Skoðun

Kjóstu meiri árangur

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Velferð er byggð á öflugu atvinnulífi, það er forsenda framfara. Þetta vitum við Sjálfstæðismenn. Það á að vera eftirsóknarvert að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Við þurfum að tryggja stöðugleika, hóflega skattheimtu og einfalt regluverk. Við fjármögnum ekki velferðarkerfið okkar með aukinni skattpíningu - eins og vinstri flokkarnir keppast nú um að boða. Við fjármögnum velferðina okkar með stærra og öflugra atvinnulífi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill létta undir með heimilum landsins, við viljum minni verðbólgu, lægri vexti, lægri skatta og þannig skilja meira eftir í vösum vinnandi fólks. Við eigum að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft og styðja þau sem á raunverulegum stuðning þurfa að halda.

Flestir vilja búa í eigin húsnæði, við viljum gera fólki það kleift og stöndum vörð um séreignarstefnuna. Ryðjum í burtu hindrunum sem standa í veginum. Byggjum meira, lækkum vexti og aðstoðum ungt fólk við að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Jöfn tækifæri allra eru forsenda framfara og velferðar. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.

Við viljum heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið en ekki kerfið, þar sem þjónusta er veitt tímanlega og er aðgengileg öllum óháð efnahag. Sjálfstæðisflokkurinn vill aukna nýsköpun og fjölbreyttari rekstrarform sem stuðlar að betri þjónustu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með frjálsum viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum. Við viljum ekki ganga í Evrópusambandið. Hagvöxtur er enda meiri hér en í ESB, atvinnuleysi er minna og fleiri búa í eigin fasteign hér á landi en í ESB. Lífið er einfaldlega betra utan ESB.

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn og tryggjum meiri árangur fyrir okkur öll.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×