Klukkan tólf á hádegi taka gildi þrjár gular veðurviðvaranir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Faxaflóa. Klukkan tíu í kvöld verða í gildi viðvaranir á öllu landinu, þar af appelsínugular á Suðausturlandi, Breiðafirði og Miðhálendinu. Mikil rigning og asahláka verður á Suðausturlandi og á höfuðborgarsvæðinu.
Víða verður hiti á bilinu fjögur til tíu stig, og gæti jafnvel farið yfir það á Norðurlandi. Víða verður hvöss sunnanátt og eru ferðalangar hvattir til að aka með gát, einkum ef ökutæki taka á sig vind.
Rúmlega fimmtíu flugferðum til og frá landinu hefur verið aflýst, flestum eftir hádegi. Þá er einnig gert ráð fyrir að röskun verði á innanlandsflugi.
Hafa hamast í niðurföllunum
Hjalti Jóhannes Guðmundsson er yfir rekstri og umhirðu hjá Reykjavíkurborg. Hann og hans fólk eru í óðaönn að undirbúa sig fyrir veðrið sem á leiðinni er.
„Og höfum verið að hamast í að moka frá niðurföllum og lágpunktum, og reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma vatninu rétta leið,“ segir Hjalti.
Við öllu búin
Hressileg hlánun hófst á höfuðborgarsvæðinu í gær sem bregðast hafi þurft við.
„Við erum bæði með mannskap og vélar í það, vegna þess að það er það mikill snjór að við þurfum að nota vélar til þess að skafa ofan af þessu og tryggja að niðurföllin séu opin.“
Um helgina verði vel búinn mannskapur á ferð um borgina, að losa þekkt niðurföll og bregðast við ábendingum borgarbúa.
„Af því að við búumst við hinu versta en vonum það besta.“