Innlent

Eyjólfur réði að­stoðar­menn úr kosningateymi flokksins

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Alexander Jakob Dubik og Andri Egilsson hafa þegar hafið störf sem aðstoðarmenn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Alexander Jakob Dubik og Andri Egilsson hafa þegar hafið störf sem aðstoðarmenn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Stjórnarráðið

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ráðið tvo aðstoðarmenn, Alexander Jakob Dubik og Andra Egilsson. Þeir hafa báðir starfað sem aðstoðarmenn þingflokks Flokks fólksins.

Alexander er með meistaragráðu í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands. Áður starfaði hann sem lögfræðingur og aðstoðarmaður þingflokks Flokks fólksins. Þá var hann í kosningateymi flokksins í nýafstöðnum kosningum.

Andri hefur einnig starfað innan flokksins. Hann var tímabundið aðstoðarmaður formanns og starfsmaður þingflokks Flokks Fólksins. Þá stýrði hann kosningaherferðum flokksins árin 2021 og 2024. Hann hóf sinn starfsferil sem gagnagrunnsstjóri hjá sprotafyrirtækinu Videntifier Technologies. Þá hefur hann einnig starfað hjá True North sem auglýsingastjóri og meðstjórnandi hjá auglýsingastofunni 99.

Alexander Jakob og Andri hafa báðir nú þegar hafið störf.

Fleiri ráðherrar hafa nú þegar ráðið aðstoðarmenn og hafa margir áður starfað innan flokka viðkomandi.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, réði Sigurjón Arnórsson og Hreiðar Inga Eðvarðsson en Sigurjón hefur verið aðstoðarmaður Ingu frá árinu 2017 og Hreiðar starfað sem framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins.

Logi Einarsson réði Tómas Guðjónsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Þá réði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra Ólaf Kjaran Árnason en þau hafa starfað saman í tæplega þrjú ár. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra leitaði ekki heldur langt en hún hefur ráðið Ingileif Friðriksdóttur sem tók við starfinu af Maríu Rut, eiginkonu sinni. 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur þá ráðið Jakob Birgisson og Þórólf Heiðar Þorsteinsson. Þá hefur Stefanía Sigurðardóttir hafið störf sem aðstoðarmaður Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar.


Tengdar fréttir

Stefanía aðstoðar Hönnu Katrínu

Stefanía Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar, verður aðstoðarmaður Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×