Snæfríður hóf mótið á að bæta Íslandsmetið í greininni en hún synti á 52,77 sekúndum. Fyrra metið átti hin 24 ára gamla Snæfríður einnig en það var 53,11 sekúndur, sett í Otopeni í Rúmeníu fyrir ári síðan.
Fyrir keppni í dag átti Snæfríður 18. besta tímann af keppendum í 100 metra skriðsundi en hún náði 11. besta tímanum í undanrásunum í morgun.
Hin bandaríska Gretchen Walsh náði besta tímanum í morgun eða 51,64 sekúndum.
Snæfríður var 26/100 úr sekúndu á eftir keppendunum sem náðu 7. og 8. besta tímanum í morgun, og verður forvitnilegt að sjá hvernig henni reiðir af í undanúrslitunum síðdegis í dag.
Hún stendur enn betur að vígi í 200 metra skriðsundi, seinni grein sinni á mótinu, en Snæfríður er skráð með áttunda besta tímann af keppendum í þeirri grein.