Handbolti

Strákarnir okkar gætu verið ofar og neðar en Slóvenar á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson hefur verið markahæsti leikmaður íslenska liðsins í tveimur fyrstu leikjunum.
Orri Freyr Þorkelsson hefur verið markahæsti leikmaður íslenska liðsins í tveimur fyrstu leikjunum. Vísir/Vilhelm

Íslenska handboltalandsliðið gæti verið í furðulegri stöðu eftir leik kvöldsins á HM. Strákarnir okkar gætu nefnilega endað neðar en Slóvenar í riðlinum en verið samt ofar en Slóvenar í milliriðlinum.

Úrslitin ráðast í kvöld í riðli Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta en þá fer fram lokaumferð G-riðilsins. Ísland og Slóvenía eru bæði komin áfram í milliriðil en mætast í kvöld í úrslitaleik riðilsins.

Þetta er í raun fyrsti leikur liðanna í milliriðli því þau munu taka þessi úrslit með sér yfir í milliriðilinn, bæði stig og markatölu.

Slóvenía og Ísland eru fyrir leik með jafnmörg stig og sama nettó í markatölu eftir tvo fyrstu leikina. Báðar þjóðir eru með fjögur stig og +34 í markatölu. Slóvenar eru hins vegar í fyrsta sætinu á fleiri mörkum skoruðum.

Það þýðir líka að Slóvenum nægir jafntefli í kvöld til að vinna riðilinn. Þrátt fyrir þá staðreynd gæti íslenska liðið samt byrjað ofar í töflunni í milliriðlinum.

Ástæðan fyrir því er að þjóðirnar taka úrslitin með sér á móti þeim þjóðum sem fara líka upp úr riðlinum.

Komist Grænhöfðaeyjar áfram þá er það betra fyrir íslenska landsliðið. Ísland vann Grænhöfðaeyjar með þrettán marka mun en Slóvenar létu sér nægja tólf marka sigur.

Slóvenar unnu Kúbu með 22 marka mun en íslenska liðið vann Kúbverja með 21 marks mun. Það hentar því Slóvenum örlítið betur ef Kúba vinnur Grænhöfðaeyjar í dag og tryggir sig inn í milliriðilinn.

Geri Ísland og Slóvenía jafntefli og Grænhöfðaeyjar vinna Kúbu þá kemur fyrrnefnd staða upp. Slóvenía vinnur þá riðilinn en Ísland verður samt ofar en slóvenska liðið í milliriðlinum.

Stigin tvö sem eru í boði í kvöld eru hins vegar íslenska liðinu lífsnauðsynleg í baráttunni um sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Það verður því hart barist í leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×