Daily Mail hefur tekið það saman hvernig stöðutaflan liti út ef Varsjáin hefði ekki gripið inn í þegar hún gerði það í leikjum deildarinnar til þessa.

Án VAR þá myndi Liverpool vera með einu stigi minna sem er ekki mikill munur.
Það væri aftur á móti mikill munu á Arsenal. Arsenal væri með sex stigum meira án afskipta myndbandsdómara. Það þýddi að Arsenal væri með 56 stig á móti 55 stigum hjá Liverpool.
Fimm sinnum hefur VAR breytt dómum í leikjum Arsenal liðsins og þrisvar sinnum hefur það komið í veg fyrir Arsenal sigur. Það verður þó að taka það fram að allar þær ákvarðanir voru réttar.
Án VAR þá væru Nottingham Forest og Bournemouth líka í fjórum efstu sætunum. Forest yrði áfram með 47 stig en Bournemouth væri með 45 stig eða fimm stigum meira en liðið er með í dag.
Chelsea, Manchester City, Newcastle, Aston Villa, Brighton, og Manchester United væru síðan hin liðin í efri hlutanum.
Nýliðarnir þrír væru eftir sem áður í fallsæti eins og þeir eru í dag. Ipswich væri þó með stigi meira og kæmist upp fyrir Leicester.