Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að kaflinn sem um ræðir sé vestanmegin á götunni, með akstursstefnu í suður. Einnig sé gert ráð fyrir nýjum strætóstöðvum nálægt gatnamótunum við Háaleitisbraut. Vegagerðin, Betri samgöngur, Reykjavíkurborg og Strætó vinni saman að þessu verkefni.
Forhönnun hafi verið kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gærmorgun og samþykkt hafi verið að halda áfram undirbúningi við verkið.
Sparar fimm mínútur
Markmiðið með uppbyggingu forgangsakreinar á Kringlumýrarbraut sé að stytta ferðatíma um allt að fjórar til fimm mínútur fyrir strætófarþega, sem eru til dæmis á leið frá Borgartúni. Með nýrri forgangsakrein komist Strætó greiðar leiðar sinnar óháð annarri umferð og leiðin sé beinni. Framkvæmdirnar hafi ekki áhrif á akreinar fyrir almenna bílaumferð heldur verði miðeyja minnkuð.

Eins og staðan er fari Strætó ekki þarna um núna af því að umferðin sé of hæg á annatímum og engar biðstöðvar Strætó séu á þessum slóðum. Í dag aki strætisvagnar upp Miklubraut, fram hjá Kringlu og svo vestur eftir Háaleitisbraut og beygi síðan norður Kringlumýrarbraut.
Boðið út fyrir vorið
Loks segir í tilkynningu að unnið hafi verið að greiningu á umferðarástandi, veitulögnum og samspili við aðrar framkvæmdir á þessum vegkafla. Vinna við verkhönnun og útboðsgögn sé framundan en vonast sé til að hægt verði að bjóða út fyrsta hluta framkvæmda út fyrir vorið og hefja svo framkvæmdir á strætórein í suðurátt í framhaldinu.