Greint var frá því í byrjun júní 2023 að slóvakíski seðlabankinn hefði afturkallað leyfi Novis og farið fram á það að félaginu yrði skipaður slitastjóri. Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði þá að algjör óvissa væri uppi um stöðu tryggingartaka hér á landi. Þá vakti Seðlabankinn athygli á því í apríl á síðasta ári að enginn slitastjóri hefði verið skipaður. Sex til sjö þúsund Íslendingar hafa keypt tryggingar af Novis en mikil óvissa ríkir um stöðu þeirra.
Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin vekur athygli á því nú níu mánuðum síðar að enn hafi enginn slitastjóri verið skipaður. Seðlabankinn vekur athygli á málinu á vefsíðu sinni.
Hvetja fólk til að hætta að borga
Viðskiptavinir Novis eru varaðir við áhættu af áframhaldandi iðgjaldagreiðslur til félagsins og áhrifum af mögulegri skiptameðferð félagsins. Seðlabanki Slóvakíu hefur haft takmarkaðar eftirlitsheimildir gagnvart Novis allt frá afturköllun starfsleyfisins.
Fram kemur að af framangreindum sökum liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu Novis. Seðlabanki Íslands geti því ekki fullyrt að fjárhagsstaða Novis sé nægilega trygg til að mæla með að vátryggingartakar haldi áfram iðgjaldagreiðslum til félagsins.
Íslendingar meðal eigenda
Meðal dreifingaraðila sem selt hafa afurðir Novis hérlendis er vátryggingamiðlunin Tryggingar og ráðgjöf ehf.. Þá á íslenska fyrirtækið TRBO hlut í Novis en eigendur þess eru líka eigendur Tryggingar og ráðgjafar.