Ísland hóf leikinn illa eins og Aron segir og ástæðan fyrir því er tapið gegn Króatíu í fyrradag.
„Algjörlega. Við gerðum allt, reyndum allt til að gleyma þessu. En það er bara erfiðara en að segja. Við erum bara ennþá allir drullufúlir með stöðuna sem við erum í og ég kenni því bara alfarið um hvernig við komum leiks. Ef við hefðum verið á okkar degi hefði þetta endað frekar illa fyrir þá [Argentínumenn].“
Nú tekur við löng bið fyrir strákana okkar sem munu líklega ekki fá að vita fyrr en upp úr níu í kvöld hvort þeir komist áfram í átta liða úrslit.
„Sár og fúl tilfinning. Maður er bara endalaust að berja sig í hausinn yfir frammistöðunni í fyrri hálfleik á móti Króatíu. En við komum okkur í þetta og þurfum bara að lifa með þessu. Næstu fimm eða sex tímar verða ógeðslega erfiðir, en svona virkar þetta og við komum okkur út í þetta, þannig að við verðum að taka því.“
Aron veit ekki hvort hann ætlar að horfa á leikinn „eða láta hugann reika“ á meðan honum stendur. Hann leyfir sér ekki að vona.
„Ég held að við séum bara búnir og ég ætla að fara inn í kvöldið með það [hugarfar],“ sagði Aron en taldi samt ekki við hæfi að kalla mótið búið. Viðtalið má sjá hér að neðan.