Innlent

Eldur í bif­reið og útihúsgögnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tveir gistu fangageymslur lögreglu í morgun.
Tveir gistu fangageymslur lögreglu í morgun. Vísir/Vilhelm

Lögregla sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt og var meðal annars kölluð til þegar kviknaði í bifreið og útfrá útikerti. Engin slys urðu á fólki.

Tilkynnt var um eld í bifreið í miðborginni en ökumanni og farþega tókst að ráða niðurlögum hans með því að kasta snjó á vélina. Þá sakaði ekki en eitthvað tjón varð á bílnum.

Þá var tilkynnt um eld í Mosfellsbæ, þar sem kviknað hafði í borði og stólum útfrá útikerti sem logaði á borðinu.

Lögreglu bárust einnig tilkynningar um innbrot í póstnúmerunum 104, 108 og 200 og þá var tilkynnt um mann að sveifla sverði í Kópavogi en sá fannst ekki. 

Ölvuðum einstaklingum og óvelkomnum var vísað á brott úr bílakjallara og af öðrum stað í miðborginni og þá barst lögreglu einnig tilkynning um aðila sem var að reyna að komast inn í bifreiðar í 108.

Í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinn segir einnig að tilkynning hafi borist um „hópasöfnun og ágreining“ við Mjóddina en engar frekari upplýsingar fylgja um atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×