Íslenski boltinn

Húsvíkingurinn frá KR til Þróttar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jakob Gunnar mun leika í Laugardalnum í sumar.
Jakob Gunnar mun leika í Laugardalnum í sumar. Mynd/Þróttur R.

Húsvíkingurinn ungi Jakob Gunnar Sigurðsson mun leika með Þrótti í Lengjudeild karla í fótbolta í sumar. Hann fer á láni frá KR.

Jakob Gunnar verður 18 ára gamall á þessu ári en hann vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína með Völsungi í 2. deildinni síðasta sumar. Hann skoraði 25 mörk í 22 leikjum og varð markakóngur. Auk þess var hann valinn besti og efnilegasti leikmaður deildarinnar.

KR klófesti Jakob Gunnar um mitt síðasta sumar en hann kláraði tímabilið með Völsungi. Hann hefur æft með KR í vetur en mun nú færa sig til Þróttar og spila með liðinu í Lengjudeildinni komandi sumar.

„Við fögnum því að fá Jakob til liðs við okkur á þessu tímabili. Hann er efnilegur leikmaður, mjög eftirsóttur og mun auka bæði breidd og styrk í leikmannahóp okkar liðs. Við bjóðum Jakob velkominn í Þrótt,“ er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, formanni knattspyrnudeildar Þróttar, í yfirlýsingu félagsins.

Þróttur hafnaði í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar síðasta sumar, fimm stigum frá umspilssæti um sæti í Bestu deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×