Í síðasta mánuði var íslenskt nautasæði tekið til kyngreiningar á Nautastöðinni á Hesti í Borgarfirði í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Kyngreint var sæði úr fimm íslenskum nautum og einu Angus-holdanauti. Kyngreinda sæðið verður notað í tilraun í fjósum landsins og er nú á leiðinni eða komið til frjótækna.
Rafn Bergsson kúabóndi á Stóru Hildisey í Austur Landeyjum er formaður deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands og veit því allt um kyngreinda sæðið.
„Þetta er tækni, sem hefur verið í þó nokkurn tíma þekkt erlendis en við erum loksins að taka í gagnið hér á landi núna að kyngreina nautasæði. Það þýðir það að þegar ég sæði kúnna með kyngreindu sæði þá get ég með svona sirka 90% vissu verið viss um hvort kynið kálfurinn verður. Það er stórmagnað að þetta skuli vera hægt,” segir Rafn.
Rafn segir kúabændur sjá mikil sóknarfæri með kyngreinda sæðinu.
„Sóknarfærin eru kannski að sæða bestu kýrnar sínar með kvígusæði þó það hljómi nú skringilega það orð, en ég meina bestu kýrnar þannig að maður fái kvígukálfa og það væri þá möguleiki að sæða lakari kýrnar með holdanautasæði Angus og fá þá afurðameiri kjötgripi,” segir Rafn.

Og eru kúabændur almennt jákvæðir fyrir þessu heldurðu?
„Já, ég hef ekki hitt neinn, sem er neikvæður út í þetta enda veit ég ekki hvernig það er hægt.”
Og hvenær byrjar þetta formlega, er þetta byrjað eða hvað?
„Nei, við erum að fara af stað með ákveðin tilraunafasa. Sæðið er komið í kútana hjá frjótæknunum og vonandi í næstu viku verður farið að sæða kýrnar og svo á að meta árangurinn hvernig fanghlutfall verður, þannig að við erum að byrja á þessari tilraun,” segir Rafn Bergsson formaður deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands.
