Innlent

Ólík­legt að hægt verði að opna Holta­vörðu­heiði í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Holtavörðuheiði er lokað vegna veðurs og flutningabíls sem þverar veginn. Myndin er úr safni.
Holtavörðuheiði er lokað vegna veðurs og flutningabíls sem þverar veginn. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Veginum um Holtavörðuheiði var lokað í morgun vegna veðurs og flutningabíls og ólíklegt er sagt að hægt verði að opna hann í dag. Hellisheiði og Þrengsli voru opnuð aftur snemma í morgun en varað er við slæmu skyggni vegna skafrennings og éljagangs.

Spáð er hratt versnandi veðri á landinu í dag og taka appelsínugular veðurviðvaranir gildi í öllum landshlutum síðdegis. Slæmt veður var einnig í gærkvöldi og var þjóðveginum um Hellisheiði lokað. 

Vegirnir um heiðina og Þrengsli voru opnaðir aftur upp úr klukkan fimm í morgun samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Óvissustig verður á vegunum frá hádegi vegna veðursins þar til klukkan 15:00 á morgun og gæti þeim verið lokað með skömmum fyrirvara.

Sama á við um fjölda annarra vega um allt land í dag og fram á morgundaginn.

Veður á að versta hratt suðvestanlands milli klukkan 13:00 og 15:00 og litlu síðar annars staðar á landinu samkvæmt ábendingu frá veðufræðingi Vegagerðarinnar til vegfarenda. Til að byrja með verður hríð á fjallvegum og flughálka þegar leysir.

Spáð er sunnan 20-28 m/s seinni partinn og í kvöld. Staðbundnir sviptivindar gætu náð 50 m/s, meðal annars á norðanverðu Snæfellsnesi, í Hvalfirði, norðan Skarðsheiðar, á Öxnadalsheiði og víða á Austfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×