Handbolti.is greinir frá því að Roland muni þjálfa landsliðsmarkverðina Viktor Gísla Hallgrímsson og Björgvin Pál Gústavsson er landsliðið hefur leik í Zagreb gegn Grænhöfðaeyjum 16. janúar. Hann er fyrsti sérstaki markvarðaþjálfari landsliðsins frá 2021.
Svíinn Tomas Svensson var þá markvarðaþjálfari Íslands en eftir að hann yfirgaf stöðu sína kom Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals, inn í teymi karlalandsliðsins í stað markvarðaþjálfara.
Roland, sem lék með landsliði Íslands á fimm stórmótum milli 2003 og 2007, verður nú fyrsti sértæki markvarðaþjálfari liðsins í fjögur ár. Hann var í teymi landsliðsins áður, í þjálfaratíð Geirs Sveinssonar, milli 2016 og 2018.
Síðasta stórmót Rolands með landsliðinu var EM í Króatíu 2018 og snýr hann því aftur á svipaðar slóðir þegar strákarnir okkar halda til Króatíu eftir helgi.
Íslenska liðið er mætt til Svíþjóðar og leikur tvo æfingaleiki við heimamenn í Kristianstad á morgun og laugardag áður en för verður heitið til Króatíu.
Fyrsti leikur Íslands er við Grænhöfðaeyjar 16. janúar, liðið mætir því næst Kúbu tveimur dögum síðar og svo Slóveníu 20. janúar.
Keppni hefst í milliriðli 22. janúar. Allir leikir Íslands, í riðlinum og milliriðli, fara fram í Zagreb í Króatíu.