Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.
Lögregla var einnig kölluð til vegna konu sem var búin að koma sér fyrir inni í geymslurými á veitingastað. Konan reyndist heimilislaus en gekk leiðar sinnar þegar lögreglu bar að. Lögreglu barst einnit tilkynning um par sem var búið að koma sér fyrir í anddyri fjölbýlishús en þau voru á brott þegar lögregla kom á vettvang.
Lögregla hefur til rannsóknar þjófnað á hóteli og atvik þar sem ökumaður var sagður hafa verið ógnandi í hegðun eftir að hafa ekið utan í aðra bifreið. Lét hann sig hverfa í kjölfarið.
Slökkvilið var kallað til þegar eldur í ruslafötu við leikskóla var farinn að dreifa sér í nærliggjandi grindverk. Eldurinn var slökktur en tjón varð á grindverkinu og ruslafötunni.
Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, ýmist vegna hraðaksturs, aksturs undir áhrifum eða aksturs án ökuréttinda.
Þá var aðstoðar lögreglu óskað vegna öskurs á heimili í borginni en þegar komið var á vettvang reyndist um að ræða húsráðanda sem var að horfa á fótbolta og hvatti lið sitt áfram þannig að heyrðist í næstu íbúðir.