Hófí Dóra keppti í risasvigi og féll úr keppni þegar hún lenti utan brautar eftir langt stökk neðarlega í brautinni.
Hún var á meðal sjö keppenda sem ekki náðu að ljúka keppni en í þeim hópi var einnig bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn.
Það var heimakonan Stephanie Venier sem varð heimsmeistari en hún kom í mark á 1:20,47 mínútu og var 10/100 úr sekúndu á undan hinni ítölsku Federica Brignone. Lauren Macuga frá Bandaríkjunum og hin norska Lie Kajsa Vickhoff deildu bronsverðlaununum því þær komu í mark á sama tíma eða 1:20,71.
Hófí Dóra er eina íslenska konan sem keppir á HM en fjórir íslenskir karlar taka þátt, þeir Gauti Guðmundsson, Jón Erik Sigurðsson, Sturla Snær Snorrason og Tobias Hansen sem keppa í svigi og stórsvigi.