Fargjaldaálagið er almenn 15 þúsund krónur en 7.500 krónur á ungmenni og aldraða. Á öryrkja er það 4.500 krónur. Ekki er innheimt fargjaldaálag af börnum yngri en 15 ára.
Jóhannes segir fólk almennt ekki bregðast illa við.
„Þetta hefur gengið hingað til ágætlega. Þetta er eitthvað sem við viljum gera sem minnst af,“ segir hann en hann ræddi sektirnar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
Jóhannes segir einhverja hafa verið með frumlegar skýringar og jafnvel hlægilegar.
Hann segir ekki komna reynslu á innheimtuna því gjalddaginn sé ekki kominn en við lok mánaðar muni koma í ljós hvort fólk greiði sektina eða ekki. Hann telur að búið sé að gefa út um 50 sektir. Séu það almennar sektir gætu þær numið um 750 þúsund krónum en ef um er að ræða sektir á ungmenni eða aldraða gætu þær numið 375 þúsund krónum.
„Við höfum heimildir í lögunum til að fara í löginnheimtu en vonandi reynir ekkert á það,“ segir Jóhannes.
Hann segir að fyrir þennan tíma hafi eina úrræði strætóbílstjóra verið að vísa fólki úr vagninum. Sé það gripið við það að greiða ekki rétt fargjald í dag eigi að gefa því færi að greiða rétt fargjald og halda áfram með ferðina. Hann segir að nú sé hægt að greiða með síma og því sé auðvelt að gera það.
Kaupa ungmennamiða í stað fullorðins
Hann segir nokkuð algengt að fólk svindli sér um borð í strætó. Að ná 50 á þessum tíma geti gefið til kynna að hlutfallið sé um 20 til 25 prósent sem séu ekki að greiða rétt fargjald.
„Það er frekar hátt og kannski fyrst og fremst að fólk er að kaupa rangt fargjald. Er að kaupa miða fyrir ungmenni en eru fullorðin,“ segir Jóhannes. Oftast sé það þannig þegar fólk er gripið.
Hann segir eftirlitsmenn spyrja fólk um kennitölu og aldur og geta flett fólki upp í þjóðskrá. Það séu um tveir til fjórir eftirlitsmenn starfandi en það sé til skoðunar að fjölga þeim tímabundið. Hann segir fundað með eftirlitsmönnum vikulega. Strætó hafi fengið tilkynningar um „fullharkalegar“ innheimtuaðgerðir og að það sé farið yfir allar slíkar tilkynningar.
„En það er oftast ekki á rökum reist.“
Umferðin valdi seinkunum
Jóhannes segir færðina undanfarið hafa verið erfiða en einnig umferðina. Vagnarnir séu oft seinir seinnipartinn og seinkunin geti verið allt að klukkutími þessa dagana. Umferðin sé að aukast og það hafi áhrif. Leiðirnar séu í forgangi en ef þau mæta bíl eða ef einhver leggur illa við strætóleið geti það haft áhrif.