„Enginn möguleiki í Herning helvítinu,“ var fyrirsögn Kicker um leikinn í gær. Hann fór fram fyrir framan fimmtán þúsund áhorfendur í Jyske Bank BOXEN þar sem Danir eru ekki vanir að tapa.
Dönsku heimsmeistararnir léku á alls oddi í leiknum í gær og skoruðu 24 mörk í fyrri hálfleik. Á endanum urðu dönsku mörkin fjörutíu talsins en Þýskaland hefur aldrei fengið á sig jafn mörg mörk í leik á stórmóti.
Mathias Gidsel átti stórleik fyrir Dani í gær en hann skoraði tíu mörk úr tólf skotum og gaf ellefu stoðsendingar. ARD segir að Þjóðverjar hafi ekki átt nein svör við Gidsel í leiknum í gær og tala um Gidsel Gala.
Bild segir að Þjóðverjum hafi mistekist að hefna fyrir tapið stóra fyrir Dönum í úrslitaleik Ólympíuleikanna fyrir 163 dögum.
Tapið fyrir Dönum er þó ekki verra fyrir Þjóðverja en svo að ef þeir vinna Ítali á morgun eru þeir öruggir með sæti í átta liða úrslitum mótsins.
Danmörk hefur unnið alla fjóra leiki sína á HM með samtals 65 marka mun. Danir hafa unnið 32 leiki á HM í röð en þeir geta orðið heimsmeistarar fjórða skiptið í röð.