Skoðun

Hæstu raun­vextir síðan í hruninu

Stefán Ólafsson skrifar

Verkalýðshreyfingin gerði kjarasamninga sl. vor sem höfðu það markmið að ná fram þjóðarátaki til lækkunar verðbólgu og vaxta, með hóflegum launahækkunum til fjögurra ára. Það var framlag launafólks til stöðugleikans.

Verðbólgan hefur lækkað þokkalega en raunvextir flestra íbúðarlána eru enn að hækka þrátt fyrir smá lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Raunvextir eru nafnvextir að frádreginni verðbólgu.

Myndin sýnir þróun meðaltals raunvaxta frá janúar 2009 til ágústs 2024, samkvæmt gögnum Seðlabankans.

Á sama tíma og verðbólgan hefur lækkað úr um 10% niður í 4,8% þá hafa raunvextir stórlega hækkað og eru sem sagt í methæðum, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi nú tekið tvö hænuskref til lækkunar stýrivaxta (nafnvaxta). Raunvextir voru heldur hærri í rústum hrunsins í byrjun ársins 2009 (6-7%), en voru svo komnir niður í 4% strax í ágúst sama ár og lækkuðu hratt áfram til 2011.

Greiningardeildir bankanna spá nú háum raunvöxtur áfram, langt frameftir næsta ári. Það hljómar vel í bönkunum, enda skila vaxtatekjur bankanna stærstum hluta tekna þeirra. Stjórnendur bankanna fá síðan kaupauka vegna mikils hagnaðar bankanna.

Frá því í ágúst á þessu ári hafa raunvextir reyndar hækkað enn meira en myndin sýnir. Þetta vita þau sem eru með íbúðalán. Íslandsbanki og Arion banki bjóða nú t.d. verðtryggð íbúðalán á um 5% raunvöxtum.

Almennilegt húsnæðislánakerfi ætti ekki að vera með meira en 1,5 – 2,5% raunvexti á langtímalánum með tryggum veðum. Við erum að skríða í um 5%.

Það fólk sem hefur verið á föstum vöxtum síðan 2020-2021er flest að færast á mun hærri vexti. Hátt í 60% skuldugra heimila eru nú með verðtryggð lán og þau eru öll að fá á sig hækkun raunvaxta, með hærri greiðslubyrði. Lækkun verðbólgunnar bætir þó eignamyndunina hjá þeim.

Þetta er framlag fjármálakerfisins til þjóðarátaksins um lækkun verðbólgu og vaxta!

Mér datt í hug að þið vilduð vita af þessu...

Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar hjá Eflingu




Skoðun

Sjá meira


×