„Þetta er alltaf gert fyrsta fimmtudaginn hvers mánaðar. Til að athuga hvort að búnaðurinn virkar,“ segir Sigvaldi Lárusson varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.
Hann segir þetta hefðbundið verklag. Ekkert bendi til þess að búnaðurinn virki ekki. Hann telur að rýmingarflauturnar muni flauta í um eina mínútu.
Hann segir töluvert af fólki í bænum og síðustu vikur hafi að jafnaði verið gist í 35 til 45 húsum. Það hafi verið gist í um 32 húsum í nótt.
„Þetta er alltaf svipað, fjöldinn,“ segir hann að lokum.
Nýtt hættumat væntanlegt
Síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni lauk þann 9. desember. Það varði í 18 daga. Nokkuð rólegt hefur verið á svæðinu en enn er þó áframhaldandi kvikusöfnun við Svartsengi. Í síðustu tilkynningu veðurstofunnar kom fram að líkur á kvikuhlaupi aukist eftir nokkrar vikur haldi kvikusöfnun áfram á sama hraða. Tilkynningin var gefin út þann 19. desember.

Hættumatið sem fylgir gildir þar til í dag. Þar er enn talin nokkur hætta að vera í Grindavík vegna mögulegs jarðfalls ofan í sprungu en í Bláa lóninu og Svartsengi er hætta metin lítil eða mjög lítil