Erlent

Hætta að rukka í al­mennings­sam­göngurnar

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarstjórinn í Belgrad greindi frá því í gær að til stæði að endurnýja allan strætis- og sporvagnaflota borgarinnar fyrir árið 2027.
Borgarstjórinn í Belgrad greindi frá því í gær að til stæði að endurnýja allan strætis- og sporvagnaflota borgarinnar fyrir árið 2027. Getty

Borgaryfirvöld í serbnesku höfuðborginni Belgrad hafa ákveðið að gera notkun almenningssamgangna í borginni gjaldfrjálsa frá og með áramótum. Er þetta liður í því að reyna að létta á umferð í borginni og draga úr töfum.

Borgarstjórinn Aleksandar Sapic greindi frá ákvörðuninni í gær og sagði hann breytinguna fela í sér að „enginn þyrfti lengur að borga fyrir miðann“.

Í frétt DW kemur fram að íbúar Belgrad telji um 1,7 milljónir manna, en ekki er þar að finna neðanarðarlestarkerfi.

Serbneska höfuðborgin er ekki sú fyrsta í Evrópu til að grípa til þess ráðs að gera almenningssamgöngur gjaldfrjálsar, en áður hafa meðal annars Lúxemborg og eistneska höfuðborgin Tallinn hætt að rukka notendur almenningsamgangna.

Íbúar í Belgrad hafa lengi glímt við miklar umfarðartafir og hefur bílum þar fjölgað um 250 þúsund á síðustu tíu árum, að því er fram kom í máli Sapic.

Bygging neðanjarðarlestarkerfis hefur lengi verið á plani borgaryfirvalda í Belgrad og gerðu áætlanir upphaflega ráð fyrir að þeim yrði lokið árið 2030. Öllum slíkum áætlunum hefur hins vegar ítrekað verið frestað.

Sapic greindi jafnframt frá því í gær að til stæði að endurnýja allan strætis- og sporvagnaflota borgarinnar fyrir árið 2027.

Sporvagnakerfi hefur verið starfrækt í Belgrad frá árinu 1892 og telur það nú um 127 kílómetra innan borgarmarkanna, sem gerir það eitt það lengsta í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×