Erlent

Heitir um­fangs­mestu brott­vísunum í sögu Banda­ríkjanna

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Trump lofaði stuðningsmönnum sínum að „berjast, berjast, berjast“ og „sigra, sigra, sigra“ áður en hann gekk af sviðinu með Y.M.C.A í hátalarakerfinu.
Trump lofaði stuðningsmönnum sínum að „berjast, berjast, berjast“ og „sigra, sigra, sigra“ áður en hann gekk af sviðinu með Y.M.C.A í hátalarakerfinu. AP

Umfangsmiklar brottvísanir útlendinga, stórfelldur niðurskurður umhverfisreglugerða, stórsókn í gervigreindarmálum, og stofnun hagræðingarráðuneytis eru meðal áforma sem Donald Trump útlistaði í ræðu sem hann hélt fyrir stuðningsmenn sína í kvöld. Hann verður settur í embætti forseta Bandaríkjanna á morgun.

„Hver einasta róttæka og kjánalega forsetatilskipun sem ríkisstjórn Bidens skrifaði undir verður horfin á brott aðeins klukkustundum eftir að ég tek við,“ sagði Trump.

„Þegar sólin sest annað kvöld verður búið að stöðva innrásina í gegnum landamærin okkar, og allir ólöglegir innflytjendurnir verða á einhvern hátt á leið aftur heim til sín,“ sagði Trump.

Þá lofaði hann að útrýma svokallaðri DEI stefnu alfarið úr Bandaríkjaher. DEI er einskonar fjölmenningar og inngildingarstefna.

Trump vék máli sínu einnig að vopnahléinu á Gasa, og sagði það aldrei hafa getað gerst án hans. Hann segist eiga mikinn þátt í samningnum sem náðist, og þakkar Steve Witkoff  sérstaklega fyrir veitta aðstoð við samningsgerð.

„Við höfum náð meiri árangri áður en við tökum formlega við forsetaembættinu heldur en þeim tókst á fjórum árum með forsetanum,“ sagði hann.

Undir lok ræðunnar sagði hann að framundan væru fjögur bestu ár í sögu Bandaríkjanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×