milli Íslands og annarra landa, en ef þær tengingar rofna allar, er nauðsynlegt að geta hýst lykilinnviði í íslenskum gagnaverum.

Stóru gagnaverin á Íslandi atNorth, Borealis Data Center og Verne Global eru í ljósi alls þessa vel að þeirri viðurkenningu kominn að hljóta UT-verðlaun Ský árið 2025.

Auk fyrrnefndra heiðursverðlauna Ský afhenti forseti Íslands undirverðlaun í sex flokkum fyrir árið 2024: Fyrirmynd í fjölbreytileika, sprotafyrirtæki, almenn stafræn þjónusta, opinber stafræn þjónust, UT-fyrirtækið í flokki minni fyrirtækja og UT-fyrirtækið í flokki stærri fyrirtækja.

Bara tala er UT-Fjölbreytileika fyrirmyndinn 2024 og tók Jón Gunnar Þórðarson við verðlaununum.

Jón Gunnar Þórðarson við verðlaununum fyrir hönd Bara tala.

Bara tala býður upp á starfstengt íslenskunám sem styrkir orðaforða, hlustunarfærni og þjálfar aðflutta í að tala íslensku. Fyrirtækið var stofnað fyrir einu og hálfu ári og stafræna lausnin er nú í notkun hjá yfir 100 íslenskum fyrirtækjum, sveitarfélögum, stéttarfélögum og opinberum stofnunum. Notendur smáforritsins eru nú yfir 7.000 talsins. Samtök atvinnulífsins veittu Bara tala þann heiður að velja lausnina sem Menntasprota ársins 2024 fyrir framúrskarandi nýsköpun í fræðslu. Bara tala býður upp á 130 stafræn námskeið, þar af eru 70 þeirra sérsniðin að hinum ýmsu starfsgreinum, svo sem hjúkrun, umönnun, leikskólakennslu, afgreiðslustörfum, þrifum, fiskvinnslu og hótelstörfum, svo fátt eitt sé nefnt. Lausnin styður innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði með því að bæta íslenskukunnáttu þeirra og auka sjálfstraust í samskiptum. Þessi nálgun hefur jákvæð áhrif á verðmætasköpun í atvinnulífinu, þar sem Bara tala gegnir mikilvægu hlutverki í að stórefla íslenskukennslu sem annað mál á Íslandi. Lausnin rímar vel við úrbótatillögur OECD, þar sem mikilvægi tungumálanáms er undirstrikað fyrir samfélagslega þátttöku og atvinnuþátttöku innflytjenda. Lausnin tryggir að íslenskan verði aðgengileg fyrir fjölbreyttan hóp notenda, óháð tungumálabakgrunni, og styður við það að íslenskan haldi stöðu sinni sem lifandi og hagnýtt tungumál í tækniþróun framtíðar.

Treble Technologies er UT-Sprotinn 2024 og tók Kristján Einarsson við verðlaununum.

Kristján Einarsson við verðlaununum fyrir hönd Treble Technoligies.

Treble Technologies sérhæfir sig í þróun á hljóðhermunarhugbúnaði (e. sound simulation software). Lausnir fyrirtækisins gera viðskiptavinum kleift að herma og hanna hljóð í hvers kyns þrívíddarmódelum, sem er sérstaklega gagnlegt við hönnun bygginga, bíla og tæknivara. Tækni Treble er einnig nýtt til þjálfunar gervigreindar, til dæmis þjálfun raddstýringa, snjallhátalara og talgreiningar. Meðal viðskiptavina sem nýta sér lausnir Treble eru nokkrir af stóru tæknirisunum, bifreiðaframleiðendur, hátalaraframleiðendur og verkfræðistofur.

Noona er UT-Stafræna almenna þjónustan 2024 og tók Kjartan Þórisson við verðlaununum.

Kjartan Þórisson við verðlaununum fyrir hönd Noona.

Noona byrjaði árið 2019 sem kerfi til að bóka tíma hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum. Í dag er Noona orðin einskonar miðstöð tímabókana á netinu, þar sem hægt er að bóna nánast hvað sem er. Þar má finna klippistofur, dýralækna, bílaverkstæði, snyrtistofur, kírópraktora, ýmsar opinberar þjónustur og miklu fleira. Kerfið er snjallt og einfalt í notkun og sparar notendum talsverðan tíma og höfuðverk við að leita að lausum tímum hjá hinum og þessum sérfræðingum.

HS Orka – Auðlindastýring er UT-Stafræna opinbera þjónustan 2024 og tók Lárus Þorvaldsson við verðlaununum.

Lárus Þorvaldsson við verðlaununum fyrir hönd HS Orku - auðlindastýringar.

Deild auðlindastýringar HS Orku hefur þróað sjálfvirkt viðvörunarkerfi fyrir eldgos, það fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu. Hugbúnaðurinn les inn gögn sem send eru á hverri mínútu frá þrýsti- og hitamæli sem staðsettur er á 850 metra dýpi í holu SV-12 í Svartsengi. Næst greinir hugbúnaðurinn gögnin og ef þrýstimerkið bendir til þess að kvika sé á hreyfingu eru sjálfvirk viðvörunarskilaboð send til Veðurstofu Íslands. Viðvörunarkerfið hefur reynst afgerandi í því að upplýsa Veðurstofuna og Almannavarnir um yfirvofandi eldgos og er kerfið nýtt þar við ákvarðanir um rýmingar.

Laki Power var valið UT-Fyrirtækið 2024 - minni fyrirtæki (færri en 50 starfsmenn) og tók Ósvaldur Knútsen við verðlaununum.

Laki Power hefur þróað lausn sem eykur rekstraröryggi og nýtingu háspennulína. Lausnin samanstendur af tækjum sem eru sett á háspennulínur og hugbúnaði sem tekur við gögnum og myndefni frá tækjunum í rauntíma. Hugbúnaðurinn metur flutningsgetu línunnar auk þess að greina möguleg vandamál sem geta leitt til skerðingar í orkuflutningi svo sem ísingu og seltu en getur einnig varað við öðrum hættum eins og skógareldum. Lausnir Laka Power eru nú þegar í notkun hjá nokkrum af stærstu raforkufyrirtækjum heims. Að auki er Laki Power að þróa hleðslustöðvar fyrir dróna á háspennulínum með einkaleyfisvarinni orkunámstækni.

Festi var valið UT-Fyrirtækið 2024 - stærri fyrirtæki (fleiri en 50 starfsmenn) og tók Ásta Fjeldsted við verðlaununum.

Ásta Fjeldsted við verðlaununum fyrir hönd Festi.

Festi hefur lagt áherslu á að nýta snjallar lausnir til að bæta enn frekar þjónustu hjá félögum samstæðunnar og einfalda daglegt líf viðskiptavina. Snjallverslun Krónunnar gerir stórum hluta landsmanna kleift að fá vörur sendar heim, auk þess sem viðskiptavinir geta skannað og skundað í verslunum með Krónuappinu og sleppt biðröðum. N1 kortið er nú aðgengilegt í N1 appinu, þar sem einnig má panta og greiða fyrir þjónustu á einfaldan hátt. Netverslun ELKO er ein stærsta netverslun landsins en þar má til dæmis nálgast verðsögu vara og bóka myndsímtal við starfsfólk. Í Lyfjuappinu geta viðskiptavinir pantað lyf heim á skjótan og öruggan hátt. Þessi stafræna vegferð er einn af lykilþáttunum í framtíðarþróun Festi,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×