Lífið

Beinir ríkis­styrkir ekkert endi­lega eina svarið

Jakob Bjarnar skrifar
Snorri Másson er ritstjóri, rithöfundur og alþingismaður. Mörgum finnst sem hann fari frjálslega með starfstitlana en hann segir ákveðna stemmningu í þessu.
Snorri Másson er ritstjóri, rithöfundur og alþingismaður. Mörgum finnst sem hann fari frjálslega með starfstitlana en hann segir ákveðna stemmningu í þessu. vísir/vilhelm

Slík ferð hefur verið á hinum 27 ára gamla Snorra Mássyni að ýmsum þykir nóg um. Hann hafði ungur (yngri) vakið nokkra athygli sem hlaðvarpsstjóri ásamt bróður sínum Bergþóri en þeir voru með hlaðvarpið Skoðanabræður.

Snorri var orðinn blaðamaður á Mogganum í Covid-inu, en áður en menn höfðu svo mikið sem áttað sig á því söðlaði Snorri um og réðst til Vísis og Stöðvar 2 þar sem hann reis hratt til metorða. Var hann að endingu kominn með eigin sjónvarpsþátt og fór með himinskautum.

Enn þá tók hann óvænt hatt sinn og staf og réðst í að stofna sitt eigið fjölmiðlafyrirtæki: Ritstjórinn. Snorri tók sér þar titilinn ritstjóri, þó hann væri bara að ritstýra sjálfum sér og þótti ýmsum það kúnstugt. 

Örlát og ósvífin sjálfslýsing

En svo þegar Snorri ritstjóri var að auki var farinn að titla sig rithöfund má segja að steininn hafi tekið úr. Blaðamanni Vísis bárust ábendingar um þessa örlátu og ósvífnu sjálfslýsingu og var vinsamlegast beðinn um að spyrja manninn út í það hverju þetta sætti? Rithöfundur er ekki verndað starfsheiti en það er lágmark að menn hafi sent frá sér bók, helst tvær, áður en þeir kalla sig þetta.

Þarna var kominn maðurinn sem gat skrifað bókina og það var ég, segir Snorri án þess að depla auga.vísir/vilhelm

„Mér finnst ákveðin stemning í þessu,“ segir Snorri í samtali við blaðamann. Hann lætur sér hvergi bregða. En áður en nokkuð hafði sést í bókarformi eftir manninn, hvað þá meira var rithöfundurinn Snorri kominn á fullt í stjórnmálabaráttu og fleytti snörp kosningabarátta honum inn á þing fyrir Miðflokkinn.

„Maður er ekki stjórnmálamaður með stjórnmálamönnum án þess að vera með einhver vafasöm æviágrip. Maður þarf að svara fyrir ýmislegt. Halla Tómasdóttir forseti var með einhverja vafasama skóla á sínu CV-i og þannig má lengi telja. Kannski var þetta bara beita og þú beist á agnið. Og hér erum við í viðtali um mína jólabók.“

Rithöfundurinn Snorri Másson

Já! Það var og. Blaðamaður Vísis verður eiginlega að gera stutt hlé – slík er ósvífnin – og leggja þetta niður fyrir sig. En það gefast ekki svigrúm til þess. Jólabókin Gummi? Hvernig kom þetta til?

„Ég hef sýnt tækni, nýsköpun og viðskiptum áhuga og Gummi hafði orðið þess var. Hann hafði verið með þetta bókaverkefni í fanginu um nokkurn tíma. Hann hafði ætlað að gera þetta nokkrum árum fyrr og þá hafði það dottið upp fyrir. En þarna var kominn maðurinn sem gat skrifað bókina og það var ég.“

Þetta hefur ekkert vaxið þér í augum?

„Nei. En af því að við erum að tala um þennan rithöfundatitil og ástæðuna fyrir því að ég var svona fljótur að smella honum á mig… 

Snorri segist hafa reynt að reykja fjóra pakka á dag, eins og Gabríel Garcia Marquez gerði þegar hann skrifaði Hundrað ára einsemd, en það tókst ekki.vísir/vilhelm

Alveg síðan ég asnaðist til að skipta yfir á málabraut af náttúrufræðibraut í menntaskólanum, þar sem mér gekk þó ágætlega, þá var ég í skiptinámi á Suður-Spáni að reyna að reykja jafn marga sígarettupakka og Garbríel Garcia Marques. Ég komst aldrei upp í fjóra eins og hann þegar hann skrifaði Hundrað ára einsemd. Til vara fór ég að láta mig dreyma um að ég gæti orðið jafn góður rithöfundur - sem ég verð auðvitað aldrei.“

Flóknara verkefni en hann bjóst við

Snorri réðst sem sagt ekki þá né síðar á vegginn þar sem hann er lægstur.

„Neinei, en ég veit ekki, mig langaði alltaf að verða rithöfundur og ungir menn láta sig dreyma. Ég sá mig tilneyddan að gerast verkamaður orðsins, vildi fara á málabraut, læra að skrifa, og fór því næst í Háskólann. Þetta var að mörgu leyti að skrifa. Þess vegna verður þú að virða það við mig að um leið og færi gafst vildi ég svala þessum draumi.“

Með fullri virðingu þá er nú kannski örlítill munur á Gabríel Garcia Marques og ævisögu?

„Jú, þar er úr háum söðli að detta. Ég viðurkenni það. En, nei, ég er löngu búinn að gefast upp á hinni hugsjóninni, það er að fara að skrifa skáldsögur. Eins og ég lít á þetta er Gummi mjög skemmtileg fyrsta bók. 

Snorri telur bókina Gumma ágæta frumraun en þar er sagt frá ævintýralegum ferli Guðmundar Hafsteinssonar sem gerði það gott í hinu klikkaða tækni- og tölvuumhverfi sem litað hefur líf okkar undanfarin 20 árin, eða svo.vísir/vilhelm

Ég hefði ekki sjálfstraustið í að setjast niður og skrifa bók en nú þegar ég hef gert það fyrir atbeina míns ágæta félaga Gumma fæ ég aðgengilegan efnivið í hendurnar. Þetta er ágæt frumraun.“

Og Snorri segir að um talsvert flóknara og erfiðara verkefni hafi verið um að ræða en hann hafði reiknað með.

„Ég lærði mikið. En maður treysti sér betur í þetta en að fara að senda frá sér töfraraunsæislega skáldsögu í þremur bindum. Engu að síður, og ég nefni það í þessu samhengi að þessi saga af Gumma er náttúrlega, þó hún sé í grunninn hans frásgögn, samfélagsspegill og varðar samskipti Íslands við útlönd. Gummi var á staðnum og stuðlaði að þessu öllu saman. Ég tek tillit til tækniþróunar og það samspil allt sem segir meira en margt annað. Því finnst mér þetta eiga erindi, þessi saga er okkar saga.“

Gummi er rétt að byrja

Gummi, eða Guðmundur Hafsteinsson, hefur átt ævintýralegan feril en er nú fluttur til Íslands og er meðal annars formaður Icelandair. En hann er meðal þeirra sem hefur gert það hvað best í þessu klikkaða tækni- og tölvuumhverfi sem er þarna úti. Í Sílikondalnum fræga.

„Hann er ekki orðinn fimmtugur og er rétt að byrja. Önnur ástæða fyrir því að þessi skáldsaga er skrifuð svona er sú að tungumálalíkön og gervigreindin eru að ná nýjum hæðum. Eins og hann lýsir því er það nú að gerast sem hann hefur unnið að alla tíð. Hann er að taka saman hvað hefur á gengið og eftir atvikum draga einhverjar ályktanir um framhald mála. Hann er hvergi nærri að baki dottinn.“

Er maðurinn ekki moldríkur eftir þessi ævintýri?

„Ég held að hann hafi það mjög gott. Ég skal ekki fullyrða um fjárhag hans en eins og frem kemur í bókinni var þetta gjöfult umhverfi. Hann seldi fyrirtækið til Google á sínum tíma og er ekkert að lepja dauðann úr skel – eins og við verkamenn orðsins.“

Hyggst ekki að fara með veggjum í þinginu

Við verkamenn orðsins? Þú sjálfur ert ekki beinlínis að fara að lepja dauðann úr skel, orðinn opinber starfsmaður og þarft ekki einu sinni að skammta þér launin sjálfur – það er búið að sjá til þess að ykkur þingmenn skorti ekkert?

„Ég veit það. Ég er heiðraður að nokkur skuli vilja kaupa af mér þessa þjónustu sem ég er að veita. Og tek því auðvitað mjög alvarlega.“

Óhætt er að segja að ferill Snorra hafi verið ævintýralegur fram til þessa.vísir/vilhelm

Við erum náttúrlega að tala um þingmennskuna. Og þangað hefur blaðamaður Vísis fylgst með mörgum góðum manninum fara, fullum af góðum ásetningi, en hafa líkt og gengið í björg.

„Já. Ég held að þú munt heyra meira frá mér. Þó ég skilji þessa áhættu sem því fylgir að telja sig vera kominn í örugga höfn.“

Snorri ætlar sem sagt ekki að vera sá sem hefur náð sínu markmiði og vilji nú láta lítið fyrir sér; öruggur um að vera tiltölulega óumdeildur og halda sínu striki.

„Sko ... ég hætti í ágætlega góðri stöðu á Stöð 2. Ég uni mér ekki vel í kyrrstöðu. En ef ég finn þarna inni að ég sé ekki að ná að láta gott að mér leiða þá mun ég tvímælalaust hugsa minn gang. Lífið er stutt, mjög stutt. Ég skil áhyggjurnar en ég er ekki á höttunum eftir þægilegri innivinnu. Ég hafði það ágætt í mínum rekstri, það er ekki það sem ég er að leita eftir, ég vil smá hávaða.“

Vont ef menn halda að þetta sé þægileg innivinna

En það eru ýmis sjónarmið sem þú munt þurfa að taka tillit til. Kerfið mylur menn, þetta er eins og að ganga á sýrópi að hnika nokkrum sköpuðum hlut innan kerfisins? Því sem eitt sinn hefur verið komið á verður ekki svo glatt til baka tekið?

„Eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins lýsti þessu fyrir mér á sínum tíma, áður en hann sagði að þetta seigfljótandi element, að maður verði að líta á það ekki sem hindrun heldur hluta af starfinu. Ég fer þarna inn meðvitaður um að þessi viðleiti manns að breyta einhverju til betri vegar, hún mun mæta andstöðu eðli máls samkvæmt. En þá þarf einmitt að vera sér meðvitaður um það. Þetta er ekki frávik, kerfið virkar þannig.“

Að drepa allt í dróma?

„Það er mjög slæmt ef fólk upplifir þetta svo að þarna gerist ekkert gott. Þeim mun meiri ástæða er til að menn sprikli þarna inni. Vont ef fólk fær það á tilfinninguna, sem ég veit að margir hafa, að menn séu að koma sér þarna fyrir og í þægilega innivinnu.“

Snorri spyr fyrir hvað sé verið að borga sér laun? Og það séu þá þingstörfin, að taka ákvarðanir og vera fulltrúi þeirra sjónarmiða sem hann var kosinn út á.

Óvænt útspil Bjarna, um að slíta stjórninni, þýddi að Snorri varð að fara í jakkafötin, sem hann hefur reyndar ekki farið úr síðan hann hóf störf á Stöð 2, og hefja framboðsbaráttuna.vísir/vilhelm

„Og þessu fylgir töluverð útgáfustarfsemi.“

Ha?

„Já. Ég verð áfram með mikla efnisútgáfu og ég veit að mínir kjósendur kunna að meta það. Ég veit ekki í hvaða mynd það verður, en já, ég mun halda áfram og greina fólki frá því hvernig hlutirnir gerast þarna inni. Ég hef ekki áhyggjur af því að ég muni ekki vinna upp í þessi laun. Sem eru reyndar helvíti góð. Svo eru margir stjórnmálamenn, eins og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sem sagðist telja að það fari nú enginn í stjórnmál til að eignast peninga. Þetta er mjög spennandi.“

Þurfti að fiska eitt og annað upp úr Gumma

Þegar þeir Guðmundur voru að senda bókina í prentun vildi ekki betur til en svo að daginn eftir sleit Bjarni ríkisstjórnarsamstarfinu. Skyndilega var Snorri kominn á bólakaf í framboð og nýfenginn (illa fenginn?) rithöfundaferill hvarf nánast í skuggann.

„Það er hægt að skrifa bók og ekki bók. Þú gætir svo sem, ef þú myndir haga málum þannig, komið frá þér einni bók annað hver ár. Margir eru ekkert í þessu í fullu starfi og sinna skriftum meðfram öðru. Mér fannst merkilegt að kynnast því. Á endanum ertu að skrifa orð á blaðsíður. Þetta er sama í grunninn. Forvitnilegt fyrir mig að fatta að maður geti gert þetta. Að skrifa alvöru sögu fólks úr samtímanum.“

Snorri er að reyna að finna út muninn milli þess að skrifa greinar sem blaðamaður, taka viðtöl við fólk af ýmsu tagi í hlaðvarpsþátt sinn eða hreinlega að skrifa bók. Sem hefur ætíð verið sett á stall sem merkilegra efni.

Snorri segir Gumma lítillátan og hann hafi þurft að toga upp úr honum orðin.vísir/vilhelm

„Maður er vanur að fá ábendingar um efni og þá er spurningin: Er þetta grein, er þetta hlaðvarpsviðtal… þegar Gummi talaði við mig þá hugsaði ég: Þetta er bók. Það er eina formið sem fullnægir þessari sögu.“

Guðmundur hafði þá þegar verið í viðræðum við Jónas Sigurgeirsson útgefanda hjá Bókafélaginu en þeir höfðu ekki fundið leiðina.

„Þetta var flókið. Hann er lítillátur og ég þurfti að veiða heilmikið upp úr honum. Að baki bókinni liggja viðamikil viðtöl og þá þurfti að skrifa inn í þessa sögu alla þekkinguna; Facebook, Google, Amazon … þetta blandast inn í söguna og það þurfti að fara ofan í mikilvægar heimildir. Þetta stigmagnaðist og varð umfangsmikið verk, aðstandendum mínum örugglega til mikillar ánægju.“

Fyrsta skrefið að viðurkenna vandann

Og nú ertu kominn við kjötkatlana og hinir nýju kollegar þínir rithöfundarnir eru án vafa alsælir með það að hafa sinn mann þar og hugsa sér gott til glóðarinnar?

Snorri hikar. Segir þetta rétt. Hann hafi séð klippu með Ernu Mist listakonu sem var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Ein pæling. Þar nefndi hún Snorra sérstaklega til sögunnar og svo listamannalaun.

„Hún nefndi mig sem fulltrúa einhverra sjónarmiða gagnvart menningararfinum, að ég væri slíkur talsmaður að vilja tala fyrir listum og menningu. Þá er bara spurningin, hvað er að tala fyrir listum og menningu? Er það að tala fyrir óbreyttu ritlaunakerfi?“

Snorri áttar sig á því að hann er hér kominn út á jarðsprengjusvæði en heldur ótrauður áfram.

„Sko, mér sýnist viðhorfið vera að menn geti ekki verið talsmenn lista og menningar án þess að tala fyrir óbreyttu ástandi. Ég geri það ekki. Mér finnst augljóst að þetta kerfi þarf að verða betra.“

Og ertu með einhverjar útfærðar hugmyndir þar um?

„Nei. En ef ég á að segja það alveg eins og er þá held ég að fyrsta skrefið sé að viðurkenna vandamálið. Og rýna í hvernig hægt er að hlúa betur að listamönnum en gert er. Ekki að gera kjör þeirra verri heldur hvernig er raunhæft að tryggja að þetta kerfi ýti raunverulega undir frjóa listsköpun og við viljum að það geri.“

Aldrei séð aðra eins andstöðu rísa

Er þetta kerfi að gera eitthvert gagn?

Jú, eitthvað en mér sýnist, ef að er gáð, menn meira og minna hundóánægðir. Þá eiga menn að vera tilbúnir að taka hlutina til endurskoðunar. Ég átta mig vel á því, og tek tillit til þess, að bókmenntalífið reiðir sig að miklu leyti á þetta. Kerfið eins og það er núna. Og enginn er að tala fyrir því að slá þetta af en fyrsta skrefið er að viðurkenna að það sé eitthvað óeðlilegt við þetta kerfi.“

Snorri og Gummi, þarna staddir í Arion banka að kynna bók sína.vísir/vilhelm

Snorri segir að umræðan um listalaunakerfið hafi sprungið út núna, en fyrirkomulagið var þannig að þessu sinni að kynnt var að gefinn yrði út listinn yfir þá sem fengu en á meðan voru bréf send út til umsækjenda. Sem þýddi að þeir sem ekki fengu áttu sviðið.

„Og ég hef aldrei séð eins mikla andstöðu í rithöfundastétt rísa. Óánægjan hafði greinilega kaumað undir niðri. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. 

Hvað á rithöfundur að gera sem á allt sitt undir einhverri opinberri nefnd? 

Hann mun aldrei gagnrýna kerfið sem þetta byggir á og í öðru lagi, og það er vandmeðfarnara efni, er að spyrja sig af hreinskilni: Hvaða áhrif hefur þetta á listina sem þetta fólk er að skapa? Fara menn í að laga hana að því sem gæti hjálpað þeim að halda styrknum? Flestir skrifa eftir sínu eigin höfði og sjá hvað verður. En hvaða áhrif hafa þessi listamannalaun beinlínis á listina sjálfa?“

Vill ekki svipta rithöfunda lífviðurværinu

Í fljótu bragði myndi maður ætla að sá hópur sem er á listamannalaunum gerist meðvitað eða ómeðvitað talsmenn viðtekinna viðhorfa?

„Já, það er líka spurning. Stjórnmálamenn hlusta eftir sjónarmiðum en skulu ekki halda að það besta sem þeir geri sé að láta allt eftir listamönnum. Er þessi list sem verið er að tala um þannig að í mörgum tilvikum er ákveðinn þröngur hópur að skrifa eitthvað sem nær ekkert mikið út fyrir þann þrönga hóp?“

Snorri er ekkert að hlífa sér sem pólitíkusi hvað þetta varðar. Hann segist hafa átt í allskonar samræðum við málmetandi fólk, vel lesið og úr öllum áttum.

Snorri segir fulla ástæðu til að ræða hvað það er sem veldur mikilli óánægju með listamannalaunin.vísir/vilhelm

„Mér finnst hvergi eins og það sé verið að ræða íslenskar fagurbókmenntir af slíkum þunga, að þær skipti sköpum í samfélagsumræðunni. Og er þá af sem áður var. Hvað er það? Er allt að frjósa út af þessu kerfi? Ég er ekki að segja að svo sé en þetta þarf að rannsaka. Ég get ekki sagt að ef bókmenntir væru með öðru móti, að þá næðu þær meira máli.“

Snorri segist einlæglega hafa áhuga á að gera rithöfundum kleift að skrifa góðar bækur.

„Það er mitt markmið - ekki svipta rithöfunda lífsviðurværi sínu. Það er hægt að gera eins og í öðrum málum, að menn leggist yfir það hvernig aðrar þjóðir standa að þessu, hvernig er hægt að nýta breytta tækni til að búa til eðlilegra og skilvirkara kerfi og svo framvegis.“

Ætlar ekki að kaupa sér velvild rithöfunda

Snorri segist vera sér fyllilega meðvitaður um sérstöðu Íslendinga í mannkynssögunni sem sé auðvitað þeirra framlag til heimsbókmenntanna, sem er einstakt miðað við smæð okkar.

„Enginn Alþingismaður lætur hvarfla að sér að raska þeirri samfellu sem við búum við frá fornbókmenntum og til okkar tíma. Þess vegna yrði að fara að öllu gætilega. En ég veit ekki hvort breytt listamannalaunakerfi teljist til meiri háttar rasks. 

Hver er hún þessi dauða hönd sem hvílir yfir bókaútgáfu? Snorri vill átta sig á því.vísir/vilhelm

Það er ósatt að ritlaunin í núverandi mynd séu forsenda þessarar listsköpunar. Listir og bókmenntir hafa verið fjármagnaðar með ýmsum vafasömum hætti frá upphafi byggðar hér í landi. Menn fundu lausa stund í klaustrum til Íslendingasagnaskrifa og síðari tíma menn nutu stuðnings menningarlega sinnaðra smjörlíkisframleiðenda, sem höfðu trú á íslenskum listamönnum.“

Allt þetta er líka vafasamt að sögn Snorra; allir eru háðir ritlaunanefndunum, sem sjálfar berast óhjákvæmilega með straumi tímans í pólitík og menningu. Og hann spyr hvort það sé heilbrigðara en eitthvað annað?

„Annað í þessu: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru ávextir ríkjandi kerfis? Titlarnir eru kannski fleiri en nokkru sinni fyrr en lestur er í frjálsu falli. Áhugi á bókmenntum takmarkaður, nema innan ákveðins hóps, sem fæst sem ritað er nær út fyrir. Menningarstétt í innra samtali. 

Á sama tíma eigum við að vera þessi mikla bókaþjóð, sem er svo sem klisja sem ég er mjög stoltur af. 

En er það rétt? Er kannski vitleysa að vera að kyrja það á meðan það verður ósannara með hverju árinu sem líður?

Snorri segir rithöfunda fullyrða við sig að það liggi dauð hönd yfir íslenskum bókmenntum.

„Það er þá mitt sem alþingismanns að rannsaka hvaða hönd þetta er og hvort hún sé jafnvel ritlaunakerfið sjálft. Ég held alla vega að við höfum næg gögn í höndum til að hafna því orsakasamhengi að meiri ritlaun inni í núverandi kerfi sé sama sem meiri bókaþjóð. Það er ekki göfugt af stjórnmálamanni að kaupa sér velvild með því að láta allt eftir listamönnum sem eru jafnvel úr öllum tengslum við íslenskan almenning. Það þarf að meta árangur þessa fyrirkomulags sem er í gildi af hreinskilni.“

Ef þú talar fyrir vókisma ertu góður

Snorri segist hafa fengið fleiri reynslusögur frá þeim sem starfa innan þessa fags. Til að mynda hafi hann rætt við vinsælan rappara sem hafi einfaldlega sagt við sig: Gefið mér þessi laun!

„Ekki láta þetta í hendurnar á hverju fólki sem hefur verið í fimm ár á þessum launum og nær engu máli. Þetta er eins og með annað í þessu kerfi sem ætlað er að lyfta listamönnum. En það er fullt af fólki sem þætti vænt um að fá þessi listamannalaun. Talandi um málrækt, ég er sammála því en erum við að tala um málrækt ef óperan flytur eitt verk á íslensku? Fer málrækt fram þar? Það er margt í þessu.“

Gagnrýnendur eru líka sekir, þeir mæra hinn félagslega rétttrúnað sem virðist svo vera aðgöngumiði að starfslaunum.vísir/vilhelm

Snorri segist hafa heyrt frá rithöfundum að þeir telji ljóst að ef þeir færu að tala á tilteknum hugmyndafræðilegum grunni, íhaldssömum, þá myndi það reynast þeim afar illa innan þessa kerfis.

„Á sama máta. Ef þú talar alltaf á þessum nótum grundvallarvókeisma, þá ertu réttum megin línunnar í þeim hluta matsins. Enda, hvenær kom síðast út bók sem var afurð listamannalaunakerfisins sem allir voru brjálaðir út af? Ef það er notað sem einn mælikvarði á list? Það væri þá allaveganna eitthvað að gerast þarna.“

Þú vilt sem sagt meina að listamannalaunin ali á moðsuðu?

„Já. Svo færðu dóm; þetta sé fyrirtaks loftslagsskáldsaga. Umræða sem mallar alls staðar. Ég held að gagnrýnendurnir séu sekir um þetta líka. Þeir meta bækur út frá því hversu mikil félagsleg réttsýni kemur þarna fram. Það býr enginn í tómarúmi gagnvart slíkri bókmenntaumræðu, dæmi eru um lifendur og dauða að bókmenntirnar séu samfélagslega réttsýnar.“

Kappsmál að hér sé skrifað sem mest

Snorri segist þekkja það úr blaðamennskunni, miðað við það magn sem þeir skrifa að þá leggi það sig á nokkrar bækur.

„Ég tel, ef við förum út í hvað það er að skrifa, skriftir eru eina leiðin til að móta óbrjálaða hugsun. Tæknin hefur ekki komið fram um aðra leið. Mikið hagsmunamál er fyrir íslensku þjóðina að hér sé skrifað af sama kappi, meira kappi, en verið hefur. Þó það þurfi ekki endilega að gerast á grunni nákvæmlega þess kerfis sem hefur verið við lýði.“

Ríkisstyrkir eru ekki frumforsenda listsköpunar, þó margir láti þannig.vísir/vilhelm

Snorri segir að það þurfi að fara í meiriháttar stefnumótun sem snýst um mál- og þjóðrækt. Á öllum sviðum.

„Og þá ekki bara þeim sem bókmenntaelítan hefur áhuga á. TicTok er ekki jafn fínt og 300 blaðsíðna skáldsaga en getur haft meiri áhrif. Gild stefnumótun.

Vert er að nefna að hlutirnir þurfa ekki alltaf að gerast í formi beinna ríkisstyrkja, það er eiginlega fyrst þá sem hlutirnir hafa tilhneigingu til að súrna. 

Viljum við laga rekstrarumhverfi fjölmiðla þá er fyrsta svarið alltaf meiri peninga! Þetta mætti skoða þetta í listum líka.“

Ríkisstyrkir eru ekki frumforsenda listar, eins og manni virðist stundum vera uppleggið.

„Í gegnum tíðina hafa listir verið fjármagnaðar eftir ýmsum skrítnum leiðum, patrónum endurreisnartímans til allskyns sporslustyrkja sem menn voru með í upphafi tuttugustu aldar. Listin er svo skrítið fyrirbæri að það er engin heilbrigð leið til að fjármagna þetta í grunninn. Það verður alltaf eitthvað skrítið við þetta og við verðum að finna eitthvað kerfi sem er eins lítið skrítið fyrir okkar tíma og hugsast getur.“

Sæmilega greindur grunnskólanemi markhópurinn

Snorri segir mikla varðstöðu ríkja, að standa vörð um Status Quo og hann ætlar sér að vaða í þær vélar. Gangi honum vel með það. En framboðið, og þingmennska í kjölfarið, hlýtur að hafa truflað kynningu á bókinni?

„Þetta hitti reyndar ágætlega á í þeim skilningi að meðan hörðustu framboðskynningarnar fóru fram lágu bókakynningar að mestu leyti niðri. Mér líður vel í þessu hlutverki. 

Rithöfundar hafa nú eignast hauk í horni á þingi. Eða hvað? Menn ættu að varast að óskir þeirra rætist, þær gætu orðið að veruleika.vísir/vilhelm

Ég hef verið að fá, sem mér er mikið í mun að gerist þó þetta sé endurminningar innan gæsalappa, að ungt fólk er ánægt með þessa bók. Þetta er velgengnissaga; hvernig fólk fer að sem er að gera það gott. Og ég veit um fjölda fullorðna sem ætla að lauma þessu í jólapakkann fyrir ungt fólk.“

Og þú ert nú að lesa upp úr bókinni eins og þér sé borga fyrir það?

„Já. Við Gummi förum oft saman og spjöllum um bókina. Svo skilst mér að þetta sé að ganga prýðisvel. Þetta er ólík bók en flestar sem hafa verið gefnar út. Og skrifuð fyrir fólk sem er alltaf á internetinu.“

Eru netnördarnir að gefa sig að bókum?

„Já, þetta er það. Bókin er viðskiptamiðuð líka. Þetta er ekki á tæknimáli. Ég er hugvísindamaður. Fólk getur skilið þetta og vel svo. Ég hef þetta þannig að hinn dæmigerði lesandi sé svona sæmilega greindur grunnskólanemi. Doktorar verða ekki fyrir vitsmunalegum vonbrigðum heldur.“

En er bókin strákaóríenteruð?

„Ef sú er raunin verð ég að kalla eftir frekari átaksverkefnum sem miða að því að fá stelpur í tæknina. Ég firra mig ábyrgð á því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.