Gagnrýni

Kyn­ferðis­lega ó­full­nægður for­stjóri finnur sér ungan graðfola

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Harðkjarna forstjórinn Romy finnur til undarlegra kennda þegar hún kynnist starfsnemanum Samuel. Hann vekur eitthvað innra með henni og þau halda af stað í ferðalag kynferðislegrar uppgötvunar.
Harðkjarna forstjórinn Romy finnur til undarlegra kennda þegar hún kynnist starfsnemanum Samuel. Hann vekur eitthvað innra með henni og þau halda af stað í ferðalag kynferðislegrar uppgötvunar. A24

Romy Mathis hefur unnið sig upp á toppinn sem forstjóri tæknifyrirtækis, er gift elskulegum manni og á tvær dætur. En hún hugsar líka brenglaðar hugsanir og er kynferðislega ófullnægð. Ungur starfsnemi sér í gegnum hana og veit hvaða hún vill: láta einhvern taka af sér völdin og drottna yfir sér.

Babygirl er erótískur spennutryllir sem hin hollenska Halina Reijn leikstýrir og skrifar handritið að. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum síðasta sumar og fór í almenna dreifingu erlendis á jóladag. Íslendingar þurftu að bíða ögn lengur eftir myndinni sem kom í Sambíóin og Smárabíó núna á nýársdag.

Reijn var leikkona áður en hún færði sig yfir í leikstjórastólinn með Instinct (2019) sem fjallar um samband sálfræðings við fanga með barnagirnd. Hún fékk svo sénsinn í Hollywood með hryllingskómedíunni Bodies Bodies Bodies (2022) sem fjallar um varúlfaleik yfirstéttarkrakka sem fer úrskeiðis. 

Babygirl er því þriðja kvikmyndin sem Reijn leikstýrir í fullri lengd og náttúrulegt framhald hinna tveggja, spennutryllir um forboðið samband með góðu dassi af húmor.

Spennan felst í hættunni

Fyrstu fimm mínútur Babygirl kjarna myndina og aðalpersónu hennar, Romy Mathis, algjörlega. Vilji fólk ekki láta spilla þessum upphafssenum fyrir sér er best að hoppa fram að næstu millifyrirsögn.

Babygirl hefst á því að við sjáum Romy (Nicole Kidman) ríða manni sínum (Antonio Banderas) í kúrekastellingunni þar til þau fá bæði fullnægingu. Hún klæðir sig í kjölfarið í náttkjól og laumast fram. Síðan finnur hún sér athvarf í myrkvuðu herbergi, leggst á gólfið og fróar sér yfir klámi þar til hún fær það.

Romy virðist lifa virku og heilbrigðu kynlífi með sínum myndarlega manni sem er jafnframt mjög kærleiksríkur.A24

Morguninn eftir er Romy, sem er farsæll forstjóri fyrirtækis sem framleiðir vélmenni, á leið í vinnu þegar hún verður næstum fyrir árás grimms hunds. Áður en hundurinn stekkur á hana nær dularfullur maður að stoppa hundinn og róa hann niður. Seinna um daginn kemur í ljós að maðurinn, sem heitir Samuel (Harris Dickinson), er að hefja störf sem starfsnemi í fyrirtækinu.

Samuel hagar sér öðruvísi en aðrir, ögrar Romy og gefur henni ráð á kaffistofunni líkt og þau væru jafningar. Hann tilkynnir henni síðan að hún sé mentor hans í nýju prógrami innan fyrirtækisins, þvert gegn vilja hennar. Á fyrsta fundi þeirra fer hann síðan langt yfir strikið, segist halda að hún vilji láta segja sér til verka. Hún er sjokkeruð og hann sér að sér. En hún fílar það líka. 

Upp frá því hefst samband þeirra sem einkennist af haltu mér-slepptu mér-dýnamík, kynferðislegri tilraunamennsku og ringulreið. Auðvitað flækjast málin síðan enn frekar, fjölskyldan blandast inn í málið og vinnan að auki. Spennan er fólgin í hættunni, bæði fyrir Romy og okkur áhorfendur. Spurningin er bara hvar endar þetta fyrir okkar konu.

Samuel og Romy dýfa sér í laugina á einum tímapunkti.A24

Húmorinn afvopnar áhorfendur

Babygirl hefur hérlendis verið auglýst sem „sjóðandi heit mynd í anda Fifty Shades of Grey”. Það er ekki skrítið í ljósi gríðarlegra vinsælda þeirrar myndar (og bókar) á sínum tíma og þar sem báðar myndir fjalla um vald í BDSM-kynlífi. Samanburðurinn endar þó þar og er miklu meira spunnið í Litlu stúlkuna en skuggana fimmtíu.

Nærtækari samanburður væri Píanókennarinn eftir Michel Haneke sem fjallar um óeðlilegt samband píanókennara (Isabelle Huppert) við yngri nemanda (Benoit Magimel). Babygirl gengur ekki nærri því jafnlangt og sú franska (enda er það erfitt) en kannar sambærilegar lendur: kynferðislega þrá, valdadýnamík, og samband eldri konu við yngri mann. Skömm kvenna yfir kynferðislegum löngunum sínum er sömuleiðis lykilatriði í báðum myndum en munur á því hvernig konurnar vinna úr henni.

Halina Reijn lýsti því yfir í viðtali að fyrir utan Annie þá væri Píanókennarinn uppáhalds myndin hennar og ein af myndunum sem hún horfði á við skrif handritsins.Skjáskot

Tónninn er þó gjörólíkur, á meðan píanókennarinn er meira í átt að nöturlegum hryllingi er Babygirl nær því að vera grínmynd. Hún ögrar áhorfendum ítrekað, stundum líður manni óþægilega og stundum getur maður ekki annað en hlegið. Reijn er óhrædd við galsa og glens, óhrædd við að vera smá trashy.

Önnur mynd sem manni verður hugsað til við áhorfið er Eyes Wide Shut eftir Kubrick en þar leikur Kidman eiginkonu aðalpersónunnar (sem er leikin af Tom Cruise). Í þeirri mynd hrindir fantasía eiginkonunnar um kynlíf með sjóliða af stað Ódysseifsferð aðalpersónunnar inn í myrkan kynlífsheim. Hér er það fantasía aðalpersónunnar sem hrindir henni sjálfri af stað í ferðalag kynferðislegrar uppgötvunar. Svo er engin tilviljun að báðar myndirnar gerast um jól, sem eru táknræn fyrir (endur)fæðingu.

Kidman og Cruise voru búin að vera gift í níu ár þegar þau léku hjón í Eyes Wide Shut. Þau skildu síðan tveimur árum síðar.Warner Bros

Innhverfur starfsnemi sér í gegnum forstjórann

Það sem gerir Babygirl svo spennandi er samband Romy við Samuel. Maður veit aldrei hvar maður hefur þau, er annað þeirra að blekkja hitt eða jafnvel að nota í annarlegum tilgangi? Maður er sífellt að reyna að lesa milli línanna til að átta sig á því hvað gerist næst.

Ferill hins 28 ára Dickinson, sem er frá Essex, hefur tekist á loft á síðustu þremur árum.A24

Samleikur þeirra Kidman og Dickinson er lykilatriði í að viðhalda trú áhorfandans og kemistrían milli þeirra er límið í myndinni. Dickinson, sem er þekktastur fyrir leik sinn í Triangle of Sadness og The Iron Claw, er fjarlægur og innhverfur í túlkun sinni. Samuel er ekki sjarmerandi, jafnvel pínu fráhrindandi og skrítinn en hann býr yfir einhverri festu og ró sem er sannfærandi.

Kidman sem er sérstaklega fær í að leika kaldar stóískar og jafnvel vélrænar konur (og hefur þess vegna verið borin saman við fyrrnefnda Huppert) leikur eina slíka hér. Romy er „girlboss“ sem svífst einskis en undir hrjúfu yfirborðinu er brothættur kjarni. Hið vélræna og hið dýrslega takast á innra með Romy og Kidman fangar viðkvæmni hennar og skömm sérstaklega vel.

Banderas er sannfærandi sem sjarmerandi kokkállinn Joseph.A24

Þriðja hjólið er hinn kokkálaði Joseph, sem Antonio Banderas túlkar, en hann er bæði elskulegur og kærleiksríkur. Banderas fær ekki úr jafn miklu að moða og hin tvö en stendur sig glæsilega, sérstaklega þegar það hitnar í kolunum í lokin.

Ef maður ætti að kvarta undan einhverju væri það hvernig samband Romy og Samuels er á köflum sýnt gegnum „montage“ frekar en samtöl. Reijn styttir sér þar leið sem hún hefði ekki þurft að gera, færri og lengri senur milli þeirra hefðu styrkt persónurnar. Sama má segja um lokahlutann þar sem þarf að leysa úr þeim flækjum sem hafa myndast vegna sambands Romyar og Samuels. Lausnin er fullódýr en það sleppur fyrir horn þar sem lokasenan er svo eftirminnileg.

Hvert hefur erótíkin farið?

Erótík, gredda og kynlíf eru orðin sjaldséð fyrirbæri í Hollywood-myndum og í fyrra kom út skýrsla um að kynlífsatriðum hefði fækkað um 40 prósent. Mögulegar útskýringar eru margvíslegar.

Ein er markaðslegs eðlis og tengist breyttu landslagi í Hollywood. Stúdíóin taka einfaldlega ekki jafn mikið af sénsum og áður. Í fyrsta lagi hefur millistóra myndin (e. mid-budget) horfið á braut á kostnað færri og miklu stærri „block-buster“-mynda. Í öðru lagi fækkar mögulegum áhorfendum því hærra sem aldurstakmark myndarinnar er og þess vegna auðvelt að halda því sem lægstu.

Natalie Portman sem Jane Foster og og Chris Hemsworth sem  Þór í Thor: Love and Thunder. Þau eru bæði falleg og í góðu formi en eins og í öðrum ofurhetjumyndum þessa dagana er ekki vottur af kemistríu eða innileika milli þeirra.Marvel

Fyrir vikið eru fjölskylduvænar kynlausar ofurhetjumyndir ráðandi.

Önnur skýring er sú að það sé ekki lengur eftirspurn eftir kynlífsatriðum. Fyrir tveimur árum kom út skýrsla um að zeta-kynslóðin (fólk fætt á bilinu 1997 til 2012) hefði ekki áhuga á að sjá kynlífsatriði. Á níunda áratugnum hafi kynlífsatriði verið ein af leiðunum til að fá gröð ungmenni í bíó en í dag sé kynlífið skammt undan í símum fólks. Kynlífsatriðin séu óþörf.

Emma Stone hlaut verðskuldaða Óskarstyttu fyrir frammistöðu sína í Poor Things.

Rithöfundurinn Raquel S. Benedict velti kynleysi Hollywood fyrir sér árið 2021 í greininni „Allir eru fallegir og enginn er graður“. Ástandið í Hollywood taldi hún vera hluta af stærri þróun í menningunni. Fólk væri komið með líkamsrækt á heilann, ekki til skemmtunar og tómstunda heldur til að fullkomna sig. Um leið hafi kynhvöt fólks og áhugi á kynlífi minnkað. Það er önnur möguleg skýring.

Þrátt fyrir allt þetta virðast myndir sem innihalda eða fjalla um kynlíf eiga upp á pallborðið. Fyrir tveimur árum sló Poor Things, sem fjallaði meðal annars um uppgötvun konu á kynlífi, rækilega í gegn. Challengers var án efa ein graðasta mynd síðasta ár, hlaut mikið umtal og mikið lof. Nú stefnir allt í að Babygirl muni gera gott mót.

Challengers fjallar um ástarþríhyrning tenniskappa.

Hvað eiga þær sameiginlegt fyrir utan það að vera hlaðnar erótík? Leikstjórarnir eru evrópskir (grískur, ítalskur og hollenskur). Kannski er það lausnin: fjölga evrópskum leikstjórum í Hollywood-myndum til að bæta úr kynleysinu.

Að öllu gamni slepptu þá er kynlíf hluti af dagsdaglegu lífi fólks. Það gengur því ekki að stærsti skemmtanabransi heims láti eins og það sé ekki til. Babygirl er því velkomin viðbót í gerilsneydda flóruna og hristir vonandi aðeins upp í iðnaðinum.

Niðurstaða: Fantaflottur kynferðistryllir

Hressandi erótískur spennutryllir um samband kynferðislega ófullnægðs forstjóra við ungan starfsnema sem frelsar hana kynferðislega gegnum BDSM-kynlíf. Spurningin er bara hvað kostar frelsið?

Kidman er óumdeilanleg stjarna myndarinnar en hinn ungi Dickinson gefur henni ekkert eftir og þá klikkar Banderas ekki frekar en fyrri daginn þó hann fái minna að gera. 

Halina Reijn leikstýrir Babygirl af öruggi, fetar vel línuna milli alvarleika og fáránleika þó hún reiði sig aðeins of mikið á popptónlist og samblöndun (e. montage) á köflum. Handritið höktir aðeins fyrir rest þegar þarf að binda hnút á fléttuna en reynist vel á heildina litið.

Litla stúlkan bliknar kannski í samanburði við evrópskar myndir en kynsvelt Hollywood hlýtur að taka henni fagnandi.


Tengdar fréttir

Melódrama, morð og hæfilega mikið bótox

Morguninn fyrir brúðkaup Ameliu og Benjis á draumaeyjunni Nantucket finnst einn brúðkaupsgestanna myrtur. Brúðkaupinu er aflýst og allir liggja undir grun. Enginn má fara af eyjunni fyrr en búið er að finna hinn seka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.