Erlent

Fangaskipti milli Banda­ríkjanna og Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Harrison Li með mynd af föður sínum, Kai Li, hefur verið sleppt úr fangelsi í Kína.
Harrison Li með mynd af föður sínum, Kai Li, hefur verið sleppt úr fangelsi í Kína. AP/Jeff Chiu

Þremur Bandaríkjamönnum sem hafa setið um árabil í kínverskum fangelsum hefur verið sleppt. Það var gert í skiptum fyrir ótilgreinda kínverska ríkisborgara í haldi Bandaríkjamanna. Yfirvöld í Bandaríkjunum gáfu einnig í dag út viðvörun þar sem Bandaríkjamenn eru varaðir við því að ferðast til Kína.

Um er að ræða þá Mark Swidan, Kai Li og John Leung. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa sagt þá alla hafa verið ranglega fangelsaða.

Li, sem er sjötugur, var handtekinn árið 2016 og dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir njósnir.

Swidan var handtekinn árið 2012 og dæmdur til dauða fyrir fíkniefnalagabrot sem rannsakendur Sameinuðu þjóðanna hafa sagt að eigi ekki við rök að styðjast. Fjölskylda hans hefur einnig sagt að hann hafi ítrekaði verið pyntaður í fangelsi.

Leung var handtekinn árið 2021 og dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir njósnir. Samkvæmt CNN hefur hann lengi leitt nokkur samtök í Bandaríkjunum sem þykja hliðholl yfirvöldum í Peking og hefur ítrekað fundað með og hitt háttsetta embættismenn í Kína.

Kínverjar slepptu fjórða manninum, David Lin, presti, úr haldi fyrir tveimur mánuðum en hann hafði setið í fangelsi í Kína í tuttugu ár eftir að hann var dæmdur fyrir svik.

AP fréttaveitan segir að ríkisstjórn Joes Biden hafi átt í löngum viðræðum við ráðamenn í Kína á undanförnum árum um að fá mennina heim. Það að viðræðurnar hafi gengið eftir þykir til marks um að ráðamenn í Kína hafi ekki viljað bíða eftir að Donald Trump taki við embætti í janúar en hann hefur boðað harða stefnu í garð Kína.

Samband Kína og Bandaríkjanna hefur beðið mikla hnekki á undanförnum árum. Fyrir því eru fjölmargar ástæður eins og málefni Taívan og Suður-Kínahafs, stuðnings Kínverja við Rússa, mannréttindamála og hafa Bandaríkjamenn lengi verið reiðir í garð Kínverja vegna sölu þeirra á efnum sem notuð eru til að framleiða Fentanyl til glæpasamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×