Erlent

Segir Hitler-samanburð þreyttan

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk á sviði fyrir framan stuðningsmenn Trumps í gær.
Elon Musk á sviði fyrir framan stuðningsmenn Trumps í gær. Getty/Justin Sullivan

Elon Musk, auðugasti maður heims, segir árásir Demókrata gegn sér vera orðnar þreyttar. Þeir þurfi að finna ný „óþrifabrögð“ því að það sé orðið þreytt að kalla fólk nasista eða Adolf Hitler.

Þetta sagði Musk á X í nótt, í kjölfar ávarps hans á samkomu Repúblikana í gær, eftir innsetningarathöfn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Ávarpið vakti mikla athygli sökum þess að þegar Musk þakkaði stuðningsmönnum Trump fyrir stuðninginn gerði hann tvisvar sinnum handahreyfingu sem hefur lengi verið kennd við nasista og Adolf Hitler.

Hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir þetta.

Sjá einnig: Musk sakaður um að heilsa „að nasistasið“

Verjendur hans vísa til þess að eftir þetta sagði Musk: „My heart goes out to you“ sem gæti íslenskast sem: „Frá mínum dýpstu hjartarótum“ og segja þeir handahreyfinguna umdeildu hafa táknað það.

Musk sjálfur hefur ekki tjáð sig beint um atvikið, þó hann hafi verið mjög svo virkur á X, samfélagsmiðli sínum í nótt.

Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt, að íslenskum tíma, endurtísti Musk þó tísti um að „kveðju gabbið“ væri eingöngu hluti af áróðursherferð Demókrataflokksins. Færslunni fylgdi skjáskot af gamalli færslu Musks um af hverju hann sagði skilið við Demókrataflokkinn og sagði fólki að búast við árásum gegn sér.

„Hreint út sagt þurfa þeir betri bellibrögð. Þessi „allir eru Hitler“ árás er orðin svooo þreytt,“ skrifaði Musk.

Meðal þeirra sem hafa komið Musk til varnar eru samtökin Anti Defamation League eða ADL en það eru samtök sem stofnuð voru til að berjast gegn gyðingahatri og berjast nú gegn alls kyns hatursorðræðu.

Í færslu samtakanna segir að handahreyfing Musks hafi verið „vandræðaleg“ en hann hafi ekki verið að heilsa að nasistasið.

Þá kalla samtökin eftir því að fólk sýni öðrum skilning og draga andann rólega.

New York Times hefur eftir Masha Pearl, sem leiðir samtökin Blue Card, sem aðstoðuðu fólk sem lifði helförina af, að hún liti atvikið alvarlegum augum og að Musk hafi verið að heilsa að sið nasista. Hann hafði áður tekið þátt í að dreifa áróðri gegn gyðingum og sökum þess væri óumdeilanlegt hvað hann hefði gert.

Sjá einnig: Musk fundar um gyðingaandúð með ráða­mönnum í Ísrael

Bandarískir nýnasistar hafa verið duglegir við að tala um atvikið og er Andrew Torba, stofnandi hins umdeilda samfélagsmiðils Gab sem er vinsæll meðal nýnasista, samsæringa og annarra.

Hann deildi mynd af Musk á síðu sinni og sagði að „ótrúlegir hlutir“ væru strax byrjaðir að eiga sér stað.

Blaðamenn Rolling Stone hafa tekið saman ummæli þó nokkurra alræmdra öfgamanna vestanhafs sem hafa tekið kveðju Musks fagnandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×