Handbolti

Gidsel hefur búið til meira en hundrað mörk á þessu HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel hefur verið frábær með danska landsliðinu á leið þeirra í úrslitaleik HM.
Mathias Gidsel hefur verið frábær með danska landsliðinu á leið þeirra í úrslitaleik HM. Getty/Mateusz Slodkowski

Danir brunuðu í fjórða úrslitaleik heimsmeistaramótsins í röð með sannfærandi þrettán marka sigri á Portúgal í undanúrslitunum. Næst á dagskrá er úrslitaleikur á móti Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í króastíska landsliðinu í dag.

Mathias Gidsel hefur farið á kostum með danska liðinu á heimsmeistaramótinu og var með níu mörk í undanúrslitaleiknum.

Hann er bæði markahæsti leikmaður keppninnar til þessa sem og sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar.

Gidsel kom að tólf mörkum í gær og hefur þar með komið með beinum hætti að yfir hundrað mörkum á HM.

Hann hefur skorað 64 mörk í átta leikjum eða fjórtán mörkum meira en næsti maður sem er Frakkinn Dika Mem.

Gidsel er því svo gott sem búinn að tryggja sér markakóngstitil á öðru heimsmeistaramótinu í röð.

IHF

Gidsel er líka búinn að gefa 41 stoðsendingu. Þar deilir hann efsta sætinu með Sílemanninum Rodrigo Salinas sem spilar ekki fleiri leiki.

Samtals hefur Gidsel því komið að 105 mörkum en næsti maður er 35 mörkum á eftir honum. Það er liðsfélagi hans Simon Pytlick sem er með 46 mörk og 24 stoðsendingar.

105 sköpuð mörk í átta leikjum þýða að Gidsel er að búa til 13,1 mark að meðaltali í leik á þessu heimsmeistaramóti.

Þegar Gidsel var markahæstur á HM 2023 þá var hann með 60 mörk og 42 stoðsendingar í 9 leikjum. Hann hefur því þegar skorað fjórum mörkum meira og komið að þremur mörkum meira á mótinu í ár.

Verði hann markakóngur á HM eins og allt stefnir í þá hefur náð því að verða markakóngur á öllum stórmótunum þremur á einu ári. Hann varð líka markahæstur á EM 2024 og á ÓL 2024 í Paris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×