Fótbolti

Fyrir­liðinn Glódís Perla og Bayern enn með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Annar af markaskorurum Bayern í kvöld og fyrirliðinn Glódís Perla.
Annar af markaskorurum Bayern í kvöld og fyrirliðinn Glódís Perla. Harry Langer/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir og Sædís Rún Heiðarsdóttir voru báðar í byrjunarliðum sinna liða þegar Bayern München tók á móti Vålerenga í Meistaradeild Evrópu kvenna í fótbolta í kvöld. Bayern gerði út um leikinn snemma leiks.

Bayern hafði unnið báða leiki sína til þessa í keppninni og gat náð toppsætinu á nýjan leik eftir að Arsenal vann óvæntan stórsigur á Juventus í fyrri leik C-riðils í kvöld. 

Fyrirliðinn Glódís Perla og stöllur mættu vel undirbúnar til leiks en eftir aðeins tíu mínútur var hin danska Pernille Harder búin að koma Bayern yfir með skalla eftir stórbrotna stoðsendingu Klöru Bühl.

Aðeins sjö mínútum síðar fékk Bayern gullið tækifæri til að tvöfalda forystuna þegar vítaspyrna var dæmd. Giulia Gwinn fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Bayern lét ekki staðar numið þar og bætti Sarah Zadrazil þriðja markinu við þegar komið var fram í uppbótartíma leiksins. Lokatölur 3-0  sem þýðir að Bayern er með 9 stig að loknum þremur leikjum í C-riðli. Arsenal er með sex stig, Juventus þrjú en Vålerenga er án stiga.

Í D-riðli var Hammarby í heimsókn hjá Manchester City. Gestirnir frá Svíþjóð töpuðu 9-0 fyrir Barcelona í síðustu umferð og ætluðu sér alls ekki að lenda í öðru eins í kvöld. 

Tókst Hammarby að halda marki sínu hreinu allt fram í síðari hálfleik en hann var hins vegar aðeins tveggja mínútna gamall þegar Laura Blindkilde braut ísinn fyrir Man City.

Aoba Fujino tvöfaldaði forystu heimaliðsins eftir undirbúning Leila Ouahabi þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Lokatölur leiksins 2-0 og Man City komið á topp D-riðils með fullt hús stiga á meðan Hammarby er með þrjú stig í 3. sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×