Fótbolti

Neituðu til­boði Burton í Arnór Ingva

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Ingvi Traustason í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Sænska efstu deildarliðið Norrköping neitaði tilboði enska C-deildarliðsins Burton Albion í Arnór Ingva Traustason, miðjumann liðsins. Jón Daði Böðvarsson er að gera gott mót hjá Burton sem er að hluta til í eigu Íslendinga.

Hinn 31 árs gamli Arnór Ingvi hefur verið í stóru hlutverki hjá Norrköping en hefur þó alltaf haldið möguleikanum opnum á að færa sig um set standi það til boða.

Nú greinir Fotbollskanalen frá því að Burton hafi boðið í Íslendinginn en Norrköping hafi neitað boðinu. Burton er að reyna styrkja sig í von um að halda sæti sínu í ensku C-deildinni.

Arnór Ingvi staðfesti tilboðið í viðtali við Fotbollskanalen og sagði það leiðinlegt að því hefði ekki verið tekið þar sem hann hefði viljað prófa að spila á Englandi.

Nordic Football Group á nú meirihluta í Burton en um er að ræða aðila frá Norðurlöndunum, þar á meðal Íslandi. Fékk liðið framherjann Jón Daða nýverið í sínar raðir og hefur hann heldur betur lyft liðinu upp.

Hver veit nema Burton geri Norrköping tilboð sem það getur ekki hafnað áður en glugginn lokar á miðnætti.


Tengdar fréttir

Jón Daði óstöðvandi á nýjum stað

Jón Daði Böðvarsson heldur áfram að fara á kostum með sínu nýja liði Burton Albion en hann skoraði í dísætum 3-2 sigri gegn Reading í ensku C-deildinni í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×