Handbolti

Guðjónssveinar réðu ekkert við Ómarslaust lið Magdeburgar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var góður í flottum sigri Magdeburg í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var góður í flottum sigri Magdeburg í kvöld. Marco Wolf/Getty Images

Íslendingalið voru í eldlínunni í þýska handboltanum i kvöld þar sem Melsungen styrkti stöðu sína í toppsætinu og Magdeburg hafði betur í Íslendingaslag á móti Gummersbach.

Melsungen vann öruggan 35-28 heimasigur á Hamburg eftir að hafa verið 17-12 yfir í hálfleik.

Elvar Örn Jónsson var með tvö mörk en Arnar Freyr Arnarsson náði ekki að skora.

Melsungen er með 24 stig og tveggja stiga forskot á næsta lið sem er Hannover-Burgdorf.

SC Magdeburg vann níu marka heimasigur á Gummersbach, 37-28. Liðið var sex mörkum yfir í hálfleik, 21-15. Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach áttu fá svör í kvöld.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar fyrir Magdeburg í leiknum.

Magdeburg leikur eins og kunnugt er án Ómars Inga Magnússonar sem meiddist illa á ökkla á dögunum. Manuel Zehnder var markahæstur með tólf mörk.

Teitur Örn Einarsson var með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar fyrir Gummersbach en Elliði Snær Viðarsson gat ekki spilað vegna meiðsla.

Magdeburg er í fimmta sæti með 19 stig en Gummersbach er í sjöunda sæti með sextán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×