Upphitun stuðningsmanna er hafin í Zagreb og leikurinn sjálfur, sem sker úr um það hvort liðanna kemst með fjögur stig áfram í milliriðlakeppnina, hefst svo klukkan 19:30 að íslenskum tíma.
Teymi Vísis var á Johann Franck, í miðborg Zagreb, og hitti þar á hresst stuðningsfólk íslenska landsliðsins á stuðningsmannagleðinni sem hófst þar í borg snemma í dag.
Íslenskir stuðningsmenn hafa stutt vel við strákana okkar og þeim á svo sannarlega eftir að fjölga í þessari viku.
Ísland og Slóvenía unnu bæði stórsigra gegn Grænhöfðaeyjum og Kúbu í fyrstu leikjum sínum á HM. Sigurliðið í kvöld kemur sér í afar góð mál fyrir keppni í milliriðli, þar sem bíða leikir við Króatíu, Egyptaland og Argentínu. Tvö lið komast áfram úr milliriðlinum í 8-liða úrslit mótsins.








