Erlent

Þrjá­tíu og fimm börn tróðust undir á jóla­há­tíð

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Nígeríu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregluþjónar að störfum í Nígeríu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Adekunle Ajayi

Að minnsta kosti 35 börn eru látin eftir að hafa troðist undir á jólahátíð í Ibadan í Nígeríu í gær. Forsvarsmenn hátíðarinnar höfðu lofað peningaverðlaunum og mat fyrir gesti en íbúar segja rúmlega fimm þúsund börn hafa mætt, auk foreldra og annarra.

Þegar hátíðin var að hefjast hófst mikill troðningur og dóu 35 börn. Samkvæmt frétt BBC voru að minnsta kosti sex börn flutt á sjúkrahús. Mögulegt er að þau hafi verið fleiri en það þykir óljóst.

Þá segist lögreglan hafa handtekið átta manns sem komu að því að halda hátíðina og þar á meðal er aðalskipuleggjandi hennar, sem er fræg kona í suðvesturhluta Nígeríu. Konan, sem heitir Naomi Silekunola, segist vera drottning/spákona.

Í heildina er talið að rúmlega tíu þúsund manns hafi sótt hátíðina en efnahagsástand Nígeríu þykir verulega slæmt þessa dagana og útskýrir það að hluta til af hverju svo margir mættu í von um að fá peninga og mat.

BBC segir nokkur sambærileg atvik hafa átt sér stað í Nígeríu undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×