Erlent

Sprengdu tuttugu hús á tveimur mínútum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelar hafa varpað þó nokkrum sprengjum á Beirút í dag.
Ísraelar hafa varpað þó nokkrum sprengjum á Beirút í dag. Getty/Houssam Shbaro

Ísraelski herinn tilkynnti í dag umfangsmiklar loftárásir í Beirút, höfuðborg Líbanon. Þær voru tilkynntar skömmu áður en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, mun funda með ráðherrum sínum um mögulegt vopnahlé milli Ísraela og Hezbollah-samtakanna.

Fjölmiðlar í Ísrael segja líklegt að vopnahléstillaga sem liggur fyrir verði samþykkt.

Times of Israel sagði frá því að ísraelski herinn hefði varað íbúa um tuttugu bygginga í úthverfi í sunnanverðri Beirút, þar sem ítök Hezbollah hafa verið mikil í gegnum tíðina.

Ísraelski herinn sagði svo í kjölfarið að árásir hefðu verið gerðar með átta orrustuþotum á sjö byggingar þar sem vígamenn Hezbollah eiga að hafa geymt og sýslað með peninga. Þrettán hús sem sprengjum var einnig varpað á eiga að hafa verið notuð sem vopnageymslur, stjórnstöðvar og annað.

Herinn birti meðfylgjandi drónamyndband af árásunum í dag. Myndbandið sýnir hvernig sprengjum var varpað á tuttugu skotmörk á um tveimur mínútum.

Í stuttu og einföldu máli sagt snýr tillagan að því að Ísraelar hörfi frá suðurhluta Líbanon og að vígamenn Hezbollah geri það einnig á allt að sextíu dögum. Sá hluti landsins er markaður af Litaniá.

Sjá einnig: Ísrael og Hezbollah sögð við það að gera vopna­hlé

Ísraelar hafa lengi kvartað yfir því að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2006, sem meinaði vígamönnum Hezbollah eða öðrum vígamönnum að halda til suður af Litaniá í Líbanon, hafi ekki verið framfylgt. Eingöngu líbanski herinn og friðargæsluliðar áttu að mega vera á svæðinu samkvæmt ályktuninni en meðlimir Hezbollah hafa lengi byggt göng og neðanjarðarbyrgi á svæðinu og hafa skotið eldflaugum að Ísrael þaðan.

Í suðurhluta Líbanon eru ísraelskir hermenn nú komnir að Litaniá og er það í fyrsta sinn, síðan hermenn réðust fyrst inn í Líbanon fyrr í haust.

Varnarmálaráðherra hótar árásum

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, hét því í dag að verði vopnahlé samþykkt muni Ísraelar ekki veigra sér við því að grípa til aðgerða, verði þeir varir við Hezbollah-liða suður af Litaniá. Þetta sagði hann við erindreka Sameinuðu þjóðanna.

Katz sagði að hvert hús sem hýsti hryðjuverkamenn yrði jafnað við jörðu og loftárásir yrðu gerðar á Hezbollah-liða á svæðinu. Hann sagði að Ísraelar myndu hafa enga þolinmæði fyrir brotum gegn vopnahléinu.

Þá krafðist hann frekari aðgerða friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, sem kallast UNIFIL. Þeir hefðu engan veginn komið í veg fyrir að Hezbollah-liðar starfi í suðurhluta Líbanon.

Forsvarsmenn UNIFIL segja þá ekki eiga að koma í veg fyrir Það sé verkefni hersins að gera það. Her Líbanon er hins vegar langt frá því að vera jafn öflugur og Hezbollah-samtökin.

Þúsundir liggja í valnum og rúm milljón á vergangi

Ísraelar og Hezbollah, sem njóta stuðnings klerkastjórnar Íran, hafa lengi eldað grátt silfur saman. Átökin þeirra á milli náðu nýjum hæðum þegar Hezbollah-liðar hófu eldflaugaárásir sínar á Ísrael þann 8. október, eftir að Ísraelar hófu árásir á Gasaströndina. Um sextíu þúsund Ísraelar hafa þurft að flýja heimili sín vegna þessara árása.

Ísraelar hafa gert umfangsmiklar og mannskæðar loftárásir í Líbanon og gerðu innrás í ríkið fyrr í haust, með því yfirlýsta markmiði að reka Hezbollah-liða frá suðurhluta Líbanon.

Að minnsta kosti 3.500 manns liggja í valnum eftir árásir Ísraela í Líbanon, samkvæmt yfirvöldum þar, og rúm milljón manna hafa þurft að flýja heimili sín.


Tengdar fréttir

Jöfnuðu fjölbýlishús við jörðu um miðja nótt

Umfangsmikil loftárás Ísraela í Beirút í Líbanon í nótt jafnaði fjölbýlishús við jörðu. Að minnsta kosti ellefu eru látnir og rúmlega tuttugu særðir en talið er að báðar tölur muni hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×