Einn er látinn í það minnsta og töluverðar skemmdir hafa orðið á byggingum í höfuðborginni Port Vila, þar á meðal í byggingum þar sem nokkur sendiráð erlendra ríkja eru til húsa, að sögn CNN fréttastofunnar. Á myndum sem hafa borist sést einnig tjón í verslunum og fleiri byggingum í höfuðborginni.
Óljóst er þó um ástandið í dreifðari byggðum en á Vanúatú búa um 330 þúsund manns og dreifast þeir á um áttatíu eyjar. Skjálftinn varð á tæplega 60 kílómetra dýpi um þrjátíu kílómetrum undan ströndum eyjanna og var flóðbylgjuviðvörun gefin út til þess að byrja með, en hún var síðan afturkölluð.
Blaðamaður sem staddur var á eyjununum segir í samtali við ástralskan miðil að skjálftinn hafi varað í um þrjátíu sekúndur og verið afar öflugur. Þá hafa vitni einnig talað um miklar aurskriður í kjölfar skjálftans og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka.