Erlent

Birtu ó­skýra mynd á netinu og leystu eitt elsta manns­hvarfsmál Bret­lands

Eiður Þór Árnason skrifar
Gamla ljósmyndin sem notuð var til að finna hvar Sheila Fox var í raun niðurkomin.
Gamla ljósmyndin sem notuð var til að finna hvar Sheila Fox var í raun niðurkomin. Lögreglan í West Midlands

Kona sem hvarf fyrir 52 árum fannst á lífi eftir að lögregla í Englandi birti gamla og óskýra ljósmynd af henni á dögunum. Fékkst þar með botn í eitt elsta opna mannhvarfsmál Bretlands.

Sheila Fox var sextán ára gömul þegar lýst var eftir henni í ensku borginni Coventry árið 1972. Á þeim tíma bjó hún hjá foreldrum sínum og var talið að hún hafi hugsanlega verið í ástarsambandi með karlmanni. Lögreglan taldi því mögulegt að hún hafi flust af svæðinu.

Síðasta sunnudag birti lögreglan í West Midlands-sýslu ljósmynd af Sheila á vefsíðu sinni og samfélagsmiðlum sem tekin var um það leyti sem hún hvarf. Fáeinum klukkustundum síðar hafði fólk sett sig í samband til að veita upplýsingar um farir hennar og í gær gaf lögreglan svo út að Sheila Fox, nú 68 ára gömul, væri á lífi og búsett annars staðar á Englandi.

Fóru í gegnum öll gömlu gögnin

„Við erum ánægð með að geta kynnt niðurstöðu í einni lengstu mannhvarfsrannsókn lögreglunnar í West Midlands,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar í kjölfarið en The Guardian greinir frá málinu. 

Rannsóknarlögreglukonan Jenna Shaw segir að farið hafi verið í gegnum öll gömlu sönnunargögnin til að finna gömlu ljósmyndina.

„Við erum lítið teymi og mig langar að viðurkenna vinnu rannsóknarlögreglumannsins Shaun Reeve sem tókst að leysa þetta mál með hjálp almennings. Sérhver týnd manneskja á sína sögu og fjölskyldur þeirra og vinir eiga það skilið að vita hvað varð um þau og vonandi sameinast þeim aftur,“ er haft eftir Jenna Shaw.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×