„Það er verra að vera sakaður um að beita ofbeldi en að verða fyrir því sjálfur“ Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 15. febrúar 2025 08:03 Þetta var í fyrsta skipti á þjálfaraferlinum sem Sævar var ásakaður um framkomu af þessu tagi, og í fyrsta skipti sem hann hafði nokkurn tímann verið sakaður um að beita aðra manneskju ofbeldi. Vísir/Vilhelm „Þetta er ofbeldi sem mun alltaf fylgja mér og þetta er eitt af stærstu örunum sem ég er með á sálinni. En í dag veit ég að þessi ör munu gera mig enn sterkari og enn auðmjúkari en áður,“ segir Sævar Ingi Borgarsson fyrrum afreksíþróttmaður, líkamsræktarþjálfari og osteópati en líf hans umturnaðist fyrir tæpum tveimur árum. Sævar stofnaði á sínum tíma fyrirtæki í kringum vörumerki sitt, Superform, en um var að ræða sérstaka tegund af æfingaprógrammi sem Sævar kenndi um árabil í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Í byrjun júlí árið 2022 kvisaðist út kjaftasaga um að Sævar hefði slegið konu sem var við æfingar utan undir og ausið yfir hana svívirðingum. Sævar hefur alla tíð neitað því að hafa beitt umrædda konu ofbeldi. Að sögn Sævars voru 35 manns í tímanum fyrir utan hann og konuna þennan umrædda dag. Engu að síður hafi enginn getað borið vitni um að umrætt atvik hefði átt sér stað. Konan sem upprunalega lagði fram ásakanirnar tjáði sig aldrei opinberlega um málið og sýndi ekki vilja til að fara lengra með það. Atvikið átti engu að síður eftir að draga dilk á eftir sér. Sævar var að eigin sögn tilneyddur af eigendum Sporthússins til að framselja rekstur fyrirtækisins og upplifði jafnframt algjöra útskúfun í bæjarfélagi sínu, Keflavík. Málið hafi valdið honum ólýsanlegu tjóni, fjárhagslegu og ekki síður andlegu, en á tímabili var vanlíðan hans slík að hann íhugaði að svipta sig lífi. Undanfarið ár hefur hann gengið í gegnum endurhæfingarferli. Og í dag stendur hann keikur. Sævar varð sjálfur fyrir langvarandi ofbeldi sem barn af hálfu móður sinnar. Áhrifin af því áttu eftir að fylgja honum langt fram á fullorðinsaldur– og móta hann fyrir lífstíð. „Það er verra að vera sakaður um að beita ofbeldi en að verða fyrir því sjálfur. Kannski var höggið þar af leiðandi þeim mun þyngra fyrir vikið.“ Hræðslan á nóttunni Sævar er fæddur árið 1974 og ólst upp í Keflavík í hópi sex systkina. Hann var sjö ára gamall þegar foreldrar hans skildu og hann og systkini hans voru skilin eftir í umsjá móður sinnar. Hún var alvarlega veik af alkóhólisma, sem skilaði sér að sögn Sævars í langvarandi ofbeldi gagnvart honum og systkinum hans. Þegar hún drakk skipti hún um ham. „Ég veit ekki hvað olli því, en það var mikil reiði sem bjó í mömmu og þegar hún drakk þá lék reiðin lausum hala. Við systkinin vorum lamin og „terroriseruð.“ Ég man eftir því að hafa oft verið sleginn og hent frá borðinu ef ég hellti niður.” Sævar og systkini hans þurftu að hans sögn oftar en ekki að sjá um sig sjálf. Oft var enginn matur til á heimilinu og þau leituðu til fólksins í kringum sig sem sá aumur á þeim. „Þetta eru aðstæður sem skapa mikið óöryggi. Líkamleg og andleg vanræksla fyrir barn sem þarf snertingu, ást og umhyggju - og staðfestingu á að maður sé í lagi eins maður er.“ Sævar er ekki í neinum vafa um að fjölskylda, nánustu aðstandendur og skólakerfið hafi vitað eða að minnsta kosti grunað að ekki var allt með felldu á æskuheimili hans. Engu að síður hafi aldrei neinn séð ástæðu til að grípa inn í málin. Þetta var á áttunda áratugnum og þöggunin í samfélaginu var meiri. „Það sáu allir vanræksluna en ég er ekki viss um fólk hafi grunað eitthvað um ofbeldið. Það hylmdu allir yfir þetta og það vildi enginn gera neitt. Þetta var þessi sjúklega meðvirkni. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég fór að tala við hina og þessa, að ég komst að því hvað það voru margir í kringum okkur sem voru meðvitaðir um ástandið á sínum tíma.“ Hann minnist þess að hafa alið með sér gífurlegan ótta og óöryggi, sérstaklega á nóttunni. Hann gat ekki sofið nema með ljósið kveikt. Móðir hans var gjörn á að koma inn í svefnherbergi eftir að hann og systkini hans voru sofnuð, til þess eins að gefa reiðinni útrás og hrella þau. „Ég man alltaf þessa tilfinningu, og hræðsluna sem greip mig þegar ég fann höndina á mömmu koma upp í efri kojuna, og vera svo gripinn og grýttur,“ rifjar hann upp. Sævar og systkini hans heimsóttu pabba sinn reglulega og í þeim heimsóknum upplifði Sævar öryggi. Sævar lagðist í djúpa sjálfskoðun á sínum tíma og einbeitti sér að því að verða betri maður.Vísir/Vilhelm Sneri við blaðinu 23 ára Þegar Sævar var orðinn tíu ára gamall urðu kaflaskipti í lífi hans. „Pabbi kynntist annarri konu, ástinni í lífi sínu. Hún átti engin börn og hún tók við okkur öllum fjórum systkinum og einu barnabarni.” Sævar endaði á því að flytja alfarið til föður síns, við miklar mótbárur móður sinnar. Þar var hann kominn í öryggi en hann glímdi þó ennþá við afleiðingar ofbeldisins. „Ég held að flestir þekkja þegar börn pissa undir á nóttunni fram eftir aldri sem tengist óöryggi, hræðslu og vanlíðan af einhverju sem gerðist eða aðstæðum til lengri tíma. Í mínu tilfelli þá pissaði ég undir lengi vel eftir að ég var kominn í öryggi, eða fram til þrettán ára aldurs.“ Samband Sævar og móður hans var slitrótt allar götur síðan. Móðir Sævars hefur að hans sögn aldrei viðurkennt ofbeldið. Hann tók að engu að síður þá ákvörðun á sínum tíma að fyrirgefa móður sinni. „Ég ákvað að sjá hana eins og hún er, en ekki eins og ég vildi að hún væri.“ Hún gerði sitt besta og ég er þakklátur fyrir það sem hún kenndi mér. Ég get sagt með vissu að líklega hefur enginn kennt mér jafn mikið og hún, því þegar á botninn er hvolft þá getum við líka lært af brestum foreldra okkar til betra lífs og rofið þannig vítahringinn.“ Hann lýsir því hvernig unglingsárin einkenndust meira og minna af mikilli reiði og vanlíðan. „Hún var föst í mér, þessi reiði og hún var alltaf að reyna að finna einhvern farveg. En ég áttaði mig ekki alveg á því hvaðan hún kom, ekki fyrr en seinna.“ 16 ára ára gamall kynntist hann áfengi og verandi barn með slíka sögu, þá er ekki líklegt að það endi vel. „Ég hef gert mistök; slæma hluti sem ég sé eftir og ég hef tekið ákvarðanir sem eru ekki góðar.“ Þegar hann var orðinn 23 ára gamall varð hann fyrir áfalli sem rekja mátti til drykkju. Það breytti að hans sögn öllu; það var eitthvað sem „klikkaði“ í hausnum. Í kjölfarið sneri hann við blaðinu. „Svo byrjar vinnan, sem er aldrei í línulegum árangri. En maður lærir af mistökum og heldur áfram. Þrjátíu árum síðar lítur maður til baka og sér að maður hefur gert tonn af mistökum á þeirri vegferð en það er eitthvað sem hjálpaði mér að finna þann mann sem ég er í dag.“ Sævar efast ekki um að þessi djúpa sjálfskoðun- og vinna sem hann lagðist í hafi undirbúið hann undir það sem seinna kom. Íþróttirnar Íþróttir voru bjargráð Sævars í æsku; fótbolti, handbolti, körfubolti, badminton og frjálsar íþróttir. Hann spilaði fótbolta til 28 ára aldurs og fór þaðan í kraftlyftingar og fitness. Hann varð þrefaldur Íslandsmeistari í Icefitness, sem var undanfari þess sem kallað er Skólahreysti í dag. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum og tvöfaldur heimsmeistari slökkviliðs- og lögreglumanna og sló met í öllum greinum sem standa ennþá daginn í dag. „Í sjálfu sér hafa íþróttir bjargað mínu lífi og hjálpað mér að breyta því sem mig langaði að breyta. Keppnisíþróttir kenna þér aga, uppbyggilega sjálfsgagnrýni og ef þú ert tilbúinn að vinna fyrir sigrunum þá eru titlarnir nær öruggir. Þar af leiðandi var þessi breyting kannski auðveldari fyrir mig heldur en aðra, en til að breyta sjálfum sér þá þarf maður að horfa í spegilinn. Sjá brestina og kannski elska sig nógu mikið til að hafa hugrekki að breyta því sem hægt er að breyta. Henda út reiðinni með því að fyrirgefa þeim sem ollu manni skaða sem barn. Það er fáránlegt hvað lífið getur breyst þegar maður lærir að fyrirgefa, ekki endilega fyrir aðra heldur mest fyrir mann sjálfan. Í framhaldinu þarf maður síðan að bera ábyrgð og hætta að kenna öðrum um, því það skiptir ekki máli hvort það er rétt eða rangt, sanngjarnt eða ósanngjarnt, því hvort sem er, þá er maður staddur á sama stað.“ Superform Árið 2000 sneri Sævar sér að þjálfun. Hann starfaði við einkaþjálfun í langan tíma og endaði á því að hanna sitt eigið æfingakerfi, Superform, þar sem æfingarnar byggjast á lyftingum með ketilbjöllum, æfingateygjum og ýmsum fjölbreyttum æfingum þar sem unnið er í skorpuþjálfun eða sekúndum þar sem unnið og hvílt er í fyrirfram ákveðinn tíma. Haustið 2012 fór Sævar í samstarf með Sporthúsinu sem þá hafði nýlega opnað stöð í Reykjanesbæ. Á átta árum fór hann að eigin sögn úr því að hafa 30 manns yfir í að hafa 800 manns á samningi. „Superform varð að samfélagi þar sem stór hópur fólks reiddi sig á mig. Þetta var „concept“ sem ég bjó til og ól upp; þetta var barnið mitt. Í samfloti rak ég stofu sem osteópati. Félagslega netið var, og hefur alltaf verið, allt í tengslum við mína atvinnu og þetta var ástríðan mín til langs tíma.“ Sævar er lærður oseópati og rekur eigin stofu.Vísir/Vilhelm Sagan kvisaðist út Föstudaginn 1. júlí árið 2022 fór af stað atburðarás sem átti eftir að kollvarpa lífi Sævars. Atburðarás sem stendur í raun enn yfir í dag. Sævar kenndi hópatíma í Sporthúsinu umræddan dag og átti á einum tímapunkti samskipti við konu sem var þátttakandi í tímanum, til að leiðbeina henni með æfingar. „Þetta var á föstudegi, ég þjálfa þennan tíma og fer svo bara heim og fer inn í helgina með krökkunum mínum. Á mánudeginum fer ég aftur í vinnuna og er að koma úr morguntíma þegar ég fæ hringingu frá vini mínum, sem spurði mig hvort ég hefði verið að slá konu. Ég hélt að hann væri eitthvað að djóka. En þá var þetta semsagt sagan sem var byrjuð að ganga.“ Að sögn Sævars var honum tjáð að fyrrnefnd kona sem hafði verið í tímanum hjá honum hefði farið í partí á föstudagskvöldinu og tjáð þar fólki að Sævar hefði slegið hana. Í kjölfarið hafi sagan síðan breiðst út. Sævar kom að eigin sögn algjörlega af fjöllum. Fleiri símtöl bárust í kjölfarið. Hann kveðst hafa haft strax samband við Sporthúsið, sagt frá málavöxtu og óskað þegar í stað eftir upptökum úr öryggismyndavélum í salnum. Þá hafi komið í ljós að þær voru ekki til staðar, þar sem tíminn hafði verið kenndur í nýjum sal þar sem ekki var búið að tengja upptökubúnaðinn. Stillt upp við vegg Sævar kveðst hafa upplýst eigendur Sporthússins um málið þegar í stað á mánudeginum. Þeir hafi haft samband við umrædda konu. Hún hafi tjáð þeim að Sævar hefði beitt sig ofbeldi í tímanum, slegið til hennar, slegið hana í höndina og hreytt ljótum orðum í hana. Að sögn Sævars voru 35 manns í tímanum fyrir utan hann og konuna þennan umrædda dag. Engu að síður hafi enginn getað borið vitni um að umrætt atvik hefði átt sér stað. Sævar segir að þegar gengið hafi verið á konuna, meint fórnarlamb, hafi hún ekki viljað leggja fram kæru eða aðhafast neitt frekar í málinu. Vísir hefur undir höndum aðilaskýrslu sem Þröstur Jón Sigurðsson eigandi Sporthússins gaf fyrir dómi á sínum tíma, en þá hafði Sævar stefnt eigendum Sporthússins. Þröstur segist í vitnisburði sínum hafa hvatt konuna til að leggja fram kæru, en hún hafi ekki viljað koma fram undir nafni né kæra. „Hún vildi bara að þetta mál væri búið. Þannig að hún vildi ekki að neitt yrði úr málinu.“ Á öðrum stað í vitnisburðinum segir Þröstur að konan hafi „ekki viljað blanda nafni sínu í þetta“ og að það „hafi verið alveg á hreinu.“ „Hún var miður sín út af þessu máli og vildi bara helst að því væri lokið.“ Atvikalýsing Þrastar Jóns á því sem gerðist upp úr gangaskýrslu í dómsmálinu „Og þetta atvikast þannig að þetta er kona sem er búin að æfa lengi hjá okkur og hún er að gera þarna einhverja hnébeygjuæfingu í tíma hjá Sævari. Sævar er víst og var víst búinn að vera þarna að leiðrétta hjá henni tækni í hnébeygju í talsvert langan tíma og konan var búin að ná ágætis árangri þarna í mái, að mati hennar og Sævars. Það a.m.k. var það sem að kom afram. Síðan þótti Sævari hún ekki standa sisg sem skyldi, þegar hann kemur þarna til baka úr þriggja-fjögurra vikna sumarfríi. Konan verður eitthvað foj þegar að Sævar gerir athugasemd við æfinguna hjá henni og hún ætlar að ganga í burtu og Sævar kallar á eftir henni bara og biður hana að stoppa, sem hún gerir. Þegar að hún snýr sér við, að honum, þá þykist Sævar ætla að löðrunga hana, setur svona hægri hendi, og setur svo vinstri hönd á milli og slær saman höndum hérna við hliðina á andlitinu á henni. Konunni bregður og verður eitthvað foj og þá segir Sævar hérna; má ég sjá hend- eða komdu með hendina á þér - og hún réttir fram á sér hendina og hann slær hérna á handarbakið á henni og segir skamm, og meira var það ekki. Þetta er sem sagt það sem að atvikið sem að þau lýstu bæði þennan dag þegar ég hringi í þau. Sævar upplifir þetta, talar um þetta sem eitthvað grín, en hún upplifði þetta allt öðruvísi. Hún fer þennan föstudag eitthvað með vinkonum sínum og fer að segja þessa sögu. Úr verður sú saga að Sævar hafi slegið hana og þar með er bara allt í einu samfélagið komið á hlið.“ Sævar segist hafa leitað eftir því á sínum tíma að eiga samtal við konuna, en ekki fengið tækifæri til þess. „Ég vildi fá að tala við hana og heyra hennar hlið og tjá henni mína upplifun. Ef hún hefði misskilið mig eða upplifað mig leiðinlegan þá langaði mig að biðjast afsökunar á því, því það hafði aldrei verið minn ásetningur að vera leiðinlegur. Enn fremur myndi ég aldrei biðjast afsökunar á að hafa slegið manneskju sem ég hef aldrei slegið og hef aldrei reynst annað en vel.“ Þremur dögum síðar var Sævar boðaður á fund hjá Sporthúsinu. Að hans sögn voru honum gefnir tveir kostir: að vera rekinn eða framselja rekstur sinn til Sporthússins. „Mér var tjáð að ég hefði til hádegis daginn eftir, og ef ég kæmist ekki að niðurstöðu þá myndu þeir taka ákvörðun fyrir mig.“ Upplifun Sævars er sú að honum hafi verið stillt upp við vegg. Það eina sem hafi vakið fyrir honum á þessum tímapunkti hafi verið að tryggja sér fjárhagslegt öryggi. Hann hafi því metið það svo að hann væri nauðbeygður til að selja reksturinn annars yrði gert út af við hann og honum valdið tjóni. Hann hafi verið þvingaður til að selja fyrirtæki sitt til Sporthússins -fyrir fjárhæð sem hann hafi ekki verið í aðstöðu til að semja um. „Ég mátti ekkert segja og enginn mátti verja mig. Þetta var á toppi Metoo hreyfingarinnar og það var auðvelt að sjá að enginn myndi elta mig, ég var búinn með allt peningaflæðið úr fyrirtækinu í gegnum Covid til að halda öllu á floti og greiða laun þjálfara og var komast á flug og út úr þeim aðstæðum. Ekki nóg með það, þá hefði ég þurft að færa stofuna mína líka þar sem hún var staðsett í Sporthúsinu. Það var engin leið önnur en að selja og enginn fyrirsjáanleiki að ég myndi fá vinnu. Samkvæmt samningnum þá mátti ég ekki segja neitt og mátti ekki heldur þjálfa í þrjú ár á Suðurnesjunum. Ég hefði getað tekið slaginn en ég var ekki mjög burðugur á þessum tíma til að gera eitt né neitt.“ Gjörbreytt viðmót Sævar segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn á þjálfaraferlinum sem hann var ásakaður um framkomu af þessu tagi, og í fyrsta skipti sem hann hafi verið sakaður um að beita aðra manneskju ofbeldi. „Í mínu tilfelli, í mínum huga og í minni sál, þá er aðeins eitt verra heldur en að vera alinn upp í ofbeldi, og það er að vera síðan sakaður um ofbeldi á fullorðins aldri.“ segir hann. „Aðstæðurnar voru þannig að ég óskaði þess að ég væri í raun sekur. Það hefði verið auðveldara, því þá hefði ég getað sagt við sjálfan mig að þetta væri mér að kenna, að ég hefði komið mér sjálfur í þessar aðstæður og þyrfti að taka því sem kæmi -og halda áfram.“ Þrátt fyrir að engin kæra hefði verið lögð fram eða formleg rannsókn gerð á málinu þá dugði orðrómurinn til þess að Sævar var, að eigin sögn, „slaufaður“ í litla samfélaginu í Keflavík. Umrædd partísaga átti eftir að taka á sig fleiri myndir. Í einni útgáfunni átti atvikið til að mynda að hafa átt sér stað á skemmtistað. „Þó að litli innsti hringurinn hafi staðið við bakið á mér þá var ég samt svo einn, því ég mátti ekkert segja og enginn mátti svara fyrir mig. Að missa allt þetta svona snöggt og sitja eftir í gríðarlegri óvissu um framtíðina, fjárhagslega, samfélagslega og ekki síst frá frelsissviptingalegu sjónarmiði. Fáir heilsuðu mér eða töluðu við mig. Hálfu ári síðar þegar ég reyndi að fara vinna aftur, voru skjólstæðingar sem leituðu til mín á stofuna í meðhöndlun spurð af hneykslun afhverju þau væru að mæta til manns eins og mín. Þegar ég lít til baka í dag þá sé ég að ástæða þess að fólk heilsaði mér ekki var ekki sú að þau héldu að ég væri sekur, heldur vegna þess að þau voru búin að átta sig á því að ég var saklaus,“ segir Sævar. Sævar kveðst hafa farið að þróa með sér sívaxandi kvíða, sem hann hafði aldrei fundið fyrir áður.Vísir/Vilhelm Hann var að eigin sögn óvinnufær í tæpt ár, með tilheyrandi fjárhagserfiðleikum. Þá hafi ekki bætt úr skák að umsamdar greiðslur frá Sporthúsinu hafi hætt að berast eftir fjóra mánuði, en samið hafði verið um 24 mánaðarlegar jafnar greiðslur. Líkt og fyrr segir endaði Sævar á því stefna eigendum Sporthússins vegna vanefnda á kaupsamningi varðandi kaupin á Superform. Niðurstaða héraðsdóms lá fyrir í desember árið 2023 og var Sævari í hag. Eigendur Sporthússins voru dæmdir til að greiða honum 6 milljónir króna og 1,2 milljónir í málskostnað. Eigendur Sporthússins áfrýjuðu þó niðurstöðunni. Sævar segir að nokkrum mánuðum eftir atvikið hafi kona haft samband við sig. Hún hafi tjáð honum að hún hefði verið í tímanum þennan umrædda dag og verið „partner“ konunnar í tímanum, það er að segja konunnar sem lagði fram ásakanirnar. Að sögn Sævars tjáði umrædd kona honum að hún hefði ekki séð neitt gerast. Átti erfitt með að treysta konum Sævar kveðst hafa farið að þróa með sér sívaxandi kvíða, sem hann hafði aldrei fundið fyrir áður. Hann hafi þolað sífellt minna álag. Hann dregur ekki í efa að um áfallastreitu hafi verið að ræða. Undir lokin hafi kvíðinn orðið verulega lamandi. Sævar var að eigin sögn kominn á þann stað að hann íhugaði að svipta sig lífi. „Fyrstu tvo eða þrjá mánuðina fékk ég kvíðakast á hverjum degi, ég grét alla daga og átti erfitt með að tjá mig án þess að fara að gráta. Og ég er ekki maður sem er vanur að gráta mikið. Kvíðinn átti eftir að minnka, en var samt alltaf til staðar. Að hafa engan tilgang í lífinu og vera kominn á þann stað að það væri best fyrir alla, og börnin manns mest af öllum, er mjög sjúkur staður að vera á. Mér verður flökurt af þeim minningum ennþá í dag. Að þurfa að hlusta á fólk segja við mann: „Þetta verður allt í lagi“ eða „Þú munt koma til baka“ eða „Þetta er bara kjaftasaga sem gengur yfir.“ Fáfræðin hjá fólki sem áttar sig engan veginn hvernig það er að vera í þessum aðstæðum. Litla barnið mitt var tekið af mér og síðar myrt. Superform var barnið mitt og vinnan sem ég var búinn að setja í það mælist ekki til fjár. Þetta var „passionið“ mitt og stórt samfélag sem ég hafði búið til þar sem fólk reiddi sig á mig.“ Það var Sævari til happs að komast undir hendur læknis sem sá á hvaða stað hann var. Hann segir umræddan lækni hafa bjargað lífi sínu. „Hann kom mér til dæmis að hjá VIRK og sá til þess að ég fengi sérhæfða hjálp, enda var ég ekki þetta „eðlilega“ tilfelli sem ratar á borðið hjá VIRK.“ Sævar tók að lokum þá ákvörðun, fyrir tilstilli sálfræðings, að flytja úr bæjarfélaginu þar sem hann er fæddur og uppalinn og hafði búið alla tíð. Hann segir slaufunina hafa haft þær afleiðingar að hans versta og erfiðasta martröð hafi verið sú að tala við konu, eða treysta konum yfirhöfuð. „Fyrstu tvö árin fann ég fyrir kvíða ef ég talaði við konu; ég ritskoðaði og afsakaði allt sem ég sagði og gerði í kringum konur. Ég finn ennþá fyrir þessu í dag, en þetta er samt nánast alveg hætt. Heilinn á mér var alltaf að segja mér að passa mig og treysta ekki konum. Ég aftur á móti gerði mér grein fyrir því að konur eru ekki verri en karlar og til að vinna á þessum hugsunum sem ég stjórnaði ekki þyrfti ég að fara beint í aðstæðurnar og róa þessar hugsanir. Í öllu mínu bataferli, ákvað ég að aðeins myndi ég leita til kvenna. Sálfræðingarnir, þjónustufulltrúinn minn hjá VIRK og fleiri voru allt konur.“ Endurheimt Þann 2. desember síðastliðinn, á fimmtudagsafmælisdaginn og að loknu löngu endurhæfingarferli, birti Sævar opna færslu á facebook þar sem hann rakti sögu sína undanfarin tvö ár. Þetta var í fyrsta skipti sem hann tjáði sig opinberlega um málið. „Ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að ég ætlaði ekki að tjá mig neitt opinberlega fyrr en ég væri kominn á þann stað að ég væri orðinn sterkur, sterkari en áður en þetta gerðist.“ Viðbrögðin við færslunni voru til þess að blása honum von í brjóst. Hann fékk óteljandi stuðningskveðjur og hvetjandi athugasemdir. Hann fékk að eigin sögn ekki ein einustu skilaboð eða símhringingar þar sem sakleysi hans var dregið í efa. „Endurhæfing í tvö ár og í dag er ég kominn aftur, hef aldrei verið jafn sterkur og úr því að ég lifði þetta af þá mun ég lifa af það sem kemur næst. Næst er endurheimt. Ég mun berjast fyrir því að ná fram réttlæti í þessu máli og er með áætlum sem ég mun fylgja eftir. Ekki fyrir aðra heldur fyrir mig og mína réttlætiskennd og ef ég er þekktur fyrir eitthvað, þá er það að þegar ég set mér einhver markmið, þá geri ég það 100 prósent og klára allt sem ég set fyrir framan mig,“ ritar Sævar í umræddri færslu. Fyrirgefningin hefur heilunarmátt Þann 6. febrúar síðastliðinn lá fyrir dómur Landsréttar í máli Sævars gegn eigendum Sporthússins. Niðurstaða dómsins var nokkuð afgerandi, og var Sævari í hag. Eigendum Sporthússins var gert að greiða honum sex milljónir króna, auk dráttarvaxta. Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram að „ekkert hafi komið fram í málinu sem orðið geti til þess að ekki verði fallist á fjárkröfur stefnanda.“ Dómur Landsréttar er að mati Sævar ákveðin kaflaskipti í sögunni – en málinu er þó ekki lokið af hans hálfu. „Það er margt sem hefur ekki komið fram sem þarf að líta dagsins ljós; hlutir sem hafa verið sagðir og gerðir á minn hlut og fólk sem þarf að koma fram og axla ábyrgðar. Eitt er víst: enginn á Íslandi hefur hagnast á dómstólaleiðinni, hvorki fjárhagslega né sálarlega séð. En sannleikann og réttlætið mun ég draga fram í dagsljósið. Þó ótrúlegt sé þá langar mig að fyrirgefa þeim og mig langar það mikið. Og ég mun gera það á endanum. Vonandi á eins hreinan hátt og hægt er með því að þau axli ábyrgð og segi „Fyrirgefðu“ af einlægni. Það væri draumurinn fyrir mér og myndi líklega vera mest af öllu læknandi því þá myndi ég sjá sársaukan og vanlíðanina í þeirra augum og sál. Það er svo gott, og í raun auðvelt, að fyrirgefa fólki sem sýnir þá auðmýkt. En ef ekki þá mun ég klára mitt mál og sækja það sem ég á og fyrirgefa þeim fyrir að vera ekki sterkari manneskjur en þau eru og óska þeim velfarnaðar því þau þurfa að lifa með því sem þau hafa gert.“ Sævar stendur uppréttur í dag- þremur árum síðar.Vísir/Vilhelm Hefur lært af mistökunum Sævar tekur skýrt fram að líti hvorki á sig sem fórnarlamb né hetju. Hann vonar að hans saga geti veitt öðrum innblástur; hvatningu til að líta inn á við. „Árangur er aldrei línulegur og ég hef líklega gert flest öll mistök sem hægt er að gera. Svíkja, ljúga, stela, særa og svo margt fleira. Börn sem fá slíkt uppeldi eins og mér var gefið, þau þurfa að læra með tilraunum og mistökum hvað eðlileg samskipti eru, hvað eðlilegt samband er og svo framvegis. Þegar ég horfi til baka og hugsa af auðmýkt þá veit ég að ég hef aldrei gert á hlut annarra viljandi eða með slæmum ásetningi. En það er engu að síður margt sem maður þarf að horfast í augu við. Það góða er að ég á auðvelt með að biðjast fyrirgefningar og viðurkenna þegar ég hef rangt fyrir mér. Og ég hef oft haft rangt fyrir mér. Það viðhorf hefur líklega hjálpað mér mest að læra af mistökunum og þar af leiðandi geri ég sjaldan sömu mistökin aftur. Þrátt fyrir allt þá geri ég mér grein fyrir að ég er heppinn og ég má vera þakklátur fyrir það sem ég hef, því það er til fullt af fólki sem hefur gengið í gegnum mun erfiðara líf en ég. Það er mitt að spila sem best úr þeim spilum sem mér voru afhent og eitt er víst, hvort sem maður fær afhent góð spil eða slæm, þá þarf að spila þeim, gera það besta með það sem maður hefur og halda áfram.“ Sævar minnist á kvikmyndina Gladiator í þessu samhengi- og þá speki sem þar kemur fram: „Hún hefur þá merkingu að allt sem þú segir og gerir endurkastast á manneskjuna við hliðina á þér. Ef þú hefur hreina sál og hreina samvisku þá mun það sem þú segir við aðra hafa góð áhrif á aðra. En ef þér líður ílla og ert með óhreina samvisku þá mun það endurspeglast í umgengni þinni við aðra. Ef við horfum á fólkið í kringum okkur, á börnin okkar og maka, þá munu þau fá mesta skítinn og svo aðrir í kjölfarið. Þar af leiðandi ertu að hafa áhrif á framtíðina til hins verra,“ segir hann jafnframt. „Það er leið inn í framtíðina, með því að byrja á að horfa inn á við; skoða hvað varð um litla barnið sem við vorum og máta það við sig og það sem við erum í dag. Þaðan getum við lært að elska það við erum, kosti okkar og galla. Það krefst hugrekkis að viðurkenna fyrir okkur sjálfum hver við erum og byrja á einu atriði í einu sem okkur langar sem mest að breyta, með auðmýkt og ást. Ég veit það sjálfur að ég verð sterkari eftir allt þetta, því að ég hef eytt svo löngum tíma í sjálfskoðun sem er orðin að ávana hjá mér. Ef þetta líf hefur kennt mér eitthvað þá er það að dagurinn í dag og dagurinn á morgun er það eina sem skiptir máli. Þannig eru draumarnir búnir til. Ég er að fara þangað.“ Fréttin hefur verið uppfærð með lýsingum Þrastar Jóns Sigurðssonar eiganda Sporthússins úr dómsmáli Sævars á hendur Sporthúsinu vegna uppgjörs. Líkamsræktarstöðvar Ofbeldi gegn börnum Suðurnesjabær Helgarviðtal Mest lesið Tveir sérlega hættulegir gómaðir á Íslandi og gríðarleg fjölgun verkefna Innlent Vill svipta glæpamenn íslenskum ríkisborgararétti Innlent Morðtilræði, vændi og frændi sagður drepinn fyrir komuna til Íslands Innlent Virðist kenna Úkraínumönnum um stríðið og stöðu mála Erlent Ráðist á bifreiðar með spörkum og hamri Innlent Tvö þúsund Íslendingar í hverri viku á Tenerife Innlent Samtenging sjúkraskráa auki sjúklingaöryggi Innlent Þingið kafi í styrkveitingarnar Innlent Myndbönd sýna flugvélina lenda harkalega og enda á hvolfi Erlent „Óumflýjanlegt“ kílómetragjald kynnt í vikunni Innlent Fleiri fréttir „Óumflýjanlegt“ kílómetragjald kynnt í vikunni Þingið kafi í styrkveitingarnar Morðtilræði, vændi og frændi sagður drepinn fyrir komuna til Íslands Tveir sérlega hættulegir gómaðir á Íslandi og gríðarleg fjölgun verkefna Ráðist á bifreiðar með spörkum og hamri Samtenging sjúkraskráa auki sjúklingaöryggi Vill svipta glæpamenn íslenskum ríkisborgararétti Tvö þúsund Íslendingar í hverri viku á Tenerife Vegabætur taldar auka straum ferðafólks um Norðausturland Fékk net í aðalskrúfuna og dreginn í land Strandveiðar augljóslega ekki ábatasamasta leiðin við veiðar „Mjög langur“ listi fjölmiðla sem hægt yrði að velja úr Fá að rukka fyrir geymslu á líkum Heilsugæslan sektuð af Persónuvernd og brotthvarf Gylfa Vongóð um að nýr meirihluti verði myndaður fyrir helgi Uppskar hlátur er hann ræddi klæðaburðinn Segir búið að teikna upp aðgerðir og boðar til aukafundar Vaxandi líkur á tíðindum innan nokkurra daga eða vikna Guðrún slapp naumlega við steinsmuguna Sáttasemjari fundaði með forystu Kennarasambandsins Bannar öðrum en heilbrigðisstarfsfólki að sprauta í varir Lögðu hald á marga blóðuga muni eftir ofsafengna árás Kærðir fyrir að stunda fólksflutninga í óleyfi Pallborðið: Fjórir berjast um formannssætið í VR Býður sig fram til formanns Rafiðnaðarsambandsins Persónuvernd leggur fimm milljóna sekt á Heilsugæsluna Bundið slitlag á síðasta kafla Norðausturvegar Eldur í mathöllinni í Hveragerði Bankasamruni hugnast ekki Neytendasamtökunum Enginn með stöðu sakbornings í rannsókninni á Mánagarði Sjá meira
Sævar stofnaði á sínum tíma fyrirtæki í kringum vörumerki sitt, Superform, en um var að ræða sérstaka tegund af æfingaprógrammi sem Sævar kenndi um árabil í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Í byrjun júlí árið 2022 kvisaðist út kjaftasaga um að Sævar hefði slegið konu sem var við æfingar utan undir og ausið yfir hana svívirðingum. Sævar hefur alla tíð neitað því að hafa beitt umrædda konu ofbeldi. Að sögn Sævars voru 35 manns í tímanum fyrir utan hann og konuna þennan umrædda dag. Engu að síður hafi enginn getað borið vitni um að umrætt atvik hefði átt sér stað. Konan sem upprunalega lagði fram ásakanirnar tjáði sig aldrei opinberlega um málið og sýndi ekki vilja til að fara lengra með það. Atvikið átti engu að síður eftir að draga dilk á eftir sér. Sævar var að eigin sögn tilneyddur af eigendum Sporthússins til að framselja rekstur fyrirtækisins og upplifði jafnframt algjöra útskúfun í bæjarfélagi sínu, Keflavík. Málið hafi valdið honum ólýsanlegu tjóni, fjárhagslegu og ekki síður andlegu, en á tímabili var vanlíðan hans slík að hann íhugaði að svipta sig lífi. Undanfarið ár hefur hann gengið í gegnum endurhæfingarferli. Og í dag stendur hann keikur. Sævar varð sjálfur fyrir langvarandi ofbeldi sem barn af hálfu móður sinnar. Áhrifin af því áttu eftir að fylgja honum langt fram á fullorðinsaldur– og móta hann fyrir lífstíð. „Það er verra að vera sakaður um að beita ofbeldi en að verða fyrir því sjálfur. Kannski var höggið þar af leiðandi þeim mun þyngra fyrir vikið.“ Hræðslan á nóttunni Sævar er fæddur árið 1974 og ólst upp í Keflavík í hópi sex systkina. Hann var sjö ára gamall þegar foreldrar hans skildu og hann og systkini hans voru skilin eftir í umsjá móður sinnar. Hún var alvarlega veik af alkóhólisma, sem skilaði sér að sögn Sævars í langvarandi ofbeldi gagnvart honum og systkinum hans. Þegar hún drakk skipti hún um ham. „Ég veit ekki hvað olli því, en það var mikil reiði sem bjó í mömmu og þegar hún drakk þá lék reiðin lausum hala. Við systkinin vorum lamin og „terroriseruð.“ Ég man eftir því að hafa oft verið sleginn og hent frá borðinu ef ég hellti niður.” Sævar og systkini hans þurftu að hans sögn oftar en ekki að sjá um sig sjálf. Oft var enginn matur til á heimilinu og þau leituðu til fólksins í kringum sig sem sá aumur á þeim. „Þetta eru aðstæður sem skapa mikið óöryggi. Líkamleg og andleg vanræksla fyrir barn sem þarf snertingu, ást og umhyggju - og staðfestingu á að maður sé í lagi eins maður er.“ Sævar er ekki í neinum vafa um að fjölskylda, nánustu aðstandendur og skólakerfið hafi vitað eða að minnsta kosti grunað að ekki var allt með felldu á æskuheimili hans. Engu að síður hafi aldrei neinn séð ástæðu til að grípa inn í málin. Þetta var á áttunda áratugnum og þöggunin í samfélaginu var meiri. „Það sáu allir vanræksluna en ég er ekki viss um fólk hafi grunað eitthvað um ofbeldið. Það hylmdu allir yfir þetta og það vildi enginn gera neitt. Þetta var þessi sjúklega meðvirkni. Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég fór að tala við hina og þessa, að ég komst að því hvað það voru margir í kringum okkur sem voru meðvitaðir um ástandið á sínum tíma.“ Hann minnist þess að hafa alið með sér gífurlegan ótta og óöryggi, sérstaklega á nóttunni. Hann gat ekki sofið nema með ljósið kveikt. Móðir hans var gjörn á að koma inn í svefnherbergi eftir að hann og systkini hans voru sofnuð, til þess eins að gefa reiðinni útrás og hrella þau. „Ég man alltaf þessa tilfinningu, og hræðsluna sem greip mig þegar ég fann höndina á mömmu koma upp í efri kojuna, og vera svo gripinn og grýttur,“ rifjar hann upp. Sævar og systkini hans heimsóttu pabba sinn reglulega og í þeim heimsóknum upplifði Sævar öryggi. Sævar lagðist í djúpa sjálfskoðun á sínum tíma og einbeitti sér að því að verða betri maður.Vísir/Vilhelm Sneri við blaðinu 23 ára Þegar Sævar var orðinn tíu ára gamall urðu kaflaskipti í lífi hans. „Pabbi kynntist annarri konu, ástinni í lífi sínu. Hún átti engin börn og hún tók við okkur öllum fjórum systkinum og einu barnabarni.” Sævar endaði á því að flytja alfarið til föður síns, við miklar mótbárur móður sinnar. Þar var hann kominn í öryggi en hann glímdi þó ennþá við afleiðingar ofbeldisins. „Ég held að flestir þekkja þegar börn pissa undir á nóttunni fram eftir aldri sem tengist óöryggi, hræðslu og vanlíðan af einhverju sem gerðist eða aðstæðum til lengri tíma. Í mínu tilfelli þá pissaði ég undir lengi vel eftir að ég var kominn í öryggi, eða fram til þrettán ára aldurs.“ Samband Sævar og móður hans var slitrótt allar götur síðan. Móðir Sævars hefur að hans sögn aldrei viðurkennt ofbeldið. Hann tók að engu að síður þá ákvörðun á sínum tíma að fyrirgefa móður sinni. „Ég ákvað að sjá hana eins og hún er, en ekki eins og ég vildi að hún væri.“ Hún gerði sitt besta og ég er þakklátur fyrir það sem hún kenndi mér. Ég get sagt með vissu að líklega hefur enginn kennt mér jafn mikið og hún, því þegar á botninn er hvolft þá getum við líka lært af brestum foreldra okkar til betra lífs og rofið þannig vítahringinn.“ Hann lýsir því hvernig unglingsárin einkenndust meira og minna af mikilli reiði og vanlíðan. „Hún var föst í mér, þessi reiði og hún var alltaf að reyna að finna einhvern farveg. En ég áttaði mig ekki alveg á því hvaðan hún kom, ekki fyrr en seinna.“ 16 ára ára gamall kynntist hann áfengi og verandi barn með slíka sögu, þá er ekki líklegt að það endi vel. „Ég hef gert mistök; slæma hluti sem ég sé eftir og ég hef tekið ákvarðanir sem eru ekki góðar.“ Þegar hann var orðinn 23 ára gamall varð hann fyrir áfalli sem rekja mátti til drykkju. Það breytti að hans sögn öllu; það var eitthvað sem „klikkaði“ í hausnum. Í kjölfarið sneri hann við blaðinu. „Svo byrjar vinnan, sem er aldrei í línulegum árangri. En maður lærir af mistökum og heldur áfram. Þrjátíu árum síðar lítur maður til baka og sér að maður hefur gert tonn af mistökum á þeirri vegferð en það er eitthvað sem hjálpaði mér að finna þann mann sem ég er í dag.“ Sævar efast ekki um að þessi djúpa sjálfskoðun- og vinna sem hann lagðist í hafi undirbúið hann undir það sem seinna kom. Íþróttirnar Íþróttir voru bjargráð Sævars í æsku; fótbolti, handbolti, körfubolti, badminton og frjálsar íþróttir. Hann spilaði fótbolta til 28 ára aldurs og fór þaðan í kraftlyftingar og fitness. Hann varð þrefaldur Íslandsmeistari í Icefitness, sem var undanfari þess sem kallað er Skólahreysti í dag. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum og tvöfaldur heimsmeistari slökkviliðs- og lögreglumanna og sló met í öllum greinum sem standa ennþá daginn í dag. „Í sjálfu sér hafa íþróttir bjargað mínu lífi og hjálpað mér að breyta því sem mig langaði að breyta. Keppnisíþróttir kenna þér aga, uppbyggilega sjálfsgagnrýni og ef þú ert tilbúinn að vinna fyrir sigrunum þá eru titlarnir nær öruggir. Þar af leiðandi var þessi breyting kannski auðveldari fyrir mig heldur en aðra, en til að breyta sjálfum sér þá þarf maður að horfa í spegilinn. Sjá brestina og kannski elska sig nógu mikið til að hafa hugrekki að breyta því sem hægt er að breyta. Henda út reiðinni með því að fyrirgefa þeim sem ollu manni skaða sem barn. Það er fáránlegt hvað lífið getur breyst þegar maður lærir að fyrirgefa, ekki endilega fyrir aðra heldur mest fyrir mann sjálfan. Í framhaldinu þarf maður síðan að bera ábyrgð og hætta að kenna öðrum um, því það skiptir ekki máli hvort það er rétt eða rangt, sanngjarnt eða ósanngjarnt, því hvort sem er, þá er maður staddur á sama stað.“ Superform Árið 2000 sneri Sævar sér að þjálfun. Hann starfaði við einkaþjálfun í langan tíma og endaði á því að hanna sitt eigið æfingakerfi, Superform, þar sem æfingarnar byggjast á lyftingum með ketilbjöllum, æfingateygjum og ýmsum fjölbreyttum æfingum þar sem unnið er í skorpuþjálfun eða sekúndum þar sem unnið og hvílt er í fyrirfram ákveðinn tíma. Haustið 2012 fór Sævar í samstarf með Sporthúsinu sem þá hafði nýlega opnað stöð í Reykjanesbæ. Á átta árum fór hann að eigin sögn úr því að hafa 30 manns yfir í að hafa 800 manns á samningi. „Superform varð að samfélagi þar sem stór hópur fólks reiddi sig á mig. Þetta var „concept“ sem ég bjó til og ól upp; þetta var barnið mitt. Í samfloti rak ég stofu sem osteópati. Félagslega netið var, og hefur alltaf verið, allt í tengslum við mína atvinnu og þetta var ástríðan mín til langs tíma.“ Sævar er lærður oseópati og rekur eigin stofu.Vísir/Vilhelm Sagan kvisaðist út Föstudaginn 1. júlí árið 2022 fór af stað atburðarás sem átti eftir að kollvarpa lífi Sævars. Atburðarás sem stendur í raun enn yfir í dag. Sævar kenndi hópatíma í Sporthúsinu umræddan dag og átti á einum tímapunkti samskipti við konu sem var þátttakandi í tímanum, til að leiðbeina henni með æfingar. „Þetta var á föstudegi, ég þjálfa þennan tíma og fer svo bara heim og fer inn í helgina með krökkunum mínum. Á mánudeginum fer ég aftur í vinnuna og er að koma úr morguntíma þegar ég fæ hringingu frá vini mínum, sem spurði mig hvort ég hefði verið að slá konu. Ég hélt að hann væri eitthvað að djóka. En þá var þetta semsagt sagan sem var byrjuð að ganga.“ Að sögn Sævars var honum tjáð að fyrrnefnd kona sem hafði verið í tímanum hjá honum hefði farið í partí á föstudagskvöldinu og tjáð þar fólki að Sævar hefði slegið hana. Í kjölfarið hafi sagan síðan breiðst út. Sævar kom að eigin sögn algjörlega af fjöllum. Fleiri símtöl bárust í kjölfarið. Hann kveðst hafa haft strax samband við Sporthúsið, sagt frá málavöxtu og óskað þegar í stað eftir upptökum úr öryggismyndavélum í salnum. Þá hafi komið í ljós að þær voru ekki til staðar, þar sem tíminn hafði verið kenndur í nýjum sal þar sem ekki var búið að tengja upptökubúnaðinn. Stillt upp við vegg Sævar kveðst hafa upplýst eigendur Sporthússins um málið þegar í stað á mánudeginum. Þeir hafi haft samband við umrædda konu. Hún hafi tjáð þeim að Sævar hefði beitt sig ofbeldi í tímanum, slegið til hennar, slegið hana í höndina og hreytt ljótum orðum í hana. Að sögn Sævars voru 35 manns í tímanum fyrir utan hann og konuna þennan umrædda dag. Engu að síður hafi enginn getað borið vitni um að umrætt atvik hefði átt sér stað. Sævar segir að þegar gengið hafi verið á konuna, meint fórnarlamb, hafi hún ekki viljað leggja fram kæru eða aðhafast neitt frekar í málinu. Vísir hefur undir höndum aðilaskýrslu sem Þröstur Jón Sigurðsson eigandi Sporthússins gaf fyrir dómi á sínum tíma, en þá hafði Sævar stefnt eigendum Sporthússins. Þröstur segist í vitnisburði sínum hafa hvatt konuna til að leggja fram kæru, en hún hafi ekki viljað koma fram undir nafni né kæra. „Hún vildi bara að þetta mál væri búið. Þannig að hún vildi ekki að neitt yrði úr málinu.“ Á öðrum stað í vitnisburðinum segir Þröstur að konan hafi „ekki viljað blanda nafni sínu í þetta“ og að það „hafi verið alveg á hreinu.“ „Hún var miður sín út af þessu máli og vildi bara helst að því væri lokið.“ Atvikalýsing Þrastar Jóns á því sem gerðist upp úr gangaskýrslu í dómsmálinu „Og þetta atvikast þannig að þetta er kona sem er búin að æfa lengi hjá okkur og hún er að gera þarna einhverja hnébeygjuæfingu í tíma hjá Sævari. Sævar er víst og var víst búinn að vera þarna að leiðrétta hjá henni tækni í hnébeygju í talsvert langan tíma og konan var búin að ná ágætis árangri þarna í mái, að mati hennar og Sævars. Það a.m.k. var það sem að kom afram. Síðan þótti Sævari hún ekki standa sisg sem skyldi, þegar hann kemur þarna til baka úr þriggja-fjögurra vikna sumarfríi. Konan verður eitthvað foj þegar að Sævar gerir athugasemd við æfinguna hjá henni og hún ætlar að ganga í burtu og Sævar kallar á eftir henni bara og biður hana að stoppa, sem hún gerir. Þegar að hún snýr sér við, að honum, þá þykist Sævar ætla að löðrunga hana, setur svona hægri hendi, og setur svo vinstri hönd á milli og slær saman höndum hérna við hliðina á andlitinu á henni. Konunni bregður og verður eitthvað foj og þá segir Sævar hérna; má ég sjá hend- eða komdu með hendina á þér - og hún réttir fram á sér hendina og hann slær hérna á handarbakið á henni og segir skamm, og meira var það ekki. Þetta er sem sagt það sem að atvikið sem að þau lýstu bæði þennan dag þegar ég hringi í þau. Sævar upplifir þetta, talar um þetta sem eitthvað grín, en hún upplifði þetta allt öðruvísi. Hún fer þennan föstudag eitthvað með vinkonum sínum og fer að segja þessa sögu. Úr verður sú saga að Sævar hafi slegið hana og þar með er bara allt í einu samfélagið komið á hlið.“ Sævar segist hafa leitað eftir því á sínum tíma að eiga samtal við konuna, en ekki fengið tækifæri til þess. „Ég vildi fá að tala við hana og heyra hennar hlið og tjá henni mína upplifun. Ef hún hefði misskilið mig eða upplifað mig leiðinlegan þá langaði mig að biðjast afsökunar á því, því það hafði aldrei verið minn ásetningur að vera leiðinlegur. Enn fremur myndi ég aldrei biðjast afsökunar á að hafa slegið manneskju sem ég hef aldrei slegið og hef aldrei reynst annað en vel.“ Þremur dögum síðar var Sævar boðaður á fund hjá Sporthúsinu. Að hans sögn voru honum gefnir tveir kostir: að vera rekinn eða framselja rekstur sinn til Sporthússins. „Mér var tjáð að ég hefði til hádegis daginn eftir, og ef ég kæmist ekki að niðurstöðu þá myndu þeir taka ákvörðun fyrir mig.“ Upplifun Sævars er sú að honum hafi verið stillt upp við vegg. Það eina sem hafi vakið fyrir honum á þessum tímapunkti hafi verið að tryggja sér fjárhagslegt öryggi. Hann hafi því metið það svo að hann væri nauðbeygður til að selja reksturinn annars yrði gert út af við hann og honum valdið tjóni. Hann hafi verið þvingaður til að selja fyrirtæki sitt til Sporthússins -fyrir fjárhæð sem hann hafi ekki verið í aðstöðu til að semja um. „Ég mátti ekkert segja og enginn mátti verja mig. Þetta var á toppi Metoo hreyfingarinnar og það var auðvelt að sjá að enginn myndi elta mig, ég var búinn með allt peningaflæðið úr fyrirtækinu í gegnum Covid til að halda öllu á floti og greiða laun þjálfara og var komast á flug og út úr þeim aðstæðum. Ekki nóg með það, þá hefði ég þurft að færa stofuna mína líka þar sem hún var staðsett í Sporthúsinu. Það var engin leið önnur en að selja og enginn fyrirsjáanleiki að ég myndi fá vinnu. Samkvæmt samningnum þá mátti ég ekki segja neitt og mátti ekki heldur þjálfa í þrjú ár á Suðurnesjunum. Ég hefði getað tekið slaginn en ég var ekki mjög burðugur á þessum tíma til að gera eitt né neitt.“ Gjörbreytt viðmót Sævar segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn á þjálfaraferlinum sem hann var ásakaður um framkomu af þessu tagi, og í fyrsta skipti sem hann hafi verið sakaður um að beita aðra manneskju ofbeldi. „Í mínu tilfelli, í mínum huga og í minni sál, þá er aðeins eitt verra heldur en að vera alinn upp í ofbeldi, og það er að vera síðan sakaður um ofbeldi á fullorðins aldri.“ segir hann. „Aðstæðurnar voru þannig að ég óskaði þess að ég væri í raun sekur. Það hefði verið auðveldara, því þá hefði ég getað sagt við sjálfan mig að þetta væri mér að kenna, að ég hefði komið mér sjálfur í þessar aðstæður og þyrfti að taka því sem kæmi -og halda áfram.“ Þrátt fyrir að engin kæra hefði verið lögð fram eða formleg rannsókn gerð á málinu þá dugði orðrómurinn til þess að Sævar var, að eigin sögn, „slaufaður“ í litla samfélaginu í Keflavík. Umrædd partísaga átti eftir að taka á sig fleiri myndir. Í einni útgáfunni átti atvikið til að mynda að hafa átt sér stað á skemmtistað. „Þó að litli innsti hringurinn hafi staðið við bakið á mér þá var ég samt svo einn, því ég mátti ekkert segja og enginn mátti svara fyrir mig. Að missa allt þetta svona snöggt og sitja eftir í gríðarlegri óvissu um framtíðina, fjárhagslega, samfélagslega og ekki síst frá frelsissviptingalegu sjónarmiði. Fáir heilsuðu mér eða töluðu við mig. Hálfu ári síðar þegar ég reyndi að fara vinna aftur, voru skjólstæðingar sem leituðu til mín á stofuna í meðhöndlun spurð af hneykslun afhverju þau væru að mæta til manns eins og mín. Þegar ég lít til baka í dag þá sé ég að ástæða þess að fólk heilsaði mér ekki var ekki sú að þau héldu að ég væri sekur, heldur vegna þess að þau voru búin að átta sig á því að ég var saklaus,“ segir Sævar. Sævar kveðst hafa farið að þróa með sér sívaxandi kvíða, sem hann hafði aldrei fundið fyrir áður.Vísir/Vilhelm Hann var að eigin sögn óvinnufær í tæpt ár, með tilheyrandi fjárhagserfiðleikum. Þá hafi ekki bætt úr skák að umsamdar greiðslur frá Sporthúsinu hafi hætt að berast eftir fjóra mánuði, en samið hafði verið um 24 mánaðarlegar jafnar greiðslur. Líkt og fyrr segir endaði Sævar á því stefna eigendum Sporthússins vegna vanefnda á kaupsamningi varðandi kaupin á Superform. Niðurstaða héraðsdóms lá fyrir í desember árið 2023 og var Sævari í hag. Eigendur Sporthússins voru dæmdir til að greiða honum 6 milljónir króna og 1,2 milljónir í málskostnað. Eigendur Sporthússins áfrýjuðu þó niðurstöðunni. Sævar segir að nokkrum mánuðum eftir atvikið hafi kona haft samband við sig. Hún hafi tjáð honum að hún hefði verið í tímanum þennan umrædda dag og verið „partner“ konunnar í tímanum, það er að segja konunnar sem lagði fram ásakanirnar. Að sögn Sævars tjáði umrædd kona honum að hún hefði ekki séð neitt gerast. Átti erfitt með að treysta konum Sævar kveðst hafa farið að þróa með sér sívaxandi kvíða, sem hann hafði aldrei fundið fyrir áður. Hann hafi þolað sífellt minna álag. Hann dregur ekki í efa að um áfallastreitu hafi verið að ræða. Undir lokin hafi kvíðinn orðið verulega lamandi. Sævar var að eigin sögn kominn á þann stað að hann íhugaði að svipta sig lífi. „Fyrstu tvo eða þrjá mánuðina fékk ég kvíðakast á hverjum degi, ég grét alla daga og átti erfitt með að tjá mig án þess að fara að gráta. Og ég er ekki maður sem er vanur að gráta mikið. Kvíðinn átti eftir að minnka, en var samt alltaf til staðar. Að hafa engan tilgang í lífinu og vera kominn á þann stað að það væri best fyrir alla, og börnin manns mest af öllum, er mjög sjúkur staður að vera á. Mér verður flökurt af þeim minningum ennþá í dag. Að þurfa að hlusta á fólk segja við mann: „Þetta verður allt í lagi“ eða „Þú munt koma til baka“ eða „Þetta er bara kjaftasaga sem gengur yfir.“ Fáfræðin hjá fólki sem áttar sig engan veginn hvernig það er að vera í þessum aðstæðum. Litla barnið mitt var tekið af mér og síðar myrt. Superform var barnið mitt og vinnan sem ég var búinn að setja í það mælist ekki til fjár. Þetta var „passionið“ mitt og stórt samfélag sem ég hafði búið til þar sem fólk reiddi sig á mig.“ Það var Sævari til happs að komast undir hendur læknis sem sá á hvaða stað hann var. Hann segir umræddan lækni hafa bjargað lífi sínu. „Hann kom mér til dæmis að hjá VIRK og sá til þess að ég fengi sérhæfða hjálp, enda var ég ekki þetta „eðlilega“ tilfelli sem ratar á borðið hjá VIRK.“ Sævar tók að lokum þá ákvörðun, fyrir tilstilli sálfræðings, að flytja úr bæjarfélaginu þar sem hann er fæddur og uppalinn og hafði búið alla tíð. Hann segir slaufunina hafa haft þær afleiðingar að hans versta og erfiðasta martröð hafi verið sú að tala við konu, eða treysta konum yfirhöfuð. „Fyrstu tvö árin fann ég fyrir kvíða ef ég talaði við konu; ég ritskoðaði og afsakaði allt sem ég sagði og gerði í kringum konur. Ég finn ennþá fyrir þessu í dag, en þetta er samt nánast alveg hætt. Heilinn á mér var alltaf að segja mér að passa mig og treysta ekki konum. Ég aftur á móti gerði mér grein fyrir því að konur eru ekki verri en karlar og til að vinna á þessum hugsunum sem ég stjórnaði ekki þyrfti ég að fara beint í aðstæðurnar og róa þessar hugsanir. Í öllu mínu bataferli, ákvað ég að aðeins myndi ég leita til kvenna. Sálfræðingarnir, þjónustufulltrúinn minn hjá VIRK og fleiri voru allt konur.“ Endurheimt Þann 2. desember síðastliðinn, á fimmtudagsafmælisdaginn og að loknu löngu endurhæfingarferli, birti Sævar opna færslu á facebook þar sem hann rakti sögu sína undanfarin tvö ár. Þetta var í fyrsta skipti sem hann tjáði sig opinberlega um málið. „Ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að ég ætlaði ekki að tjá mig neitt opinberlega fyrr en ég væri kominn á þann stað að ég væri orðinn sterkur, sterkari en áður en þetta gerðist.“ Viðbrögðin við færslunni voru til þess að blása honum von í brjóst. Hann fékk óteljandi stuðningskveðjur og hvetjandi athugasemdir. Hann fékk að eigin sögn ekki ein einustu skilaboð eða símhringingar þar sem sakleysi hans var dregið í efa. „Endurhæfing í tvö ár og í dag er ég kominn aftur, hef aldrei verið jafn sterkur og úr því að ég lifði þetta af þá mun ég lifa af það sem kemur næst. Næst er endurheimt. Ég mun berjast fyrir því að ná fram réttlæti í þessu máli og er með áætlum sem ég mun fylgja eftir. Ekki fyrir aðra heldur fyrir mig og mína réttlætiskennd og ef ég er þekktur fyrir eitthvað, þá er það að þegar ég set mér einhver markmið, þá geri ég það 100 prósent og klára allt sem ég set fyrir framan mig,“ ritar Sævar í umræddri færslu. Fyrirgefningin hefur heilunarmátt Þann 6. febrúar síðastliðinn lá fyrir dómur Landsréttar í máli Sævars gegn eigendum Sporthússins. Niðurstaða dómsins var nokkuð afgerandi, og var Sævari í hag. Eigendum Sporthússins var gert að greiða honum sex milljónir króna, auk dráttarvaxta. Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram að „ekkert hafi komið fram í málinu sem orðið geti til þess að ekki verði fallist á fjárkröfur stefnanda.“ Dómur Landsréttar er að mati Sævar ákveðin kaflaskipti í sögunni – en málinu er þó ekki lokið af hans hálfu. „Það er margt sem hefur ekki komið fram sem þarf að líta dagsins ljós; hlutir sem hafa verið sagðir og gerðir á minn hlut og fólk sem þarf að koma fram og axla ábyrgðar. Eitt er víst: enginn á Íslandi hefur hagnast á dómstólaleiðinni, hvorki fjárhagslega né sálarlega séð. En sannleikann og réttlætið mun ég draga fram í dagsljósið. Þó ótrúlegt sé þá langar mig að fyrirgefa þeim og mig langar það mikið. Og ég mun gera það á endanum. Vonandi á eins hreinan hátt og hægt er með því að þau axli ábyrgð og segi „Fyrirgefðu“ af einlægni. Það væri draumurinn fyrir mér og myndi líklega vera mest af öllu læknandi því þá myndi ég sjá sársaukan og vanlíðanina í þeirra augum og sál. Það er svo gott, og í raun auðvelt, að fyrirgefa fólki sem sýnir þá auðmýkt. En ef ekki þá mun ég klára mitt mál og sækja það sem ég á og fyrirgefa þeim fyrir að vera ekki sterkari manneskjur en þau eru og óska þeim velfarnaðar því þau þurfa að lifa með því sem þau hafa gert.“ Sævar stendur uppréttur í dag- þremur árum síðar.Vísir/Vilhelm Hefur lært af mistökunum Sævar tekur skýrt fram að líti hvorki á sig sem fórnarlamb né hetju. Hann vonar að hans saga geti veitt öðrum innblástur; hvatningu til að líta inn á við. „Árangur er aldrei línulegur og ég hef líklega gert flest öll mistök sem hægt er að gera. Svíkja, ljúga, stela, særa og svo margt fleira. Börn sem fá slíkt uppeldi eins og mér var gefið, þau þurfa að læra með tilraunum og mistökum hvað eðlileg samskipti eru, hvað eðlilegt samband er og svo framvegis. Þegar ég horfi til baka og hugsa af auðmýkt þá veit ég að ég hef aldrei gert á hlut annarra viljandi eða með slæmum ásetningi. En það er engu að síður margt sem maður þarf að horfast í augu við. Það góða er að ég á auðvelt með að biðjast fyrirgefningar og viðurkenna þegar ég hef rangt fyrir mér. Og ég hef oft haft rangt fyrir mér. Það viðhorf hefur líklega hjálpað mér mest að læra af mistökunum og þar af leiðandi geri ég sjaldan sömu mistökin aftur. Þrátt fyrir allt þá geri ég mér grein fyrir að ég er heppinn og ég má vera þakklátur fyrir það sem ég hef, því það er til fullt af fólki sem hefur gengið í gegnum mun erfiðara líf en ég. Það er mitt að spila sem best úr þeim spilum sem mér voru afhent og eitt er víst, hvort sem maður fær afhent góð spil eða slæm, þá þarf að spila þeim, gera það besta með það sem maður hefur og halda áfram.“ Sævar minnist á kvikmyndina Gladiator í þessu samhengi- og þá speki sem þar kemur fram: „Hún hefur þá merkingu að allt sem þú segir og gerir endurkastast á manneskjuna við hliðina á þér. Ef þú hefur hreina sál og hreina samvisku þá mun það sem þú segir við aðra hafa góð áhrif á aðra. En ef þér líður ílla og ert með óhreina samvisku þá mun það endurspeglast í umgengni þinni við aðra. Ef við horfum á fólkið í kringum okkur, á börnin okkar og maka, þá munu þau fá mesta skítinn og svo aðrir í kjölfarið. Þar af leiðandi ertu að hafa áhrif á framtíðina til hins verra,“ segir hann jafnframt. „Það er leið inn í framtíðina, með því að byrja á að horfa inn á við; skoða hvað varð um litla barnið sem við vorum og máta það við sig og það sem við erum í dag. Þaðan getum við lært að elska það við erum, kosti okkar og galla. Það krefst hugrekkis að viðurkenna fyrir okkur sjálfum hver við erum og byrja á einu atriði í einu sem okkur langar sem mest að breyta, með auðmýkt og ást. Ég veit það sjálfur að ég verð sterkari eftir allt þetta, því að ég hef eytt svo löngum tíma í sjálfskoðun sem er orðin að ávana hjá mér. Ef þetta líf hefur kennt mér eitthvað þá er það að dagurinn í dag og dagurinn á morgun er það eina sem skiptir máli. Þannig eru draumarnir búnir til. Ég er að fara þangað.“ Fréttin hefur verið uppfærð með lýsingum Þrastar Jóns Sigurðssonar eiganda Sporthússins úr dómsmáli Sævars á hendur Sporthúsinu vegna uppgjörs.
Atvikalýsing Þrastar Jóns á því sem gerðist upp úr gangaskýrslu í dómsmálinu „Og þetta atvikast þannig að þetta er kona sem er búin að æfa lengi hjá okkur og hún er að gera þarna einhverja hnébeygjuæfingu í tíma hjá Sævari. Sævar er víst og var víst búinn að vera þarna að leiðrétta hjá henni tækni í hnébeygju í talsvert langan tíma og konan var búin að ná ágætis árangri þarna í mái, að mati hennar og Sævars. Það a.m.k. var það sem að kom afram. Síðan þótti Sævari hún ekki standa sisg sem skyldi, þegar hann kemur þarna til baka úr þriggja-fjögurra vikna sumarfríi. Konan verður eitthvað foj þegar að Sævar gerir athugasemd við æfinguna hjá henni og hún ætlar að ganga í burtu og Sævar kallar á eftir henni bara og biður hana að stoppa, sem hún gerir. Þegar að hún snýr sér við, að honum, þá þykist Sævar ætla að löðrunga hana, setur svona hægri hendi, og setur svo vinstri hönd á milli og slær saman höndum hérna við hliðina á andlitinu á henni. Konunni bregður og verður eitthvað foj og þá segir Sævar hérna; má ég sjá hend- eða komdu með hendina á þér - og hún réttir fram á sér hendina og hann slær hérna á handarbakið á henni og segir skamm, og meira var það ekki. Þetta er sem sagt það sem að atvikið sem að þau lýstu bæði þennan dag þegar ég hringi í þau. Sævar upplifir þetta, talar um þetta sem eitthvað grín, en hún upplifði þetta allt öðruvísi. Hún fer þennan föstudag eitthvað með vinkonum sínum og fer að segja þessa sögu. Úr verður sú saga að Sævar hafi slegið hana og þar með er bara allt í einu samfélagið komið á hlið.“
Líkamsræktarstöðvar Ofbeldi gegn börnum Suðurnesjabær Helgarviðtal Mest lesið Tveir sérlega hættulegir gómaðir á Íslandi og gríðarleg fjölgun verkefna Innlent Vill svipta glæpamenn íslenskum ríkisborgararétti Innlent Morðtilræði, vændi og frændi sagður drepinn fyrir komuna til Íslands Innlent Virðist kenna Úkraínumönnum um stríðið og stöðu mála Erlent Ráðist á bifreiðar með spörkum og hamri Innlent Tvö þúsund Íslendingar í hverri viku á Tenerife Innlent Samtenging sjúkraskráa auki sjúklingaöryggi Innlent Þingið kafi í styrkveitingarnar Innlent Myndbönd sýna flugvélina lenda harkalega og enda á hvolfi Erlent „Óumflýjanlegt“ kílómetragjald kynnt í vikunni Innlent Fleiri fréttir „Óumflýjanlegt“ kílómetragjald kynnt í vikunni Þingið kafi í styrkveitingarnar Morðtilræði, vændi og frændi sagður drepinn fyrir komuna til Íslands Tveir sérlega hættulegir gómaðir á Íslandi og gríðarleg fjölgun verkefna Ráðist á bifreiðar með spörkum og hamri Samtenging sjúkraskráa auki sjúklingaöryggi Vill svipta glæpamenn íslenskum ríkisborgararétti Tvö þúsund Íslendingar í hverri viku á Tenerife Vegabætur taldar auka straum ferðafólks um Norðausturland Fékk net í aðalskrúfuna og dreginn í land Strandveiðar augljóslega ekki ábatasamasta leiðin við veiðar „Mjög langur“ listi fjölmiðla sem hægt yrði að velja úr Fá að rukka fyrir geymslu á líkum Heilsugæslan sektuð af Persónuvernd og brotthvarf Gylfa Vongóð um að nýr meirihluti verði myndaður fyrir helgi Uppskar hlátur er hann ræddi klæðaburðinn Segir búið að teikna upp aðgerðir og boðar til aukafundar Vaxandi líkur á tíðindum innan nokkurra daga eða vikna Guðrún slapp naumlega við steinsmuguna Sáttasemjari fundaði með forystu Kennarasambandsins Bannar öðrum en heilbrigðisstarfsfólki að sprauta í varir Lögðu hald á marga blóðuga muni eftir ofsafengna árás Kærðir fyrir að stunda fólksflutninga í óleyfi Pallborðið: Fjórir berjast um formannssætið í VR Býður sig fram til formanns Rafiðnaðarsambandsins Persónuvernd leggur fimm milljóna sekt á Heilsugæsluna Bundið slitlag á síðasta kafla Norðausturvegar Eldur í mathöllinni í Hveragerði Bankasamruni hugnast ekki Neytendasamtökunum Enginn með stöðu sakbornings í rannsókninni á Mánagarði Sjá meira