Körfubolti

Alba Berlin úr leik í bikarnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martin Hermannsson er nýstiginn upp úr meiðslum sem héldu honum frá keppni í heilan mánuð. 
Martin Hermannsson er nýstiginn upp úr meiðslum sem héldu honum frá keppni í heilan mánuð.  Moritz Eden / City-Press GmbH Bildagentur via Getty Images

Alba Berlin er úr leik í þýsku bikarkeppninni í körfubolta eftir 80-67 tap á útivelli gegn Bamberg. Martin Hermannsson skoraði sex stig fyrir Berlínarmenn, gaf þrjár stoðsendingar og greip tvö fráköst. Þetta var hans þriðji leikur eftir að hafa stigið upp úr meiðslum, sem héldu honum frá keppni í heilan mánuð.

Leikurinn var lítið spennandi þó jafnræði hafi verið í fyrri hálfleik, heimamenn Bamberg tóku sannfærandi fram úr í þriðja leikhluta og sigldu sigrinum örugglega heim í þeim fjórða.

Alba Berlin hefur ekki fagnað góðu gengi það sem af er vetri. Liðið endaði í öðru sæti á síðasta tímabili og fór alla leið í úrslitaeinvígi gegn ríkjandi meisturum Bayern Munchen.

Hingað til í þýsku úrvalsdeildinni hefur Alba Berlin hins vegar aðeins unnið þrjá leiki, tapað sex og situr í fjórtanda sæti af sautján.

Svipaða sögu má segja af EuroLeague en þar hefur liðið unnið þrjá leiki, tapað ellefu og situr í næst neðsta sæti.

Ekki bætir því úr skák að hafa fallið úr leik í bikarnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×