Erlent

Meina fyrstu trans þingkonunni að fara á kvennaklósettið

Samúel Karl Ólason skrifar
Sarah McBride er fyrsta transkona sem kjörinn er á þing í Bandaríkjunum.
Sarah McBride er fyrsta transkona sem kjörinn er á þing í Bandaríkjunum. AP/Mark Schiefelbein

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, ætlar að breyta reglum þingsins svo transkonur megi ekki nota kvennaklósett og skiptiklefa í þinghúsinu. Er það skömmu áður en fyrsta trans þingkonan tekur embætti.

Sarah McBride varð fyrr í þessum mánuði fyrsta transkonan til að ná kjöri á þing í Bandaríkjunum. Hún er þingkona fyrir Demókrataflokkinn frá Delaware.

Nancy Mace, þingkona Repúblikanaflokksins frá Suður-Karólínu, lagði í vikunni fram tillögu um að McBride yrði meinaður aðgangur að kvennaklósettum og skiptiklefum í þinghúsinu. Hún lýsti því opinberlega yfir að tillagan væri tilkomin vegna McBride.

„Sara McBride fær engu um þetta ráðið,“ sagði Mace á mánudag. „Ég meina, líffræðilega er þetta karlmaður.“ Hún sagði McBride ekki eiga heima í rýmum fyrir konur. „Punktur.“

Mike Johnson, þingforseti, lýsti því yfir í gær að reglurnar yrðu þannig að McBride fengi ekki að nota kvennaklósett og skiptiklefa í þinghúsinu.

„Konur eiga skilið svæði sem eru eingöngu fyrir konur,“ sagði Johnson.

Degi áður hafði hann neitað því að trans-kona væri kona en sagði að koma ætti fram við alla með reisn og af virðingu.

McBride sjálf átti von á árásum frá öfgafullum Repúblikönum á þingi en samkvæmt New York Times bjóst hún ekki við því að þeir myndu byrja áður en hún væri í raun búin að taka sér embætti, en það gerir hún í janúar.

Í viðtali við CBC í dag benti McBride á að transfólk hefði unnið í þinghúsinu um árabil og það hefði aldrei verið stórt mál í augum Repúblikana, fyrr en nú.

Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gærkvöldi sagðist McBride ætla að fylgja reglum þingsins, þó hún væri ósammála þeim. Hún hefði ekki verið kjörin á þing til að berjast um klósett, heldur vinna í þágu íbúa Delaware.

Þá sagði hún þetta mál vera til þess ætlað að draga athygli frá raunverulegum vandamálum Bandaríkjanna.

Repúblikanar hafa gert það að herja á trans-fólk stóran hluta af kosningabaráttu þeirra á undanförnum árum. Í fulltrúadeildinni hafa þingmenn flokksins ítrekað lagt fram frumvörp um að fella úr gildi réttindi trans-fólks og svipaða sögu er að segja af Repúblikönum í ríkisþingum, víðsvegar um Bandaríkin, eins og fram kemur í frétt New York Times.

Donald Trump talaði ítrekað gegn trans-fólki í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar, sem hann vann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×